Almannatryggingar. Skattar og gjöld. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11160/2021)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og Skattinum og að styrkur frá Blindrafélaginu hefði leitt til þess að ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun lækkuðu.

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að fyrir lægi tiltekin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beindist sérstaklega að viðkomandi heldur væri fremur verið að biðja um að umboðsmaður léti í té almenna lögfræðilega álitsgerð um grundvöll ellilífeyrisgreiðslna og áhrif tekna í því sambandi. Því voru ekki lagaskilyrði til að taka erindið til meðferðar sem kvörtun.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 5. júní sl., sem beinist m.a. að Tryggingastofnun og Skattinum og lýtur að tilviki þar sem styrkur sem Blindrafélagið veitti ellilífeyrisþega leiddi til þess að ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun lækkuðu.

   

II

1

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin lúti að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hafi þýðingu fyrir hagsmuni hans. Umboðsmanni er hins vegar ekki ætlað samkvæmt lögum að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að fyrir liggi tiltekin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beinst hefur að yður sérstaklega heldur sé þar fremur um að ræða beiðni um að umboðsmaður láti í té almenna lögfræðilega álitsgerð um grundvöll ellilífeyrisgreiðslna og áhrif tekna í því sambandi. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að ég taki erindi yðar til meðferðar sem kvörtun.

Ef atvik eru hins vegar með þeim hætti að fyrir liggi tiltekin ákvörðun Tryggingastofnunar, sem beinist að yður sérstaklega og þér teljið ekki samrýmast lögum, þá bendi ég á að í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði upp úrskurð í málum þar sem ágreiningur er um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 kemur fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar skuli vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Ef kvörtun yðar beinist að fyrirliggjandi ákvörðun Trygginga­stofnunar í máli yðar eru ekki, í samræmi við framangreint, lagaskilyrði til þess að ég geti tekið hana til athugunar að svo stöddu. Ef þér teljið tilefni til þess að bera málið undir úrskurðarnefnd velferðarmála og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

2

Einnig kemur fram að þér hafið sent fjármála- og efnahagsráðherra erindi vegna tilviksins og forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðherra og þingmanni afrit af henni en engin svör hafi borist.

Þar sem fyrirspurnin fylgdi ekki kvörtun yðar tel ég rétt að taka fram að ef efni erindisins var að vekja athygli ráðherranna sem stjórnmálamanna á tilteknu málefni eða hvetja þá til að beita sér fyrir breytingum á löggjöf eða öðrum reglum verður það að vera ákvörðun þeirra hvernig þeir bregðast við og þar með hvort þeir svara erindinu sérstaklega. Ef erindið var aftur á móti sent fjármála- og efnahagsráðherra, eða ráðuneyti hans, vegna ábyrgðar hans á málaflokki í stjórnsýslunni, s.s. til að fá upplýsingar eða leiðbeiningar, ber honum að bregðast við erindinu þannig að þér búið ekki við óvissu um hvort erindið hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því, og þá án ástæðulausra tafa. Af kvörtuninni og gögnum sem henni fylgdu verður ekki ráðið hvenær þér beinduð erindi yðar fjármála- og efnahagsráðherra en ef þér teljið orðið óhæfilegan drátt á svörum getið þér leitað til mín með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Í því sambandi tek ég þó fram að af hálfu umboðsmanns hefur almennt verið gengið eftir því að viðkomandi leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvalds telji hann drátt vera orðinn á viðbrögðum og gefi þannig stjórnvaldinu færi á að bregðast við ef rétt reynist að erindi hafi ekki verið afgreitt á eðlilegum hraða. Slíkri kvörtun þyrftu því að fylgja öll fyrirliggjandi gögn um samskipti við ráðherra eða ráðuneyti hans, þ. á m. skrifleg ítrekun á erindinu.

Hvað varðar skort á viðbrögðum forsætisráðherra og samgöngu- og sveitar­stjórnarráðherra við erindi yðar tek ég fram að af hálfu umboðsmanns hefur almennt ekki verið talið tilefni til að gera athugasemdir við að stjórnvöld bregðist ekki sérstaklega við þegar þeim er sent afrit af erindum til annarra stjórnvalda. Þá tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Ákvæðið hefur meðal annars verið skilið á þann veg að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með opinberri framgöngu þingmanna og meðferð þeirra á skyldum sínum sem þjóðkjörinna fulltrúa. Sama á við um það hvort þeir bregðist við erindum sem er beint til þeirra sem þingmanna.

   

III

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.