Samgöngumál. Vegamál. Skipulagsmál.

(Mál nr. 11161/2021)

Kvartað var yfir framgangi Vegagerðarinnar og tiltekins sveitarfélags í tengslum við vegagerð. Stjórnvöld hafi ítrekað neytt aðstöðu- og aflsmunar og beitt yfirgangi. 

Umboðsmaður benti meðal annars á að það væri hlutverk þessara stjórnvalda, auk annarra, að annast vegagerð og framkvæmd skipulagsmála í þágu ríkis og sveitarfélaga. Þeir sem teldu brotið á rétti sínum hefðu ýmis úrræði s.s. að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Athugasemdir um aðstöðu- og aflsmun lytu öðrum þræði að fyrirkomulagi sem hefði verið ákveðið með lögum Alþingis og það félli utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um hvernig tekist hefði til með lagasetningu. Þá  gæfi kvörtunin ekki nægilegt tilefni til að taka stjórnsýslu Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins í tengslum við umrædda vegagerð til almennrar athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar 6. þessa mánaðar [...] yfir framgangi Vegagerðarinnar og [sveitarfélagsins X] frá árinu 2003 í tengslum við fyrirhugaða vegagerð á svæðinu. Í kvörtuninni er rökstutt á þá leið að munur á aðstöðu og afli yðar samanborið við stjórnvöld sé mikill og að þau hafi beitt yður yfirgangi. Þá segir að erindi yðar til mín sé að rýna í hið langa ferli þar sem ítrekað hafi gætt aðstöðu- og aflsmunar. Jafnframt segir að umkvörtunarefnið sé að yður þyki ríkið endurtekið ganga á hagsmuni yðar og að það sé heldur ójafn leikur.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk mitt að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en almennt ekki til starfa Alþingis. Af því leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um hvernig Alþingi hefur tekist til með lagasetningu.

Í 4. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um að umboðsmaður geti tekið mál til meðferðar eftir kvörtun og samkvæmt 6. gr. laganna skal í kvörtun lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar. Þá er kveðið á um að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 kemur svo fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 120/2012, um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, er hlutverk stofnunarinnar að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins samkvæmt lögunum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir. Þá fer X með skipulagsmál innan marka sveitarfélagsins, sbr. m.a. skipulagslög nr. 123/2010. Það er því hlutverk þessara stjórnvalda, auk annarra, á grundvelli laga sem hafa verið sett af Alþingi að annast um vegagerð og framkvæmd skipulagsmála í þágu ríkis og sveitarfélaga. Eðli málsins samkvæmt þurfa stjórnvöld að hafa fjárhagslegt og faglegt bolmagn til að framkvæma þessi verkefni. Á hinn bóginn hefur Alþingi ákveðið að einstaklingar hafi ýmis úrræði telji þeir að á rétti sínum hafi verið brotið, s.s. að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Athugasemdir yðar um aðstöðu- og aflsmun á þessu sviði lúta öðrum þræði að fyrirkomulagi sem hefur verið ákveðið með lögum Alþingis. Í samræmi við það sem áður er rakið um starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997 fellur ekki að hlutverki mínu að fjalla um hvernig til hefur tekist að þessu leyti með lagasetningu.

Aftur á móti getur fallið undir starfssvið mitt að fjalla um hvernig stjórnvöld framkvæma vald sem þeim er falið samkvæmt lögum Alþingis, en kvörtun yðar beinist sem fyrr greinir einnig að framgöngu framangreindra stjórnvalda. Af kvörtuninni verður þó ekki annað ráðið en að athugasemdir yðar að þessu leyti snúi að háttsemi stjórnvaldanna almennt í tengslum við fyrirhugaða vegagerð og nái yfir langt árabil, en ljóst er að töluverður ágreiningur hefur verið um málið. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar tel ég hana ekki veita mér nægilegt tilefni til almennrar athugunar á stjórnsýslu Vegagerðarinnar og X í tengslum við umrædda vegagerð. Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Ég vek þó athygli á að ef þér teljið að afmarkaðir þættir í framgöngu Vegagerðarinnar eða X eða einstakar ákvarðanir stjórnvalda hafi verið á skjön við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Verður þá metið hvort skilyrði laga nr. 85/1997 séu uppfyllt til að taka kvörtunina til meðferðar.