Ökuréttindi.

(Mál nr. 11168/2021)

Kvartað var yfir synjun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um endurnýjun ökuréttinda frá Danmörku.

Ekki var ljóst hvort fyrir lægi formleg synjun á umsókn um endurnýjun ökuréttinda. Ef svo væri eða til kæmi mætti kæra þá synjun til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Af þeim sökum væru ekki uppfyllt skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem hljóðar svo:

Vísað er til kvörtunar yðar frá 10. júní sl. sem lýtur að synjun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni yðar um endurnýjun ökuréttinda yðar frá Danmörku.

Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 getur ráðherra ákveðið að ökuskírteini útgefið í öðru ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gildi einnig eftir að handhafi þess hefur sest að hér á landi, samkvæmt nánari reglum. Nánar er fjallað um útgáfu ökuskírteinis eftir afturköllun ökuréttinda eða sviptingu ökuréttar í VI. kafla reglugerðar nr. 830/2011, um ökuskírteini, með síðari breytingum, og um erlend ökuskírteini í VII. kafla reglugerðarinnar. Í 3. tölul. 10. mgr. 31. gr. kemur fram að sýslumaður geti krafist þess að umsækjandi þreyti bóklegt próf fyrir B-flokk og jafnframt verklegt próf fyrir hvern ökuréttindaflokk sem umsóknin varðar hafi hann verið sviptur ökurétti. Synji sýslumaður umsókn um endurnýjun ökuréttinda getur umsækjandi kært synjunina til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ég legg þann skilning í kvörtun yðar að þér teljið yður ekki þurfa að gangast undir nýtt ökupróf þar sem þér tókuð ökupróf í Danmörku eftir að þér voruð sviptur ökurétti árið 2012. Kvörtun yðar fylgdu hins vegar engin gögn. Mér er því ekki ljóst hvort fyrir liggur formleg synjun á umsókn yðar um endurnýjun ökuréttinda. Ef svo er eða verði henni synjað ef þér sækið formlega um endurnýjun ökuréttindanna getið þér kært þá synjun sýslumanns til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Af þeim sökum og með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ég tek fram að kjósið þér að bera synjun sýslumanns undir ráðuneytið getið þér leitað til mín á ný teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins til máls yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.