Orku og auðlindamál. Skattar og gjöld. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 10903/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á erindi vegna hækkunar á reikningum fyrir heitt vatn í kjölfar þess að orkugjald var innheimt samkvæmt orkumæli en ekki rennslismæli.

Umboðsmaður taldi ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að innheimta á gjaldi samkvæmt orkumæli hefði byggst á fullnægjandi lagaheimild. Hann taldi ekki heldur unnt að fullyrða að skipti á mælum með þeim hætti sem lýst var hefðu verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum eða framkvæmdin hefði verið í andstöðu við jafnræðisreglur. Ekki væri heldur ástæða til að gera athugasemdir við gjaldskrá Hitaveitu Húnaþings vestra og þá yrði ekki annað ráðið en rannsókn málsins hefði verið fullnægjandi hjá ráðuneytinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar frá 8. janúar sl. yfir afgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins, með bréfi frá 7. febrúar 2020, á erindi yðar vegna hækkunar á reikningum fyrir heitt vatn fyrir húsnæði yðar, [...], frá Hitaveitu Húnaþings vestra (HHV) í kjölfar þess að byrjað var að innheimta orkugjald samkvæmt orkumæli í stað rennslismælis á árinu 2017.

Við meðferð kvörtunarinnar hafa gögn vegna fyrri kvörtunar yðar til umboðsmanns um sama efni (mál nr. 10239/2019) verið höfð til hliðsjónar.

Í tilefni af kvörtun yðar var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ritað bréf, dags. 19. mars sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum og skýringum um tiltekin atriði og barst svar þess með bréfi, dags. 19. apríl sl., sem fylgir hjálagt í ljósriti.

   

II

1

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. orkulaga nr. 58/1967 skal ráðherra staðfesta gjaldskrá fyrir hitaveitu sem starfar á grundvelli einkaleyfis. Samkvæmt almennum reglum ber ráðherra að gæta að lögmæti gjaldskrárinnar við staðfestingu hennar. Ákvarðanir hitaveitna um gjaldtöku fyrir sölu á heitu vatni sem teknar eru á grundvelli gjaldskrár eru ekki kæranlegar til ráðherra. Hins vegar hefur ráðherra eftirlit með slíkri gjaldtöku á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna.

Við mat á því hvort tilefni sé til viðbragða á fyrrgreindum grundvelli hefur ráðherra verulegt svigrúm til mats með tilliti til atvika og þeirra lagareglna sem á reynir. Þótt viðbrögð ráðuneytis við erindi, sem beint er til ráðuneytis með vísan til eftirlitshlutverks þess, geti komið til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis er það ekki hans að leggja til grundvallar eigið mat heldur fyrst og fremst að taka til athugunar hvort fylgt hafi verið réttum málsmeðferðarreglum við meðferð erindisins, s.s. hvort matið hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum, hvort málefnaleg og lögmæt sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun og mati ráðuneytis og ályktanir hafi ekki verið bersýnilega óforsvaranlegar miðað við fyrirliggjandi gögn. Athugun mín á þeim atriðum í kvörtun yðar sem lúta að framkvæmd mælaskipta hjá HHV og hækkun á hitaveitureikningum yðar hefur tekið mið af þessu. 

2

Þegar atvik þessa máls gerðust var í gildi gjaldskrá hitaveitu Húnaþings vestra nr. 599/2016, staðfest af iðnaðar- og viðskiptaráðherra 30. júní 2016. Jafnframt var í gildi reglugerð nr. 1192/2012, um Hitaveitu Húnaþings vestra, sett með stoð í lögum nr. 58/1967. Í 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar segir m.a. að HHV ákveði stærð og gerð hemla og mæla og miðað sé við að veitan selji heitt vatn um rennslismæla þótt í undantekningartilfellum sé heimilt að selja heitt vatn samkvæmt hemli. Í 1. mgr. 16. gr. kemur fram að gjaldi vegna kaupa á heitu vatni sé skipt í fast gjald, gjald eftir hemli (lítra á mínútu) og gjald fyrir hvern seldan rúmmetra vatns samkvæmt rennslismæli auk mælaleigu. Í 17. gr. kemur fram að kaupandi skuli greiða HHV fyrir heitt vatn samkvæmt gildandi gjaldskrá HHV.

Í 2. gr. gjaldskrár nr. 599/2016 var mælt fyrir um að HHV léti setja rennslismæli, orkumæli eða stillanlegan hemil fyrir hámarksrennsli til hvers upphitunarkerfis og miðaðist gjald hitaveitunnar fyrir selt heitt vatn við rúmmetra samkvæmt rennslismælinum, orkuinnihald eða það hámark, sem hemillinn væri stilltur á.

Að virtum framangreindum ákvæðum og því að reglugerðin, sem ráðherra setti, og gjaldskráin, sem staðfest er af ráðherra, eru hliðsett stjórnvaldsfyrirmæli, tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að innheimta HHV á gjaldi fyrir heitt vatn samkvæmt orkumæli hafi byggst á fullnægjandi lagaheimild. Er þá einnig litið til þess að í lögum nr. 58/1967 er ekki fjallað sérstaklega um gjaldstofn eða aðferðir við ákvörðun gjalds fyrir sölu á heitu vatni og verður því að ætla einkaleyfishöfum tiltekið svigrúm við útfærslu á því.

3

Fyrir liggur að markmiðið með mælaskiptunum var að jafna orkuverð til notenda svo þeir greiddu fyrir það orkumagn (orkuígildi) sem þeir fengju óháð því hvaða hitastig væri á vatninu. Þá liggja fyrir skýringar á mismunandi verði innan svæða hitaveitunnar fyrir mælaskiptin. Að þessu virtu tel ég ekki unnt að fullyrða að skipti á mælum með þeim hætti sem lýst hefur verið hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum eða að framkvæmdin hafi verið í andstöðu við jafnræðisreglur. Ég tel því ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtuninni eða athugun ráðuneytisins á því til frekari athugunar.

4

Samkvæmt 6. mgr. 32. gr. laga nr. 58/1967 er eiganda hitaveitu ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé hitaveitunnar.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 1192/2012 kemur m.a. fram að tekjum HHV skuli varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstri og stofnkostnaði, þannig að tryggður sé öruggur rekstur veitunnar, svo og til greiðslu afborgana og vaxta af skuldum veitunnar vegna stofnkostnaðar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skuli ákveðin af sveitarstjórn. Heimilt sé að mynda framkvæmdasjóð er hentugur þykir til undirbúnings kostnaðarsamra framkvæmda í uppbyggingu veitunnar. Við gerð gjaldskrár skuli þess gætt að orkuverð sé við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma sé bundið í rekstri fyrirtækisins, einnig skuli að því stefnt að veitan skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að geta jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga orku á hagkvæmu verði.

Í bréfi ráðuneytisins til yðar frá 7. febrúar 2020 er gerð grein fyrir afkomu HHV á árabilinu 2016-2018 og tekið fram að veitan hafi ekki greitt arð til eigenda sinna árin 2016-2109.

Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að forsendur fyrir mati Orkustofnunar á sanngjörnu orkuverði til notenda samkvæmt gjaldskrá hafi breyst frá því að fyrst var leitað til stofnunarinnar. Í seinni greinargerð Orkustofnunar, dags. 22. nóvember 2019, hafi komið fram að fyrra mat hafi ekki tekið til útgjalda, kostnaðar við innleiðingu á orkumælunum, kostnaðar við framkvæmdir við stækkun á dreifikerfi HHV eða annarra atriða sem geti haft áhrif á rekstrarniðurstöðu veitunnar.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki efni til að taka til frekari athugunar skoðun ráðuneytisins á því hvort tilefni væri til að gera athugasemdir við gjaldskrá HHV.

5

Að lokum liggja fyrir upplýsingar og skýringar Hitaveitu Húnaþings vestra á hækkun hitaveitureikninga yðar á því tímabili sem var til skoðunar í málinu auk álits Orkustofnunar sem ráðuneytið aflaði í tilefni af athugun sinni á kvörtun yðar.

Ekki verður annað ráðið en að ráðuneytið hafi rannsakað framangreint mál með fullnægjandi hætti. Að virtu því svigrúmi sem ráðuneytið hefur til mats á því hvort tilefni sé til að grípa til úrræða gagnvart stjórnvaldinu sem eftirlitið beinist að, skýringum þess og fyrirliggjandi gögnum málsins tel ég ekki tilefni til að taka til frekari athugunar þá afstöðu ráðuneytisins að gera ekki athugasemdir við hitaveitureikninga yðar frá HHV.

    

III

Samkvæmt öllu framangreindu tel ég ekki ástæðu til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar og lýk umfjöllun minni um málið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.