Lögreglu- og sakamál. Niðurfelling máls. Andmælaréttur. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 10941/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu héraðssaksóknara og ríkissaksóknara á kæru. Gerðar voru athugasemdir við að ekki hefði verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en málið var fellt niður. 

Að virtum gögnum málsins, atvikum þess og svigrúmi handhafa ákæruvalds taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu ríkissaksóknara að fella málið niður. Ekki varð séð að byggt hefði verið á ómálefnalegum sjónarmiðum eða mat á gögnum málsins hefði verið bersýnilega óforsvaranlegt. Þá yrði ekki annað séð en gætt hefði verið réttra málsmeðferðarreglna við meðferð málsins. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 10. febrúar sl., vegna afgreiðslu héraðssaksóknara og ríkissaksóknara á kæru yðar, dags. 27. apríl 2020, á hendur þremur systkinum yðar og lögmanni fyrir fjársvik og fjárdrátt í tengslum við einkaskipti á dánarbúi föður yðar.

Samkvæmt gögnum málsins var rannsókn máls nr. [...] hætt af hálfu héraðssaksóknara 7. júlí sl. með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Sú ákvörðun var staðfest af ríkissaksóknara 3. nóvember sl. Athugasemdir yðar lúta fyrst og fremst að því að yður hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum yðar á framfæri í kjölfar yfirheyrslna sakborninga áður en málið var fellt niður. Ekki hafi verið tekin skýrsla af yður hjá héraðssaksóknara eða framburðir annarra bornir undir yður.

   

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er rannsókn sakamála í höndum lögreglu, undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra, nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum. Í j-lið 1. mgr. 23. gr. segir að héraðssaksóknari höfði sakamál ef um er að ræða m.a. brot á ákvæðum XXVI. kafla hegningarlaga nr. 19/1940, sem hann rannsakar samkvæmt lögreglulögum.

Í 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 segir m.a. að sé rannsókn hafin geti lögregla hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn eða kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Með ákvæðinu hefur löggjafinn falið lögreglu, og eftir atvikum öðrum þeim sem fer með rannsókn máls, að meta hvort grundvöllur þyki til að halda slíkri rannsókn áfram eða fella hana niður. Er þetta í samræmi við það almennt viðurkennda viðhorf að lögregla og ákæruvald hafi ákveðið svigrúm, m.a. að virtu eðli og alvarleika ætlaðs brots og sönnunarstöðu, til að meta hvort fjármunum, mannafla og öðrum takmörkuðum gæðum skuli varið í þágu rannsóknar tiltekins máls.

Vegna umrædds svigrúms sem lögreglu, og eftir atvikum héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara, er samkvæmt framangreindu fengið með lögum nr. 88/2008 beinist athugun umboðsmanns Alþingis einkum að því að kanna hvort gætt hafi verið réttra aðferða við undirbúning ákvörðunar um að mál á rannsóknarstigi skuli fellt niður, hvort hún hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og mati sem ekki er bersýnilega óforsvaranlegt. Umboðsmaður getur hins vegar ekki lagt til grundvallar eigið mat á því hvort hugsanlega hefðu verið efni til að halda rannsókn sakamáls áfram eða gefa út ákæru. Í því sambandi hefur einnig þýðingu að heimildir lögreglu og handhafa ákæruvalds til að taka sakamál til meðferðar að nýju sæta verulegum takmörkunum vegna hagsmuna sakbornings. Þótt málsmeðferð og ákvörðunartaka um niðurfellingu sakamála geti þannig komið til umfjöllunar umboðsmanns eru því takmörk sett að hvaða marki hann getur beint tilmælum til lögreglu eða handhafa ákæruvalds um að taka mál sem hefur verið fellt niður til nýrrar meðferðar.

Ákvörðun ríkissaksóknara í máli yðar, dags. 3. nóvember sl., þar sem ákvörðun héraðssaksóknara, dags. 7. júlí sl., var staðfest er m.a. byggð á því að þótt dregist hafi hjá kærðu að tilkynna yður um eignir föður yðar í [...] verði slíkt ekki talið fela í sér refsinæma háttsemi. Í þeim efnum er bent á að eigendaskipti hafi á þessum tíma orðið á bankanum sem og margt bendi til þess að bankareikningar í nafni þeirra hafi verið stofnaðir af bankanum. Jafnframt að svo virðist sem þér hafið við gerð samkomulags við kærðu 2. maí 2010, um skipti á dánarbúi föður yðar, haft aðgang að fullnægjandi upplýsingum um umræddar eignir í [...]til að geta tekið upplýsta ákvörðun um skiptin.

Að virtum gögnum málsins, atvikum þess og fyrrgreindu svigrúmi handhafa ákæruvalds tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þessa afstöðu ríkissaksóknara. Er þá horft til þess að ekki verður séð að byggt hafi verið á ómálefnalegum sjónarmiðum eða mat á gögnum málsins hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt. Að lokum verður ekki annað séð en að réttra málsmeðferðarreglan hafi verið gætt við meðferð málsins. Hér hef ég m.a. hliðsjón af því að samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er ekki skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun um að hætta rannsókn er tekin sem og sjónarmiðum ríkissaksóknara í þessum efnum, þ.e. að fyrir hafi legið mjög ítarleg greinargerð yðar, dags. 27. apríl 2020, þar sem sjónarmið yðar eru rakin.

2

Við meðferð málsins vakti tölvubréf starfsmanns héraðssaksóknara frá 20. júlí sl. athygli mína. Í honum er beiðni lögmanns yðar um afhendingu tiltekinna gagna málsins synjað á þeim grundvelli að „[k]ærandi/brotaþoli [teljist] ekki aðili sakamáls skv. 1. mgr. 29. gr. sbr. 5. mgr. sömu greinar.“

Þótt kvörtun yðar hafi ekki lotið að þessu atriði tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur brotaþoli krafist þess að fá að kynna sér gögn málsins eftir að það hefur verið fellt niður eða því lokið með öðrum hætti. Kæra má synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti. Undantekning frá því er þegar afsakanlegt getur talist að kæra hafi ekki borist fyrr sbr. 1. tölul. ákvæðisins eða veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar sbr. 2. tölul. sama ákvæðis. Ákvæðið mælir þannig að meginstefnu fyrir um skyldu stjórnvalds til að vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti. Þó þarf stjórnvaldið að leggja mat á hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þótt lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum eru dæmi um slík tilvik m.a. þegar lægra stjórnvald vanrækir að veita leiðbeiningar um kæruheimild til aðila máls eða veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3308.) Þá er það svo að kæru skal ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr.

Í samræmi við framangreint er yður fær sú leið að freista þess að bera synjun héraðssaksóknara um aðgang að gögnum málsins undir ríkis­saksóknara með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga áður en ársfrestur samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laganna er liðinn. Ef þér kjósið að leita til ríkissaksóknara, og þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni úrlausn embættisins, er yður fært að leita til mín á ný með kvörtun þar að lútandi innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.