Börn. Foreldrar. Forsjá. Stjórnsýslukæra. Málshraði.

(Mál nr. 11083/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru sem laut að synjun sýslumanns á beiðni um að fara með dóttur til útlanda.

Í svari frá dómsmálaráðuneytinu til umboðsmanns kom fram að kveðinn hefði verið upp úrskurður í málinu. Fyrir mistök hefði ráðuneytið tilgreint að afgreiðslutími þess væri að öllu jöfnu sex mánuðir. Settar hefðu verið verklagsreglur um afgreiðslu kærumála vegna úrskurða sýslumanns, þ.m.t. um utanlandsferðir barna. Slíkum málum væri forgangsraðað framar öðrum kærumálum og meðferð þeirra flýtt svo það næðist að taka ákvörðun fyrir tilgreindan ferðatíma. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast í frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til erindis yðar til mín, dags. 10. maí sl., þar sem þér kvartið yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru yðar, sem laut að synjun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni yðar um að fara með dóttur yðar erlendis á fjórum nánar tilgreindum tímabilum.

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf, dags. 9. júní sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og  afgreiðslu málsins. Þá var þess jafnframt óskað að ráðuneytið upplýsti mig um hvort það hefði sett sér eða fyrirhugaði að setja sérstök viðmið um afgreiðslutíma kærumála vegna úrskurða sýslumanns um utanlandsferðir samkvæmt 51. gr. a. í barnalögum nr. 76/2003.

Mér hefur nú borist svar ráðuneytisins, dags. 18. júní sl., þar sem fram kemur að hinn 7. júní sl. hafi verið kveðinn upp úrskurður í málinu. Þar kom jafnframt fram að fyrir mistök hefði ráðuneytið tilgreint í bréfi til yðar að afgreiðslutími þess væri að öllu jöfnu sex mánuðir. Þá hefðu verið settar verklagsreglur um afgreiðslu kærumála vegna úrskurða sýslumanns, þ.m.t. um utanlandsferðir barna samkvæmt 51. gr. a. barnalaga. Slíkum málum væri forgangsraðað framar öðrum kærumálum og meðferð þeirra flýtt svo það næðist að taka ákvörðun fyrir tilgreindan ferðatíma.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu ráðuneytisins og þar sem þeirri afgreiðslu er nú lokið tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á máli yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að teljið þér yður beittan rangsleitni með úrskurði ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Sú kvörtun yrði að berast mér innan árs frá því að niðurstaða ráðuneytisins lá fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.