Skattar og gjöld. Álagning og innheimta fasteignagjalda. Skráning og mat fasteigna.

(Mál nr. 2878/1999)

A og B, sem eru hjón, kvörtuðu yfir fyrirkomulagi Hafnarfjarðarbæjar við sendingu greiðsluáskorana til þeirra í tilefni af vangreiddum fasteignagjöldum af íbúð þeirra.

Innheimtudeild Hafnarfjarðbæjar sendi A einum innheimtuseðla vegna fasteignagjalda af íbúð í eigu hjónanna en slíkum seðlum var ekki beint að B sérstaklega. Í málinu var upplýst að A stóð aðeins skil á hluta gjaldanna á gjalddaga. Í kjölfarið skoraði bærinn á A og B, í bréfi sem sent var þeim báðum, að greiða eftirstöðvar ógreiddra fasteignagjalda ásamt dráttarvöxtum og kostnaði innan 15 daga frá móttöku greiðsluáskorunarinnar. Var tekið fram að bærinn myndi að framangreindum tíma liðnum krefjast nauðungarsölu á fasteign hjónanna án frekari tilkynninga.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Lagði umboðsmaður áherslu á að á B hvíldi lagaskylda sem annars eiganda umræddrar fasteignar til að greiða fasteignagjald í samræmi við eignarhlut sinn í íbúðinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995. Þá rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, og reglugerðar nr. 406/1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat. Tók hann meðal annars fram að samkvæmt 1. gr. laganna, eins og hún hljóðaði þegar atvik málsins áttu sér stað, bar að halda skrá um allar fasteignir í landinu þar sem fram kæmu upplýsingar um eiginleika eignanna og „rétt til þeirra“. Taldi umboðsmaður að ákvæði framangreindra laga og reglugerða gerðu beinlínis ráð fyrir því að sveitarstjórnir, sem opinberir aðilar, byggðu álagningu fasteignagjalda á upplýsingum, meðal annars um eigendur, sem Fasteignamat ríkisins gæfi út í lok hvers árs. Í ljósi þess að löggjafinn hefði með skýrum hætti kveðið á um skyldu eiganda fasteignar til að greiða fasteignagjald taldi umboðsmaður að skýra yrði ofangreind ákvæði laga svo að sveitarfélagi væri skylt að beina álagningu fasteignagjalda og innheimtuseðlum vegna þeirra að hverjum eiganda fasteignar fyrir sig og þá vegna eignarhluta hans í fasteigninni. Tók umboðsmaður fram að enda þótt sérstök sjónarmið, meðal annars um hagræði, kynnu í sjálfu sér að eiga við þegar eigendur væru hjón og byggju á sama stað fengi hann ekki annað séð en að lög gerðu ráð fyrir almennri reglu í þessu efni enda yrði með því móti best gætt réttaröryggis hvers fasteignareiganda fyrir sig. Hins vegar áréttaði umboðsmaður að þessi lögskýring stæði því ekki í vegi að sveitarfélag gæti leitað eftir sérstöku samþykki sameigenda að fasteign um að hafa ákveðinn hátt á innheimtu fasteignagjalda í hagræðingarskyni, t.d. þannig að eigendur samþykktu að álagningar- og/eða innheimtuseðlar yrðu sendir á nafn eins eiganda og það teldist fullnægjandi tilkynning að þessu leyti gagnvart þeim.

Um það hvort Hafnarfjarðarbæ hefði eins og á stóð verið heimilt að krefja B um kostnað vegna sendingar greiðsluáskorunar til hennar og dráttarvexti af þeim vangreiddum fasteignagjöldum vakti umboðsmaður á þeirri almennu reglu að kröfuhafi gæti krafið skuldara um þann kostnað sem stafaði af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila skuldara þannig að kröfuhafi yrði skaðlaus ákvæðum laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, meðal annars um sendingu greiðsluáskorana, sbr. 9. gr. laganna, ef ákveðið hefði verið af hálfu sveitarstjórna að krefjast nauðungarsölu á fasteign til fullnustu vangoldinna fasteignagjalda. Var það niðurstaða umboðsmanns að Hafnarfjarðarbær hefði samkvæmt lögum nr. 90/1991 verið skylt að lögum að beina greiðsluáskorun til A og B í því skyni að geta beiðst nauðungarsölu á eigninni vegna vangreiddra fasteignagjalda. Í ljósi þessa og atvika málsins taldi umboðsmaður að ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun bæjarins að gera B að greiða umræddan kostnað vegna innheimtuaðgerða bæjarins og umkrafða dráttarvexti.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar að hún sæi til þess að framkvæmd innheimtu fasteignagjalda hjá bænum yrði framvegis hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá ákvað umboðsmaður að vekja athygli félagsmálaráðuneytisins á niðurstöðum hans í álitinu, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins að það gerði nauðsynlegar ráðstafanir til að vekja athygli sveitarfélaga á málinu og að framkvæmd umræddrar innheimtu yrði breytt til þess fyrirkomulags sem hann teldi að leiddi af skýringu laga um fasteignagjöld og skráningu fasteigna.

I.

Hinn 16. nóvember 1999 leituðu til mín A og B og kvörtuðu einkum yfir fyrirkomulagi Hafnarfjarðarbæjar við sendingu greiðsluáskorana til þeirra í tilefni af vangreiddum fasteignagjöldum.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. janúar 2001.

II.

Málavextir eru þeir að A og B eru hjón og eiga til helminga íbúðarhúsnæði að X 9 í Hafnarfirði. Árið 1999 námu álögð fasteignagjöld vegna húsnæðisins 67.314 kr. og bar þeim samkvæmt ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að greiða þau með jöfnum greiðslum 15. hvers mánaðar fyrstu sex mánuði ársins.

Af gögnum málsins er ljóst að innheimtudeild Hafnarfjarðarbæjar sendi A einum innheimtuseðla vegna umræddra fasteignagjalda, þ.e. 11.219 kr. í upphafi hvers mánaðar. Innheimtuseðlum var ekki beint að B sérstaklega. Í málinu er upplýst að A stóð aðeins skil á hluta gjaldanna á gjalddaga. Hinn 11. október 1999 skoraði Hafnarfjarðarbær á A og B að greiða eftirstöðvar ógreiddra gjalda að fjárhæð 58.166 kr. ásamt dráttarvöxtum, 2.828 kr., og kostnaði að fjárhæð 5.000 kr., innan 15 daga frá móttöku áskorunarinnar. Í bréfinu, sem var sent þeim báðum, var tekið fram að bærinn myndi að framangreindum tíma liðnum krefjast nauðungarsölu á fasteigninni að X 9 án frekari tilkynninga.

III.

Í tilefni af kvörtun A og B ritaði ég Hafnarfjarðarbæ bréf, dags. 30. nóvember 1999, og óskaði eftir svörum við eftirfarandi atriðum með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis:

„1. Í greiðsluáskorun til beggja er tilgreind sama fjárhæð sem eftirstöðvar höfuðstóls frá 1999, kr. 58.166. Hvernig sundurliðast þessi fjárhæð miðað við álögð fasteignagjöld 1999, á íbúð [A] og [B] að [X] 9 að teknu tilliti til greiðslna? Er fjárhæðin kr. 58.166 heildarfjárhæð eftirstöðva gjalda ársins 1999 vegna eignarinnar?

2. Útreikning þeirra dráttarvaxta sem tilgreindir eru í greiðsluáskoruninni, þ.e. af hvaða fjárhæð þeir eru reiknaðir og frá hvaða tíma.

3. Í báðum greiðsluáskorunum er tilgreindur: „Kostnaður ... kr. 5.000.-“. Hvaða kostnaður er þetta, með hvaða hætti er þessi fjárhæð ákveðin og á hvaða lagagrundvelli er [A] og [B] gert að greiða hann?

4. Var álagningu og greiðsluseðlum vegna fasteignagjalda ársins 1999 vegna fasteignar [A] og [B] að [X] 9 eingöngu beint til [A]. Ef svo var óska ég eftir upplýsingum um á hverju það hafi verið byggt og hvort greiðsluáskorun, dags. 11. október 1999, hafi verið fyrsta tilkynning sem [B] barst frá Hafnarfjarðabæ um að henni bæri að greiða þessi gjöld ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Þá óska ég eftir upplýsingum um á hverju tilgreining eignarhluta, þ.e. 50% og 50%, þeirra [A] og [B] á tilkynningu um álagningu fasteignagjalda 1999 er byggð.“

Með bréfum, dags. 4. febrúar 2000, 14. mars, 3. maí og 20. júní s.á., ítrekaði ég tilmæli mín til Hafnarfjarðarbæjar. Mér bárust svör Hafnarfjarðarbæjar með bréfi bæjarlögmanns, dags. 9. ágúst 2000. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„Fasteignagjöld 1999 voru kr. 67.314.- fyrir fasteignina að [X] 9, eignarhluta [...], Hafnarfirði, þinglýst eign [A] og [B]. Fasteignagjöld vegna eignarinnar fyrir árið 1999 eru nú ekki í vanskilum, þannig að ekki er um eftirstöðvar vegna þess gjaldárs að ræða.

Gjöldin sundurliðast þannig að gjalddagi þeirra er 15. dagur fyrstu fyrst sex mánaða ársins. Á hverjum gjalddaga var innheimt sama fjárhæð eða kr. 11.219,-, sem gera samtals fyrir allt árið kr. 67.314,-.

[...]

Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. Laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga ákveður sveitarstjórn hvenær fasteignagjöldin (fasteignaskatturinn) falla í gjalddaga. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. s.l. veldur vangreiðsla að hluta því að gjöldin falla öll í gjalddaga 15 dögum eftir eindaga.

Þrátt fyrir þessa heimild í fyrrgreindum lögum hefur Hafnarfjarðarbær reiknað dráttarvexti frá hverjum gjalddaga fyrir sig, ef hann er ekki greiddur fyrir eindaga, en ekki gjaldfellt öll fasteignagjöldin er þau eru komin í vanskil að hluta. Þetta er starfsregla er hefur myndast innan sveitarfélagsins, þeim er í vanskilum eru til góða.

[...]

Innheimta fasteignagjalda fer þannig fram að greiðsluseðlar eru sendir til eiganda fasteignar hvar tiltekin er fjárhæð gjaldanna ásamt gjalddaga og eindaga þeirra. Tiltekið er að greiðist gjöldin ekki fyrir eindaga, reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Ef gjöldin greiðast ekki eftir að síðasta greiðslan samkvæmt greiðsluseðlinum er gjaldfallin, sendir innheimtudeild Hafnarfjarðarbæjar greiðsluáskorun til eiganda fasteignar þar sem tiltekið er að greiðist krafan ekki innan 15 daga verði krafist nauðungarsölu á fasteigninni.

Árið 1996 var lögð fyrir bæjarráð Hafnarfjarðar tillaga um gjaldskrá fyrir innheimtu fasteignagjalda á vanskilastigi. Var þetta gert að undanfarinni könnun á því hver kostnaður við vanskilainnheimtu var í raun, ásamt könnun á framkvæmd innheimtunnar í sveitarfélögunum Kópavogi, Garðabæ og Akureyri. Kom í ljós að gjald það sem lagt hafði verið á útsendingu greiðsluáskorana í Hafnarfirði, eða kr. 400,- var hvergi nærri nógu hátt til að greiða þann kostnað er hlaust af innheimtu gjaldanna. Var lögð fyrir bæjarráð sú tillaga að hækka kostnað vegna útsendingu greiðsluáskorana í kr. 2.500,- per greiðsluáskorun. Var það samþykkt af bæjarráðinu. Því er það um misskilning að ræða hjá [A] og [B] að kostnaður við eina greiðsluáskorun hafi verið kr. 5.000,-, því hann er kr. 2.500,- * 2, þar sem um tvo þinglýsta eigendur að fasteigninni er að ræða.

Undirritaður óskaði eftir því við stjórnsýslu- og fjármálsvið Hafnarfjarðarbæjar að það tæki saman tekjur og gjöld af vanskilainnheimtu vegna áranna 1998 og 1999 til að sjá hvort einhver breyting hefði orðið á forsendum þeim er tillaga sú er lögð var fyrir bæjarráð var byggð á. Eftirfarandi er reifun á þeim niðurstöðum er undirrituðum bárust.

Árið 1998 voru sendar út 922 greiðsluáskoranir og voru tekjur vegna þeirra kr. 2.305.000,-, þ.e. 922 * kr. 2.500,-. Árið 1999 voru aftur á móti sendar út 1.075 greiðsluáskoranir og voru tekjur vegna þeirra kr. 2.687.500,-.

Í innheimtudeild Hafnarfjarðarbæjar eru 3,5 stöðugildi er sjá um innheimtu fasteignagjalda, gatnagerðargjalda, leikskólagjalda, heilbrigðisgjalda, sorphirðugjalda og gjalda vegna heilsdagsskóla. Launakostnaður vegna þeirra var árið 1999 kr. 7.000.000,-, en árið 1998 kr. 6.790.000,-. Heildargjaldendur árið 1999 voru 8.850 talsins og þar af voru gjaldendur vegna fasteignagjalda 7.100 eða rétt rúmlega 80% af heildarfjölda gjaldenda. Eðli málsins samkvæmt fer mestur tími starfsmanna í vanskilainnheimtu og þá sérstaklega vanskilainnheimtu vegna fasteignagjalda vegna fjölda þeirra gjaldenda. Hefur verið gert ráð fyrir því að um eitt stöðugildi sé alfarið í innheimtu vanskilagjalda og þar af eru um 80% vanskilagjaldenda vegna fasteignagjalda. Því má gera ráð fyrir því að heildarlaunakostnaður vegna starfsmanns sem sér um innheimtu vanskilagjalda hafi árið 1999 verið kr. 1.600.000,-, en árið 1998 kr. 1.552.000,-.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er nauðsynlegur undanfari kröfu um nauðungarsölu á fasteign að send sé greiðsluáskorun til gerðarþola með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða að greiðsluáskorun sé birt af stefnuvotti. Vegna þessa lagaskilyrðis eru greiðsluáskoranir vegna gjaldanna sendar í ábyrgðarpósti. Útlagður kostnaður vegna hverrar greiðsluáskorunar var að jafnaði kr. 580,-. Árið 1999 var því kostnaður vegna ábyrgðarsendinga greiðsluáskorana kr. 623.500,- og árið 1998 kr. 534.760,-. Kostnaður vegna pappírs og umslags vegna þessa er u.þ.b. kr. 20,- á hverja greiðsluáskorun sem gerir kr. 21.500 árið 1999, en kr. 18.440 árið 1998.

Húsaleiga vegna innheimtudeildar var kr. 1.200.000,- fyrir hvort ár um sig. Því má gera ráð fyrir því að húsaleigukostnaður vegna vanskilainnheimtu sé kr. 242.286,- eða sem samsvarar 0,8 stöðugildum.

Sameiginlegur kostnaður vegna tækja, viðgerðar, viðhalds og endurnýjunar er kr. 1.026.000,- fyrir hvort ár um sig, sem er kr. 234.514,- vegna vanskilainnheimtu fasteignagjalda.

Fyrir utan ofangreindan kostnað má gera ráð fyrir kostnaði vegna bókhalds, endurskoðunar, starfsmannahalds, þátttöku í kostnaði vegna yfirstjórnar, ræstinga o.fl., en ekki hefur verið gerð úttekt á hlutdeild vanskilainnheimtunnar í þeim kostnaði.

Kostnaður og gjöld vegna vanskilainnheimtu gjaldanna var því [2.582.000 kr. árið 1998 og 2.721.800 kr. árið 1999].

Af ofangreindu sést að árið 1998 voru tekjur vegna útsendingu greiðsluáskorana kr. 277.000,- minni en gjöldin vegna þeirra og árið 1999 voru tekjurnar kr. 34.300,- minni en gjöldin. Erfitt er að reikna nákvæmlega út tekjur og gjöld vegna gjaldanna og verður því að beita reiknuðu meðaltali, hvar tekjur geta verið hærri annað árið en minni hitt, þó svo hafi ekki verið í fyrrgreind tvö ár.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga kemur fram að sveitarstjórnir geti falið sérstökum innheimtuaðila innheimtu gjaldanna. Hafnarfjarðarbær tók þá ákvörðun að leita ekki til lögmanna við innheimtu vanskilagjalda, líkt og gerist víðs vegar á landinu, með þeim aukna kostnaði er því fylgir, heldur lætur vanskilainnheimtu í hendurnar á þeim starfsmanni innheimtudeildarinnar stjórnsýslu- og fjármálasviðs Hafnarfjarðarbæjar er sér um vanskilainnheimtu. Með því að setja innheimtu vanskilakrafna í hendur innheimtudeildar telur Hafnarfjarðarbær sig hafa uppfyllt skilyrði 1. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga, þar sem hvorki er áskilið í lögunum eða greinargerð með þeim að þessi sérstaki innheimtuaðili skuli vera utan sveitarfélagsins. Í athugasemdum með 4. gr. laganna er vísað til athugasemda með 29. gr. s.l. Þar eru nefnd dæmi um hvað við er átt með að fela sérstökum aðila innheimtuna, t.d. gjaldheimtu ríkis og sveitarfélaga, sýslumanni falin innheimta eða að nokkur sveitarfélög taki sig saman um að fela einu sveitarfélagi innheimtuna. Þessi upptalning er ekki tæmandi en styður það sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar að með þessari lagagrein sé ekki loku fyrir það skotið að hinn sérstaki innheimtuaðili geti verið innan sveitarfélagsins líkt og hann er hjá Hafnarfjarðarbæ.

Almenn tekjuöflun hefur ekki verið og verður ekki markmið með innheimtu kostnaðar við útsendingu greiðsluáskorana, heldur telur Hafnarfjarðarbær það byggjast á sanngirnisrökum að gjaldendur í vanskilum beri kostnað sem hlýst af innheimtu þeirra gjalda. Það er hvorki tækt né löglegt, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 346/1990 og 353/1990 að jafna niður á alla skuldara fasteignagjalda þeim kostnaði er hlýst af vanskilum minnihluta þeirra er greiða eiga fasteignagjöldin.

Undirritaður telur að auki að ekki sé hægt að beita sömu reglum um vanskilainnheimtu fasteignagjalda og um þjónustugjöld. Frekar má segja að almennar reglur kröfuréttar heimili að kröfuhafi getið krafið skuldara um þann kostnað sem stafar af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila, þannig að kröfuhafi verði skaðlaus. Til stuðnings þessu má vísa til fyrrgreinds álits umboðsmanns Alþingis nr. 246/1990 og 353/1990 hvar innheimtukostnaður var lagður á vanskil vegna afborgunar af íbúðarlánum. Umboðsmaður taldi að ekki væri heimilt að leggja á kröfuna innheimtuþóknun samkvæmt gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, en kröfuhafa væri heimilt, á grunni skaðleysissjónarmiða, að krefja skuldara um kostnað er stafaði af innheimtu lánanna.

Það er það sem Hafnarfjarðarbær hefur gert. Hann hefur tekið saman þann kostnað sem í raun hlýst af vanskilainnheimtunni og leggur á gjald vegna greiðsluáskorunar með því augnamiði að koma skaðlaus út, ásamt því að þeir sem standi í skilum þurfi ekki með fasteignagjöldum sínum að greiða fyrir vanskil annarra. Nefna má að þessu kostnaður að fjárhæð kr. 2.500,- er mun lægri en kostnaður sem legðist á kröfuna færi hún í vanskilainnheimtu hjá lögfræðingum, sem sveitarfélaginu er þó heimilt að gera, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995.

Að lokum má draga það saman að sýnt þykir að að misskilningur sé hjá [A] og [B] varðandi kostnað við útsendingu greiðsluáskorunar, en hann er kr. 2.500,- á þinglýstan eiganda fasteignar, sem er því kr. 5.000,- á þau tvö. Kostnaðurinn er sá kostnaður er hlýst af vanskilainnheimtu fasteignagjaldanna og hefur hann verið reiknaður út miðað við þann kostnað er hlýst af innheimtunni. Hafnarfjarðarbær telur sér vera bært að að leggja þennan kostnað á með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 og greinargerðar með þeim lögum, ásamt almennum reglum kröfuréttar þess efnis að skuldara beri að greiða kostnað þann sem hlýst af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila, þannig að kröfuhafi verði skaðlaus.

[...]

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er það eigandi fasteignar er greiðir fasteignagjöldin, nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða.

Sú regla hefur myndast hjá sveitarfélögum á Íslandi, þegar eigendur fasteignar eru tveir eða fleiri aðilar með sama lögheimili, að senda aðeins öðrum /einum þeirra innheimtuseðil vegna fasteignagjaldanna. Þetta er gert í hagræðingar-, umhverfis- og sparnaðarskyni með það fyrir augum að minnka pappírsmagn í umferð. Ekki hafa komið til kvartanir vegna þessa fyrirkomulags og telur fólk upp til hópa þetta vera skynsamari leið heldur en að skipta niður fasteignagjöldum á þá aðila sem skráðir eru þinglýstir eigendur fasteigna. Vegna þessa var greiðsluáskorun sú er [B] fékk, fyrsta tilkynning er barst til hennar persónulega um greiðslu gjaldanna. Aftur á móti hafði eiginmanni hennar [A] borist sex greiðsluseðlar vegna innheimtu fasteignagjaldanna og í hverjum og einum þeirra er tiltekið að sé greiðsluseðill ekki greiddur á eindaga, reiknist dráttarvextir frá gjalddaga kröfunnar.

Tilgreining eignarhluta [A] og [B] er byggð á upplýsingum frá þinglýsingardeild Sýslumannsins í Hafnarfirði, en á veðbókarvottorði fyrir fasteignina [X] 9, [...], Hafnarfirði, kemur fram að þau séu bæði skráð sem eigendur fasteignarinnar og hafa verið það að minnsta kosti frá árinu 1987.“

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2000, gaf ég A og B kost á að gera athugasemdir við svör Hafnarfjarðarbæjar. Í bréfi A til mín, dags. 29. ágúst 2000, kveðst hann meðal annars hafa staðið í þeirri trú að kostnaður við innheimtu fasteignagjalda hans og B hafi samtals numið 10.000 kr. en ekki 5.000 kr.

IV.

1.

Ég hef ákveðið að takmarka athugun mína á kvörtun A og B við það hvort það hafi verið rétt af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að senda A einum innheimtuseðla án þess að beina þeim einnig að B sem öðrum eiganda umræddrar fasteignar. Einnig hefur athugun mín lotið að grundvelli og fjárhæð þess kostnaðar sem bærinn krafði þau um samhliða greiðsluáskorunum og því hvort bærinn hafði, eins og á stóð, heimild til að krefja B um greiðslu sérstaks kostnaðar við innheimtu á eftirstöðvum gjaldfallinna fasteignagjalda.

2.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skal árlega leggja skatt á allar fasteignir, sem metnar eru af Fasteignamati ríkisins, til sveitarfélags þar sem fasteign er. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 segir að sveitarstjórn annist álagningu fasteignaskatts. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. ákveður sveitarstjórn hvenær fasteignaskattur fellur í gjalddaga og er sveitarstjórn heimilt að kveða á um að skatturinn sé greiddur með sem næst jöfnum greiðslum á fleiri en einum gjalddaga. Í 7. gr. kemur fram að fasteignaskatti fylgi lögveð í fasteign þeirri sem hann er lagður á og skal hann ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla.

Ljóst er af þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð að innheimtuseðlum Hafnarfjarðarbæjar vegna fasteignagjalda af íbúðarhúsnæði A og B var eingöngu beint til A enda þótt að á álagningarseðli fasteignagjalda 1999, er varðaði fasteign hjónanna að X 9, hafi komið fram að eignarhluti þeirra væri jafn. Á álagningarseðlinum var hins vegar tekið fram að „greiðsluhluti“ A væri 100%. Þá minni ég á að í bréfi Hafnarfjarðarbæjar til mín, dags. 9. ágúst 2000, er viðurkennt að greiðsluáskorun sú sem var send B 11. október 1999 hafi verið fyrsta tilkynningin sem B fékk um greiðslu gjaldanna.

Í skýringum Hafnarfjarðarbæjar til mín segir svo um fyrirkomulag við sendingu innheimtuseðla fasteignagjalda þegar eigendur fasteignar eru fleiri en einn:

„[...]

Sú regla hefur myndast hjá sveitarfélögum á Íslandi, þegar eigendur fasteignar eru tveir eða fleiri aðilar með sama lögheimili, að senda aðeins öðrum /einum þeirra innheimtuseðil vegna fasteignagjaldanna. Þetta er gert í hagræðingar-, umhverfis- og sparnaðarskyni með það fyrir augum að minnka pappírsmagn í umferð. Ekki hafa komið til kvartanir vegna þessa fyrirkomulags og telur fólk upp til hópa þetta vera skynsamari leið heldur en að skipta niður fasteignagjöldum á þá aðila sem skráðir eru þinglýstir eigendur fasteigna. Vegna þessa var greiðsluáskorun sú er [B] fékk, fyrsta tilkynning er barst til hennar persónulega um greiðslu gjaldanna. Aftur á móti hafði eiginmanni hennar [A] borist sex greiðsluseðlar vegna innheimtu fasteignagjaldanna og í hverjum og einum þeirra er tiltekið að sé greiðsluseðill ekki greiddur á eindaga, reiknist dráttarvextir frá gjalddaga kröfunnar.“

Ég legg áherslu á að á B hvíldi lagaskylda, sem annars eiganda umræddrar fasteignar, til að greiða fasteignagjald í samræmi við eignarhlut sinn í fasteigninni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995.

Í 6. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er kveðið á um að fyrir 1. desember ár hvert skuli Fasteignamat ríkisins láta sveitarfélögum í té skrár yfir álagningarstofn fasteignaskatts í hverju sveitarfélagi. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, eins og hún hljóðaði þegar atvik þessa máls áttu sér stað, sbr. nú 1. gr. laga nr. 47/2000 um breyting á þeim lögum, sem tóku gildi 1. janúar 2001, skal halda skrá um allar fasteignir í landinu þar sem fram komi upplýsingar um eiginleika eignanna og „rétt til þeirra“. Í 3. gr. laganna, sbr. nú 4. gr. laganna, kemur fram að skráning samkvæmt 1. gr. á fasteignum skv. 2. gr. skuli fela í sér nýjustu upplýsingar sem á hverjum tíma eru tiltækar og fasteignina varða auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar. Í reglugerð skuli setja ákvæði um söfnun og skráningu upplýsingaatriða svo og um helstu skrár gefnar út á grundvelli þeirra. Það hefur fjármálaráðherra gert með reglugerð nr. 406/1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat, sbr. reglugerðir nr. 95/1986 og 458/1998, um breyting á henni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 406/1978, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 458/1998, skal Fasteignamat ríkisins í lok hvers árs gefa út fasteignaskrá til nota fyrir opinbera aðila og skal hún geyma helstu upplýsingar um skráningu og mat fasteigna. Í 2. mgr. 2. gr. kemur fram að fasteignaskrá skuli greina heiti lands og annarra fasteigna svo og greinitölur þeirra, þ.m.t. landnúmer og fastanúmer. Ennfremur eigendur þeirra og umráðamenn, ef því er að skipta, svo og ábúendur jarða. Þá er rétt að vekja athygli á því að í 15. gr. laga nr. 94/1976, sem varð 25. gr. laganna eftir gildistöku 10. gr. laga nr. 47/2000, segir að opinberir aðilar, ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki, sveitarfélög og allar stofnanir þeirra skuli í öllum viðskiptum og í hvers konar verðmætisviðmiðunum nota upplýsingar fasteignaskrárinnar, sbr. nú Landskrá fasteigna, sem grundvöll viðskipta sinna eftir því sem við getur átt.

Með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan gera ofangreind ákvæði laga nr. 4/1995 og laga nr. 94/1976 auk reglugerðar nr. 406/1978 beinlínis ráð fyrir því að sveitarstjórnir, sem opinberir aðilar, byggi álagningu fasteignagjalda á upplýsingum, meðal annars um eigendur, sem Fasteignamat ríkisins gefur út í lok hvers árs. Í ljósi þess að löggjafinn hefur með skýrum hætti kveðið á um skyldu eiganda fasteignar til að greiða fasteignagjald tel ég að skýra verði þessi ákvæði laga svo að sveitarfélagi beri að beina álagningu fasteignagjalda og innheimtuseðlum vegna þeirra að hverjum eiganda fasteignar fyrir sig og þá vegna eignarhluta hans í fasteigninni. Séu atvik með þeim hætti að skráðir eigendur fasteignar í fasteignaskrá eru fleiri en einn hefur hver eigandi að auki hagsmuni af því að greiða gjöld vegna eignarhluta síns á réttum gjalddaga. Ég tek fram að enda þótt sérstök sjónarmið, meðal annars um hagræði, kunni í sjálfu sér að eiga við þegar eigendur eru hjón og búa á sama stað fæ ég ekki annað sé en að lög geri ráð fyrir almennri reglu í þessu efni enda verður með því móti best gætt réttaröryggis hvers fasteignareiganda fyrir sig.

Framangreind skýring laga stendur því hins vegar ekki í vegi að sveitarfélag leiti eftir sérstöku samþykki sameigenda að fasteign um að hafa ákveðinn hátt á innheimtu fasteignagjalda í hagræðingarskyni, t.d. þannig að eigendur samþykki að álagningar- og/eða innheimtuseðlar verði sendir á nafn eins eigandans og það teljist fullnægjandi tilkynning að þessu leyti gagnvart þeim.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að Hafnarfjarðarbæ hafi að lögum borið að skipta umræddum fasteignagjöldum vegna X 9 í Hafnarfirði miðað við hluta A annars vegar og hluta B hins vegar og krefja þau hvort um sig hlutfallslega um greiðslu gjaldsins. Ég tek það hins vegar fram að eins og nánar verður vikið að hér á eftir verður við mat á réttaráhrifum þess að framangreindu fyrirkomulagi var ekki fylgt við innheimtu umræddra fasteignagjalda árið 1999 að gæta þess að upplýst er að það fyrirkomulag að senda innheimtuseðla á nafn annars hjóna hefur tíðkast um lengri tíma. Þá liggur ekki annað fyrir en A og B hafi vegna greiðslna á fasteignagjöldum af eign þeirra á fyrri árum verið kunnugt um að Hafnarfjarðarbær hefði þennan hátt á.

3.

Af hálfu A og B eru gerðar athugasemdir við að þar sem Hafnarfjarðarbær beindi engum innheimtuseðlum að B hafi ekki verið rétt að krefja hana um kostnað vegna sendingar greiðsluáskorunar til hennar og dráttarvexti af þeim fasteignagjöldum sem komin voru í vanskil.

Í áliti umboðsmanns Alþingis, dags. 5. maí 1992, í málum nr. 346/1990 og 353/1990, vakti umboðsmaður meðal annars athygli á því að það væri almenn regla að kröfuhafi gæti krafið skuldara um þann kostnað sem stafaði af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila skuldara þannig að kröfuhafi yrði skaðlaus. Þegar metið er hvort sending greiðsluáskoranna sé „réttmæt ráðstöfun“ þegar um vangoldin fasteignagjöld er að ræða minni ég á að samkvæmt 7. gr. laga nr. 4/1995 fylgir lögveð í fasteign til tryggingar fasteignagjaldi. Verða sveitarstjórnir því að fullnægja skilyrðum laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, meðal annars um sendingu greiðsluáskorana, sbr. 9. gr. laganna, ef ákveðið er af þeirra hálfu að krefjast nauðungarsölu á umræddri fasteign til fullnustu vangoldinna fasteignagjalda. Í ljósi þessa tel ég að sveitarfélagi sé jafnan heimilt að krefja eiganda fasteignar um greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af ritun og sendingu greiðsluáskorunar vegna innheimtu fasteignagjalda, sem eru fallin í gjalddaga, þannig að bærinn verði skaðlaus.

Vegna kvörtunaratriðis A og B sérstaklega tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/1991 skal gerðarbeiðandi beina greiðsluáskorun til gerðarþola með minnst fimmtán daga fyrirvara áður en nauðungarsölu verður krafist til fullnustu peningakröfu á grundvelli þar tilgreindra heimilda í 6. gr. sömu laga. Af 2. tölul. 2. gr. laganna má ráða að gerðarþoli telst sá sem verður eftir almennum reglum talinn eigandi að þeirri eign sem nauðungarsala tekur til. Af þessu leiðir að þegar um fleiri eigendur að eign er að ræða teljast þeir allir gerðarþolar í skilningi laga nr. 90/1991 og ber gerðarbeiðanda þá að beina greiðsluáskorun á grundvelli 9. gr. laganna til allra þeirra eigi nauðungarsalan að ná fram að ganga, sbr. 13. gr. laganna. Er með þessu gengið út frá því að tilgangur slíkrar greiðsluáskorunar sé meðal annars sá að tryggja að gerðarþola berist vitneskja um yfirvofandi beiðni um nauðungarsölu.

Hafnarfjarðarbæ var samkvæmt því sem að framan er rakið skylt að lögum að beina greiðsluáskorun til A og B í því skyni að geta beiðst nauðungarsölu á eigninni vegna vanskila á fasteignagjöldum. Með hliðsjón af því og að virtum atvikum þessa máls, en A og B eru sem fyrr segir hjón og bjuggu saman að X 9 í Hafnarfirði og var vegna greiðslu á fasteignagjöldum vegna eignarinnar á fyrri árum kunnugt um hvaða fyrirkomulag Hafnarfjarðarbær hafði á útsendingu innheimtuseðlanna, tel ég að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun bæjarins að gera B að greiða umræddan kostnað vegna innheimtuaðgerða bæjarins og umkrafða dráttarvexti. Ég tek í því sambandi fram að með tilliti til skýringa Hafnarfjarðarbæjar á fjárhæð þess kostnaðar sem gerð er krafa um og á útreikningi dráttarvaxta tel ég ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við þessi atriði.

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða mín að Hafnarfjarðarbæ hafi borið að skipta fasteignagjöldum vegna fasteignarinnar að X 9 í Hafnarfirði miðað við hluta A annars vegar og B hins vegar og beina innheimtuseðlum að þeim báðum í samræmi við það. Það er hins vegar niðurstaða mín að þar sem Hafnarfjarðarbæ var skylt að beina greiðsluáskorun til þeirra beggja í því skyni að bærinn gæti beiðst nauðungarsölu á fasteign þeirra og að virtum atvikum málsins sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun bæjarins að gera B að greiða þann hluta kostnaðar við innheimtuna og dráttarvexti sem hún var krafin um.

Með hliðsjón af framangreindu beini ég þeim tilmælum til bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar að hún sjái til þess að framkvæmd innheimtu fasteignagjalda verði framvegis hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í þessu áliti.

Með tilliti til þess sem fram kemur í bréfi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. ágúst 2000, um að fyrirkomulag bæjarins við útsendingu innheimtuseðla vegna fasteignagjalda hafi verið í samræmi við „[reglu sem] hefur myndast hjá sveitarfélögum á Íslandi“, hef ég ákveðið, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að vekja athygli félagsmálaráðuneytisins á niðurstöðu þessa álits míns en samkvæmt 2. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 fer það ráðuneyti með málefni sveitarfélaga. Eru það tilmæli mín til félagsmálaráðuneytisins að það geri nauðsynlegar ráðstafanir til að vekja athygli sveitarfélaga á málinu og að framkvæmd umræddrar innheimtu verði breytt til þess fyrirkomulags sem ég tel að leiði af skýringu laga um fasteignagjöld og skráningu fasteigna.

V.

Með bréfi félagsmálaráðuneytisins til mín, dags. 20. febrúar 2001, var mér gert kunnugt að ráðuneytið hefði með bréfi til allra sveitarfélaga, dags. 19. s.m., vakið athygli þeirra á áliti mínu. Vegna skjótra viðbragða ráðuneytisins ritaði ég félagsmálaráðherra bréf, dags. 27. febrúar 2001, þar sem ég lýsti yfir ánægju minni yfir hve ráðuneytið hefði brugðist fljótt og vel við af þessu tilefni.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ hefur framkvæmd innheimtu fasteignagjalda hjá bænum verið breytt til samræmis við þau sjónarmið sem fram komu í áliti mínu.