Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 11086/2021)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála og var viðkomandi ósátt við synjun makabóta.  

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat nefndarinnar að umönnunarþörf makans væri ekki slík að tekjuöflunarmöguleikar konunnar væru skertir og þá ákvörðun nefndarinnar að staðfesta synjun við umsókn um maka- og umönnunarbætur.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar frá 11. maí sl. sem beinist að Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála. Af kvörtuninni og fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að þér séuð ósáttar við þá ákvörðun Tryggingastofnunar að synja umsókn yðar frá 16. apríl 2020 um makabætur á þeim grundvelli að upplýsingar um veikindi yðar sem komu fram í umsókn vegna örorkulífeyris gæfu tilefni til að telja að þér væruð ekki færar um þá umönnun maka þíns sem væri grundvöllur fyrir greiðslu makabóta. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 28. október 2020 í máli nr. 288/2020 var ákvörðunin staðfest.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að láta þess getið að af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að þegar unnt er að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds beinist athugun umboðsmanns Alþingis einkum að úrskurði þess og þá hvort það hafi leyst réttilega úr málinu, þar með talið í ljósi þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við meðferð málsins á lægri stigum stjórnsýslunnar. Þar sem fyrir liggur að þér kærðuð ákvörðun Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála hefur athugun mín þar af leiðandi einkum lotið að fyrrnefndum úrskurði nefndarinnar.

  

II

Samkvæmt 1. málsl. 5. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, er Tryggingastofnun heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu samkvæmt 18. og 22. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

Í reglum nr. 407/2002, um maka- og umönnunarbætur, með síðari breytingum, er nánar fjallað um framkvæmd 5. gr. laga nr. 99/2007 og er ákvæði 1. gr. samhljóða 5. gr. laganna. Í 2. gr. reglnanna er kveðið á um heimild til að greiða maka- eða umönnunarbætur, sbr. 1. gr., ef um er að ræða sameiginlegt lögheimili lífeyrisþega og þess sem annast um hann. Þá skal jafnframt sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega. Samkvæmt 3. gr. skal með umsókn leggja fram læknisvottorð þar sem tilgreind er umönnunarþörf lífeyrisþegans auk þess sem lögð skal fram staðfesting á tekjutapi eða tekjuleysi.

Mat Tryggingastofnunar, og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála, á því hvort aðstæður lífeyrisþega séu með þeim hætti að heimilt sé að greiða þeim sem annast viðkomandi maka- og umönnunarbætur felur í sér matskennda stjórnvaldsákvörðun sem m.a. byggist á læknisfræðilegu mati. Við það mat ber þó að gæta að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins við undirbúning og töku ákvörðunar auk þeirra sérreglna sem gilda um viðkomandi málaflokk. Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýtur athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög, einkum hvort mat stjórnvaldsins hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum og hvort ályktanir sem dregnar eru af þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í málinu séu ekki bersýnilega óforsvaranlegar. Þegar stjórnvald hefur samkvæmt lögum með höndum ákveðið sérfræðilegt mat, t.d. um læknisfræðileg atriði, er þar af leiðandi takmörkunum háð að hvaða leyti umboðsmaður Alþingis getur endurskoðað slíkt mat efnislega.

Af úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 28. október 2020 verður ráðið að niðurstaða nefndarinnar byggist einkum á því að þér uppfyllið ekki skilyrði 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 407/2002, með síðari breytingum. Þannig væri þörf eiginmanns yðar fyrir umönnun ekki slík að möguleikar yðar til tekjuöflunar væru skertir sökum þeirrar umönnunar. Af úrskurðinum verður ráðið að við það mat hafi nefndin lagt sjálfstætt mat á fyrirliggjandi gögn málsins, þ. á m. læknisvottorð, og dregið af þeim þá ályktun að rétt hafi verið að synja umsókn yðar um maka- og umönnunarbætur. Af forsendum úrskurðarnefndarinnar fæ ég ráðið að niðurstaða hennar hafi fyrst og fremst verið reist á læknisfræðilegum gögnum og sérþekkingu eins nefndarmanns sem er læknir.

Í tilefni af kvörtuninni og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið um eftirlit umboðsmanns í þessum málum hef ég yfirfarið fyrirliggjandi gögn málsins. Þau læknisfræðilegu gögn sem einkum munu hafa legið fyrir í úrskurði nefndarinnar eru læknisvottorð B frá 27. febrúar 2018, 13. febrúar 2019 og 21. apríl 2020. Í framangreindum vottorðum kemur m.a. fram að maki yðar [...] Hann þurfi aðstoð við heimilishald vegna fötlunar sinnar og þess vegna sækið þér um umönnunarbætur. Framangreind vottorð eru nánast samhljóða en í vottorði frá 21. apríl 2020 kemur auk þess fram að maki yðar þurfi ekki á heimahjúkrun að halda og ekki dagvistun utan heimilis. 

Þegar litið er til þessa og annarra gagna málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að umönnunarþörf maka yðar sé ekki slík að möguleikar yðar til tekjuöflunar séu skertir og þá ákvörðun nefndarinnar að staðfesta synjun við umsókn yðar um maka- og umönnunarbætur.

   

III

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.