Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að upplýsingum og gögnum.

(Mál nr. 11154/2021)

Kvartað var yfir töfum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á afgreiðslu beiðni um aðgang að gögnum.

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns kom fram að erindinu hefði verið svarað og umbeðin gögn afhent. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til erindis yðar til mín, dags. 28. maí sl., þar sem þér kvartið yfir töfum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á afgreiðslu beiðni yðar, sem upphaflega var lögð fram 14. ágúst 2020, um aðgang að gögnum sem varða gámaflutninga þess á tímabilinu 1. janúar 2020 til 31. júlí sama ár, auk upplýsinga um fyrir hverja var flutt. Var þeirri beiðni hafnað af hálfu félagsins 19. ágúst 2020 en með úrskurði úrskurðar­nefndar um upplýsingamál, dags. 13. apríl sl., var sú ákvörðun felld úr gildi og félaginu gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Herjólfi ritað bréf, dags. 14. júní sl., þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Mér hefur nú borist svar félagsins, dags. 22. júní sl., þar sem fram kemur að erindi yðar hafi verið svarað með bréfi, dags. 31. maí sl., og umbeðin gögn afhent yður.

Í ljósi þess að kvörtun yðar laut að því að beiðni yðar hefði ekki verið afgreidd og þar sem þeirri afgreiðslu er nú lokið tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna hennar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.