Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Auglýsing á lausu starfi.

(Mál nr. 11155/2021)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu án auglýsingar.

Í skýringum til umboðsmanns kom fram að þetta hafi verið tímabundin ráðning vegna sumarátaks Vinnumálastofnunar. Þar sem ekki er skylt að auglýsa störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og vinnumarkaðarins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 3. júní sl., yfir því að B hafi verið ráðin í starf á ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. júní 2021, án auglýsingar.

Í tilefni af kvörtuninni var þess óskað, með bréfi dags. 3. júní sl., að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu veitti umboðsmanni upplýsingar um hvort rétt væri að starfið hefði ekki verið auglýst og þá á hvaða lagagrundvelli ákveðið hefði verið að gera það ekki. Svarbréf embættisins, dags. 16. júní sl., fylgir hjálagt í ljósriti. Þar kemur fram að um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu vegna sumarátaks Vinnumálastofnunar.

Í ljósi 4. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019, um auglýsingar lausra starfa, þar sem fram kemur að ekki sé skylt að auglýsa störf vegna tímabundinn vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Ég læt því máli þessu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.