Almannatryggingar. Örorkulífeyrir.

(Mál nr. 11173/2021)

Kvartað var yfir synjun Tryggingastofnunar á synjun örorkulífeyris á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að ákvörðun Tryggingastofnunar hefði verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að svo stöddu voru því ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 14. júní sl. sem lýtur að synjun Tryggingastofnunar á umsókn yðar um örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 20. maí sl.

Í 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, kemur m.a. fram að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Hjá Tryggingastofnun og þjónustustöðvum hennar skuli liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Af kvörtun yðar og gögnum sem henni fylgdu verður ekki ráðið að þér hafið skotið ákvörðun Tryggingastofnunar frá 20. maí sl. til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í samræmi við framangreint tel ég að lagaskilyrði bresti til að ég geti fjallað um kvörtunina að svo stöddu. Ef þér kjósið að leita með mál yðar til úrskurðarnefndarinnar og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi. Slík kvörtun þarf að berast innan árs frá því niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Að síðustu og til upplýsinga tek ég fram að þótt kvartanir í einstökum málum verði að uppfylla skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að ég geti tekið þau til skoðunar hef ég, með vísan til yfirstjórnar og eftirlits félags- og barnamálaráðherra með lífeyristryggingum almannatrygginga ritað honum bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um framkvæmd Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um örorkulífeyri. Fyrirspurnin er lögð fram m.a. í kjölfar ábendinga og kvartana sem hafa lotið að synjun Tryggingastofnunar á umsóknum um örorkulífeyri, einkum frá ungu fólki, á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd. Í kjölfar viðbragða ráðuneytisins verður tekin afstaða til þess hvort tilefni sé til að taka álitaefnið til umfjöllunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild sem fram kemur í 5. gr. laga nr. 85/1997. Bréfið má nálgast á heimasíðu umboðsmanns Alþingis www.umbodsmadur.is

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.