Skattar og gjöld. Félagsþjónusta sveitarfélaga.

(Mál nr. 11174/2021)

Kvartað var yfir Reykjavíkurborg og Skattinum vegna skuldar við Skattinn frá árinu 2018.

Skilyrði þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar er að hún hafi verið borin fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Kvörtunin féll utan þess frests og því ekki lagaskilyrði til að fjalla frekar um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 14. júní sl., sem beinist að Reykjavíkurborg og Skattinum og lýtur að skuld yðar við Skattinn frá árinu 2018. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið að skuldin hafi stofnast vegna ákvörðunar starfsmanns í félagsþjónustu Reykjavíkurborgar um hvernig staðið skyldi að uppgjöri láns sem félagsþjónustan veitti yðar árið 2015.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið átt í frekari samskiptum við Skattinn vegna málsins eða að þér hafið leitað endurskoðunar ákvörðunar stofnunarinnar um skattstofn eða skattálagningu, s.s. með kæru til ríkisskattsstjóra eftir atvikum yfirskattanefndar. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um það skilyrði þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar að hún hafi verið borin fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

Eins og fram kemur hér ofar lýtur kvörtun yðar að skuld sem Skatturinn tilkynnti yður um árið 2018. Er því ljóst að málið fellur utan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég taki kvörtun yðar til frekari umfjöllunar. Af þessu tilefni bendi ég þér þó á að heimilt er að sækja um breytingu á skattstofni eða skattálagningu allt að sex tekjuárum aftur í tímann til ríkisskattstjóra, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni, sbr. nánari fyrirmæli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hver ættu að vera viðbrögð ríkisskattstjóra við slíkri beiðni.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.