Börn. Foreldrar. Forsjá. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11176/2021)

Kvartað var yfir réttarstöðu þeirra foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barns en barnið á ekki lögheimili hjá.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og því ekki hans láta í ljós álit sitt á störfum þingsins eða hvernig til hefur tekist um efni laga eða ályktana. Ekki varð annað ráðið af kvörtuninni en hún lyti að fyrirkomulagi forsjár samkvæmt lögum og því ekki skilyrði til að taka hana til frekari umfjöllunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. júní 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis frá 15. júní sl. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni fæ ég ráðið að hún lúti að réttarstöðu þeirra foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barns en barnið á ekki lögheimili hjá.

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á störfum Alþingis eða hvernig til hefur tekist um efni laga eða ályktana. Eins og kvörtun yðar er fram sett og rökstudd verður ekki annað ráðið en að hún lúti að fyrirkomulagi forsjár samkvæmt lögum, einkum nánari ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Það eru því ekki skilyrði að lögum til að ég taki málið til frekari umfjöllunar.

Þar sem fram kemur í kvörtun yðar að hún beinist að Reykjavíkurborg vek ég athygli yðar á ef þér teljið yður beittan rangsleitni með fyrirliggjandi ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi sveitarfélagsins getið þér leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Slík kvörtun þyrfti að berast innan árs frá því að endanleg niðurstaða í stjórnsýslunni, s.s. úrskurður æðra stjórnvalds, liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, auk þess sem henni þyrftu að fylgja öll tiltæk sönnunargögn, sbr. 1. mgr. 6. gr.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.