Samgöngumál. Endurveiting ökuréttinda. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11177/2021)

Kvartað var yfir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að synja beiðni um endurveitingu ökuréttinda.  

Samkvæmt skýru orðalagi í lögum ber að leggja ákvörðun dómstóls um upphafstíma og tímalengd sviptingar til grundvallar ákvörðun um endurveitingu ökuréttar. Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til þess að hann fjallaði um ákvörðun héraðsdóms um upphafstíma og lengd sviptingar ökuréttar. Hvað úrskurð ráðuneytisins snerti taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ekki hafi staðið heimild til að verða við beiðninni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. júní 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar frá 15. júní sl. sem þér hafið komið á framfæri við umboðsmann Alþingis f.h. umbjóðanda yðar, A. Lýtur kvörtunin að úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 16. apríl sl. þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 3. janúar 2020 um að synja beiðni A um endurveitingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem í gildi voru þegar A óskaði eftir því

Fyrir liggur að með dómum héraðsdóms Reykjaness [...] og frá [...] var A sviptur ökuréttur í þrjú ár frá 29. júní 2018 til 28. júní 2021, í fyrra málinu, og frá 29. júní 2021 til 28. júní 2024 í hinu síðara. Af kvörtuninni verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við það að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, og síðar ráðuneytið í úrskurði sínum, hafi ekki tekið tillit til þess að umferðarlagabrot A sem ákærur í ofangreindum málum lutu að hafi átt sér stað um svipað leyti á árinu 2017 og að tilefni hefði verið til þess fyrir lögreglustjórann á Suðurnesjum að sameina málin á ákærustigi. Það hefði að yðar mati, eftir því sem ráðið verður af kvörtuninni og því sem fram kemur í stjórnsýslukæru til ráðuneytisins, leitt til þess að A hefði verið sviptur ökurétti til lengri tíma og skilyrði til endurveitingar væru nú uppfyllt.

Í 1. mgr. 106. gr. laga nr. 50/1987, sbr. nú 1. mgr. 105. gr. laga nr. 77/2019, kemur fram að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti lögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins ber lögreglustjóra því, og eftir atvikum þeim ráðherra sem fer með kærueftirlit, að leggja ákvörðun dómstóls um upphafstíma og tímalengd sviptingar til grundvallar ákvörðun sinni samkvæmt ákvæðinu. Þar er ekki mælt fyrir um svigrúm til þess að líta til þeirra sjónarmiða sem kvörtun yðar byggist á. Að þessu leyti tek ég jafnframt fram að samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Eru því ekki ekki fyrir hendi skilyrði til þess að ég fjalli um ákvörðun héraðsdóms um upphafstíma og tímalengd sviptingar ökuréttar A eins og hún hefur verið ákveðin með dómum héraðsdóms.

Að öðru leyti, eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins í málinu, ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og önnur gögn málsins, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ekki hafi staðið til þess heimild fyrir lögreglustjórann að verða við beiðni A um endurveitingu ökuréttar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.