Heilbrigðismál Hjúkrunarheimili.

(Mál nr. 11181/2021)

Kvartað var yfir meintri vanrækslu dvalar- og hjúkrunarheimilis gagnvart vistmanni. 

Að svo stöddu voru ekki forsendur fyrir umboðsmann til að taka kvörtunina til meðferðar þar sem erindið var einnig á borði landlæknis.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 16. júní sl., yfir meintri vanrækslu dvalar- og hjúkrunarheimilisins X gagnvart vistmanni á heimilinu.

Af þeim gögnum sem fylgdu með kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið sent kvörtun til landlæknis vegna málsins, dags. 16. júní sl., á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Af því tilefni er rétt að taka fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta lagaákvæði er m.a. reist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar eða bregðast við atvikum sem kunna að vera í andstöðu við lög áður en leitað er með kvörtun til aðila á borð við umboðsmann Alþingis sem stendur utan stjórnkerfis þeirra.

Af framangreindu leiðir að almennt geta ákvarðanir og/eða athafnir stjórnvalda ekki komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en æðra stjórnvald eða sér­stakur eftirlitsaðili, sem hefur verið komið upp innan stjórnsýslunnar með lögum, í þessu tilviki landlæknir, hefur a.m.k. fengið tækifæri til að taka afstöðu til atvika málsins og eftir atvikum brugðist við ef hann telur tilefni til þess.

Með vísan til framangreinds tel ég ekki rétt að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég læt því máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Viðkomandi einstaklingur, eða þér fyrir hans hönd, getið að sjálfsögðu leitað til mín á ný að fenginni endanlegri niðurstöðu landlæknis ef hann telur sig þá enn beittan rangsleitni.