Skattar og gjöld. Meinbugir. Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 11182/2021)

Kvartað var yfir meinbugum á lögum um vörugjald af ökutækjum eldsneyti o.fl. og lögum um olíugjald og kílómetragjald og óskað eftir að umboðsmaður tilkynnti Alþingi um þá.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og því almennt ekki á verksviði hans að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort þau standast stjórnarskrá. Það hefur almennt verið talið verkefni dómstóla. Umboðsmaður hefur þó heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þeim grundvelli heldur eru slík mál eftir atvikum tekin til umfjöllunar á grundvelli heimildar umboðsmanns til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Öllum er þó vitaskuld frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. júní 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf. yfir meinbugum á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.

Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að því að umbjóðanda yðar sé mismunað með lögum í tengslum við álagningu bensín- og olíugjalds þar sem honum sé gert að greiða sérstakt vörugjald af eldsneyti, sbr. 15. gr. fyrrgreindu laganna. Í þeim efnum er bent á að flugvélar séu undanþegnar umræddu gjaldi, sbr. 17. gr. laganna. Jafnframt að skip og bátar sem noti olíu séu undanþegin greiðslu olíugjalds samkvæmt lögum nr. 87/2004. Að yðar mati feli umrædd lagasetning í sér mismunun sem skapi samkeppnishindrun fyrir eigendur báta sem búnir eru bensínvélum. Í kvörtun yðar óskið þér þess að ég nýti heimild mína samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tilkynni Alþingi um meinbugi á lögum að þessu leyti.

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort þau standast stjórnarskrá. Það hefur almennt verið talið verkefni dómstóla. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Lögin gera hins vegar ekki ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þeim grundvelli heldur eru slík mál eftir atvikum tekin til umfjöllunar á grundvelli heimildar umboðsmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Ég tek þó fram að vitanlega er öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Sú ábending sem í erindi yðar felst verður skráð. Í því sambandi tek ég fram að við mat á almennum ábendingum sem þessari er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur sérstaklega um það heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.