Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Alþingi og stofnanir þess.

(Mál nr. 11183/2021)

Kvartað var yfir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefði ekki svarað erindum.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og og því ekki lagaskilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. júní 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar yðar til mín, dags. 18. júní sl., sem þér beinið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og lýtur að því að nefndin hafi ekki svarað erindum yðar þar sem þér farið fram á opinbera rannsókn á þeim vinnubrögðum sem hafi verið viðhöfð við undirbúning og gerð laga sem tengjast fiskeldi.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. laganna er starfssvið umboðsmanns nánar útfært í samræmi við þetta, en samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess.

Í samræmi við framangreint fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á störfum fastanefnda Alþingis. Þar sem kvörtun yðar lýtur að starfsháttum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.