Skattar og gjöld. Tollar.

(Mál nr. 11185/2021)

Kvartað var yfir Skattinum og tollafgreiðslu tollyfirvalda.

Þar sem úrskurður tollyfirvalda hafði ekki verið borinn undir yfirskattanefnd og hluti kvörtunarefnisins var enn til meðferðar hjá tollyfirvöldum brast lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar til mín f.h. A ehf., dags. 16. júní sl., sem þér beinið að Skattinum og lýtur að tollafgreiðslu tollyfirvalda. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin annars vegar að tollflokkun tollyfirvalda á rafmagnshjólastólum sem fyrirtækið flutti inn til landsins. Hins vegar lýtur hún að synjun tollyfirvalda um niðurfellingu virðisaukaskatts vegna innflutnings á rafmagnsfjórhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Í símtali við starfsmann umboðsmanns greinduð þér frá því að tollyfirvöld hefðu nýlega kveðið upp úrskurð er laut að tollflokkun rafmagnshjólastólanna en að kæra fyrirtækisins er lyti að synjun um niðurfellingu virðisaukaskatts væri þar enn til meðferðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur endanlega verið til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að í 1. mgr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 segir að telji tollskyldur aðili ákvörðun tollyfirvalda um gjaldskyldu, fjárhæð aðflutningsgjalda, atriði sem liggja til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, svo sem tollverð og tollflokkun, eða álag skv. 180. gr. b. eigi rétta geti hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum til tollyfirvalda. Þá getur tollskyldur aðili skotið kæruúrskurði skv. 117. gr. til yfirskattanefndar, sbr. 1. mgr. 118. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kærufrestur til yfirskattanefndar þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar stjórnvalds.

Líkt og að ofan greinir hafið þér ekki borið úrskurð tollyfirvalda undir yfirskattanefnd og er hluti kvörtunarefnis yðar  enn til meðferðar hjá tollyfirvöldum. Í samræmi við framangreint bresta lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Fari svo að þér kjósið að bera málið undir yfirskattanefnd og telji fyrirtækið sig enn rangsleitni beitt að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi. Slík kvörtun þarf að berast innan árs frá því að niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.