Húsnæðismál. Frístundabyggð. Rökstuðningur.

(Mál nr. 10985/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd B, félags í frístundabyggð, og kvartaði yfir áliti kærunefndar húsamála. Samkvæmt álitinu taldi nefndin að ákvörðun framhaldsaðalfundar félagsins um að banna lausagöngu katta í frístundabyggðinni væri ólögmæt. Kvörtunin byggðist á því að hagsmunir eigenda sumarbústaðalands í frístundabyggð gerðu það að verkum að B hefði verið heimilt að setja þá reglu að lausaganga katta væri bönnuð í byggðinni.

Umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt gögnum málsins yrði ekki annað séð en að meðferð málsins hefði að meginstefnu til verið í samræmi við þær stjórnsýslureglur sem hefðu átt við. Af þeim sökum og í ljósi þess hvernig eftirliti umboðsmanns með starfsemi kærunefndar húsamála í málinu væri háttað teldi hann ekki forsendur til að gera aðrar athugasemdir við álit hennar en að rökstuðningur í álitinu hefði ekki fyllilega samrýmst ýtrustu kröfum til efnis rökstuðnings. Þessi annmarki á álitinu gæfi þó ekki tilefni til þess að umboðsmaður beindi tilmælum til nefndarinnar um úrbætur. Þá áréttaði umboðsmaður að hann hefði ekki tekið afstöðu til efnislegrar niðurstöðu nefndarinnar um þann einkaréttarlega ágreining sem hefði verið fjallað um í málinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 24. ágúst 2021.