Opinberir starfsmenn. Starfslok. Greiðsla launa við starfslok. Jafnræðisreglan.

(Mál nr. 11097/2021)

Kvartað var yfir synjun mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni um greiðslu launa við embættislok.

Þar sem kvörtunin barst utan þess ársfrests sem kveðið er á um í lögum um umboðsmanns laut athugun hans að ákvörðun ráðuneytisins að hafna beiðni um endurupptöku málsins. Var niðurstaða hans sú að ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við málsmeðferðina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. júlí 2021, sem hljóðar svo:

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 17. maí sl., yfir synjun mennta- og menningar­málaráðuneytisins á beiðni yðar um greiðslu launa við embættislok yðar sem rektors [tiltekins skóla] samkvæmt 35. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Afstaða ráðuneytisins byggðist á því að ákvæðið ætti aðeins við þegar stjórnvald ákvæði að endurnýja ekki skipun einstaklings í embætti með því að auglýsa það laust til umsóknar. Í ljósi þess að þér hefðuð sjálfir beðist lausnar, sbr. 37. gr. laganna, ættuð þér ekki rétt á greiðslum á grund­velli ákvæðisins.

Ráðuneytið synjaði beiðni yðar með bréfi 12. maí 2020 og áréttaði þá afstöðu með bréfi 2. júlí sama ár. Það er því ljóst að kvörtun yðar barst að því leyti utan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af þeim sökum hefur athugun mín á kvörtun yðar verið afmörkuð við þá ákvörðun ráðuneytisins frá 12. apríl sl. að hafna beiðni yðar um endurupptöku málsins. Auk þess sem aðili máls kann að eiga rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur réttur til endur­upptöku byggst á ólögfestum grundvelli, s.s. ef ákvörðun er haldin verulegum efnislegum annmarka eða þegar verulegur annmarki eða mistök hafa orðið við málsmeðferð.

   

II

1

Fjallað er um skipun í embætti í V. kafla laga nr. 70/1996. Meginreglan er að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skal tilkynna embættis­manni eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Hafi það ekki verið gert fram­lengist skipunartíminn sjálfkrafa um fimm ár nema embættismaðurinn sjálfur óski eftir að láta af störfum með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr. laganna. Af þessu, sem og 25. gr. laganna, er ljóst að skipunartími embættismanns framlengist nema veitingarvaldshafi hafi tilkynnt honum að embættið verði auglýst, hann hafi sjálfur óskað lausnar eða eitthvert annarra þeirra atriða er upp eru talin í 25. gr. hafi komið til.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 70/1996 er kveðið á um að embættismaður sem vilji biðjast lausnar skuli gera það skriflega með þriggja mánaða fyrirvara. Sé lausnar löglega beiðst er stjórnvaldi skylt að veita hana nema margir leiti lausnar samtímis. Stjórnvald getur áskilið lengri upp­sagnarfrest en á meðan heldur embættismaður óbreyttum launakjörum og réttindum, sbr. 2. mgr. 37. gr. Hér er ekki um hefðbundna uppsögn að ræða heldur beiðni til veitingarvaldshafa um leyfi til lausnar en þó eru réttaráhrifin þau sömu að þessu leyti. Af framangreindu má jafnframt ráða að embættismaður haldi ekki launakjörum sínum að uppsagnarfresti loknum, hvort sem hann er þrír eða sex mánuðir, og því ljúki launa­greiðslum eftir starfslok.

Samkvæmt gögnum málsins tilkynntuð þér mennta- og menningarmála­ráð­herra með bréfi, dags. 19. mars 2020, að þér hygðust ekki óska eftir endurskipun í embætti rektors [tiltekins skóla] þegar fimm ára skipunartími yðar rynni út 14. febrúar 2021. Með hliðsjón af því og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu mennta- og menningar­málaráðuneytisins að í því hafi falist lausnarbeiðni í skilningi 37. gr. laga nr. 70/1996 enda hefðuð þér ella gegnt embættinu áfram nema eitthvert þeirra atriða sem tilgreind eru í 25. gr. laganna hefði komið til.

Eftir stendur þá hvort þér getið, hvað sem framangreindu líður, byggt rétt til launa á 35. gr. laga nr. 70/1996. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Nú er maður, sem skipaður hefur verið tímabundið í embætti skv. 23. gr., ekki skipaður að nýju í embættið, og skal hann þá halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu í þrjá mánuði frá því að hann lét af starfi ef hann hefur gegnt embættinu skemur en 15 ár, en ella í sex mánuði, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sam­bærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila.

Nú tekur maður, er launagreiðslna nýtur skv. 1. mgr., við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en liðinn er þriggja eða sex mánaða tíminn, og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau er hann naut í fyrra embætti. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka þriggja eða sex mánaða tímabilsins.

Á meðan maður nýtur launa skv. 1. mgr. er honum skylt að starfa áfram, sé þess óskað, og veita eftirmanni sínum aðstoð svo að sem minnst röskun verði á starfsemi þeirri sem hann hafði með höndum.“   

Í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi því er varð að lögum nr. 70/1996 kemur fram í athugasemdum við 35. gr. laganna að eðlilegt sé „að maður sem skipaður [hafi] verið tímabundið í embætti skv. 23. gr. frum­varpsins, en ekki er skipaður að nýju í embættið, fái laun sem svari ríflegum uppsagnarfresti. [Byggist] þetta ákvæði því að nokkru leyti á sömu sjónarmiðum og 34. gr., en þó [sé] hér ekki um biðlaun að ræða þar sem í 3. mgr. [sé] gert ráð fyrir að maður inni vinnuskyldu af hendi meðan hann nýtur launa skv. 1. mgr. Engin slík vinnuskylda [hvíli] á hinn bóginn á manni ef embætti hans hefur verið lagt niður og hann nýtur þar af leiðandi biðlauna skv. 34. gr.“ Í athugasemdum frumvarpsins við 34. gr. laganna segir að ákvæðið svari til 14. gr. eldri laga nr. 38/1954. Hafi það ákvæði verið rökstutt á sínum tíma með því að réttast væri að tryggja starfsmanni laun sem svöruðu ríflegum uppsagnarfresti ef starf hans yrði lagt niður og að sömu sjónarmið byggju að baki 34. gr. laganna. (Alþt. 1995-1995, A-deild, bls. 3154.)  

Við túlkun á ákvæði 35. gr. laga nr. 70/1996 ber að líta til lög­skýringagagna að baki ákvæðinu og túlka það til samræmis við önnur ákvæði laganna. Líkt og áður segir er ákvæðinu ætlað að tryggja þeim sem ekki fær skipun sína endurnýjaða ríflegan uppsagnarfrest og er í því sambandi vísað til sjónarmiða sem búa að baki 34. gr. laganna sem fjallar um þá aðstöðu þegar ákvörðun hefur verið tekin um að leggja embætti niður. Af því má ráða að ákvæðunum sé ætlað að tryggja þeim sem mun ekki gegna embætti sínu áfram vegna einhliða ákvörðunar veitingarvaldshafa greiðslur sem samsvara launum í uppsagnarfresti. Þá er í 37. gr. laganna kveðið á um að uppsagnarfrestur, óski embættismaður eftir lausn frá embætti, sé ýmist þrír eða sex mánuðir og skuli embættis­maður halda launakjörum á meðan hann vinnur framangreindan frest.    

Með vísan til framangreinds tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að þér eigið ekki rétt á greiðslum á grundvelli 35. gr. laga nr. 70/1996.

   

2

Í ljósi athugasemda yðar um að aðrir skólameistarar hafi fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laga nr. 70/1996 við sambærilegar að­stæður og yðar er rétt að taka fram að samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Jafn­ræðis­reglan áskilur að stjórnvald leysi úr stjórnsýslumálum sem teljast sambæri­leg í lagalegu tilliti á sama hátt. Þegar kemur að því að meta áhrif og afleiðingar af hugsanlegum brotum stjórnvalda á jafnræðis­reglunni þarf að hafa í huga þá grundvallarreglu að efni ákvörðunar í hverju máli þarf að vera í samræmi við lög. Hafi stjórnvald ekki gætt þess að leysa úr tilteknu máli í samræmi við lög leiðir ekki af því einu að annar aðili sem á sambærilegt mál hjá stjórnvaldinu eigi á grundvelli jafnræðisreglunnar kröfu á að stjórnvaldið leysi einnig úr hans máli í ósamræmi við efnisreglur viðkomandi laga.

Að framangreindu virtu og í ljósi niðurstöðu minnar hér að framan tel ég þetta atriði í málinu ekki geta leitt til þess að afstaða mennta- og menningarmálaráðuneytisins til beiðni yðar teljist efnislega röng. Í því felst ekki afstaða til hvort heimild hafi staðið til launagreiðslna til annarra skólameistara enda yrði slík afstaða að byggjast á heildstæðu mati á þeim forsendum sem liggja til grundvallar þeim greiðslum. Aftur á móti hef ég ritað mennta- og menningarmálaráðherra bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti yður til upplýsingar.

   

III

Að öllu framangreindu virtu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hafi hafnað beiðni yðar um endurupptöku málsins, enda tel ég ekki leitt í ljós að afgreiðsla þess á beiðni yðar hafi verið haldin verulegum efnislegum annmarka.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   


   

Bréf umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 2. júlí 2021, hljóðar svo:

   

Til umboðsmanns Alþingis leitaði nýlega A, og kvartaði yfir synjun mennta- og menningarmála­ráðu­neytisins á beiðni hans um greiðslu launa við embættislok sem rektor [tiltekins skóla] samkvæmt 35. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi til A, dags. í dag, á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem hann taldi ekki tilefni til gera athugasemdir við að ráðuneytið hafi hafnað beiðni A um endur­upp­töku málsins, enda ekki leitt í ljós að afgreiðsla þess á beiðni hans hafi verið haldin verulegum efnislegum annmarka.  

Í kvörtun A var athygli umboðsmanns vakin á að aðrir rektorar, sem hafi fengið lausn frá embætti á grundvelli 37. gr. starfsmannalaga, hafi eftir að skipunartími þeirra rann út fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laganna í allt að sex mánuði. Umboðsmaður hefur á grundvelli þessa ákveðið að óska frekari upplýsinga um þetta atriði í framkvæmd ráðuneytisins með það fyrir augum að kanna hvort ástæða sé til að hann taki það atriði sem hér er spurt um til athugunar að eigin frumkvæði á grundvelli heimildar hans til þess í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.   

Með vísan til framangreinds er þess óskað, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, að mennta- og menningarmálaráðuneytið upplýsi umboðsmann um eftirfarandi: 

  1. Hvort aðrir rektorar, sem óskað hafa eftir lausn frá embætti síðast­liðin fimm ár, hafi fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laganna eftir að skipunartími þeirra rann út. 
  1. Hafi aðrir rektorar hlotið slíkar greiðslur er óskað upplýsinga um hverjir það voru og skýringa á því hvaða forsendur og laga­sjónarmið bjuggu þar að baki.

Þess er óskað að umbeðin svör berist umboðsmanni ekki síðar en 10. ágúst nk.