Atvinnuleysistryggingar. Niðurfelling bótaréttar.

(Mál nr. 11201/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um að beita viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. 

Þar ákvörðuninni hafði ekki verið skotið til úrskurðarnefnd velferðarmála voru ekki lagaskilyrði fyrir því að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 29. júní sl., sem lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að beita yður viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ástæða þess að ég nefni það er sú að í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 segir að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Stjórnsýslukæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég læt því máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér kjósið að leita til úrskurðarnefndarinnar getið þér að sjálfsögðu leitað til mín á ný að fenginni endanlegri niðurstöðu hennar ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.