Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. COVID-19.

(Mál nr. 11098/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á kæru vegna ákvörðunar Hafnarfjarðarbæjar um að greiða ekki matarkostnað barns á tímabili sem samgöngubann vegna COVID-19 varaði.  

Eftir ítrekaðar fyrirspurnir til ráðuneytisins bárust upplýsingar um að úrskurður hefði verið kveðinn upp í málinu. Þar með var ekki tilefni til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 17. maí sl., yfir töfum á afgreiðslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á kæru frá 9. júní 2020 vegna ákvörðunar Hafnar­fjarðar­bæjar um að greiða ekki matarkostnað barns á tímabili sem samgöngubann vegna Covid-19 heimsfaraldurs varaði.

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf, dags. 18. maí sl., þar sem þess var óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Erindið var ítrekað 21. júní og 26. júlí sl. Mér hefur nú borist svar frá ráðuneytinu, dags. 29. júlí sl., þar sem fram kemur að úrskurður hafi verið kveðinn upp 28. júlí sl., og hann sendur yður.

Þar sem kvörtun yðar laut að töfum á afgreiðslu málsins í ráðuneytinu og úrskurður liggur nú fyrir tel ég ekki tilefni til aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.