Almannatryggingar. Ellilífeyrir. Endurgreiðslukrafa.

(Mál nr. 11119/2021)

Kvartað var yfir að Tryggingastofnun hefði ráðstafað inneign ellilífeyris upp í skuld hjá stofnuninni vegna ofgreiddra bóta. 

Af gögnum frá Tryggingastofnun varð ekki annað ráðið en hún hefði gætt að skyldum sínum gagnvart viðkomandi og veitt leiðbeiningar eftir föngum, s.s. um nauðsyn þess að leiðrétta tekjuáætlun o.fl. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 25. maí sl. sem beinist að Tryggingastofnun og lýtur að greiðslu ellilífeyris, sbr. III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér gerið athugasemdir við það að inneign yðar hjá Tryggingastofnun hafi verið ráðstafað upp í skuld yðar hjá stofnuninni vegna ofgreiddra bóta.

Í tilefni af kvörtun yðar var Tryggingastofnun ritað bréf, dags. 28. maí sl., þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti um hvort þér ættuð erindi til meðferðar hjá stofnuninni, hvers efnis það væri þá og hver væri staða þess. Var þess jafnframt óskað að stofnunin afhenti umboðsmanni afrit af gögnum sem kynnu að varpa ljósi á samskipti yðar við hana vegna ellilífeyrisgreiðslna og, eftir atvikum, annarra lífeyrisgreiðslna frá 25. maí 2020. Svör stofnunarinnar, auk umbeðinna gagna, bárust mér með bréfi, dags. 28. júní sl.

Af þeim gögnum sem fylgdu svörum Tryggingastofnunar verður ráðið að þér hafið átt í nokkrum samskiptum við stofnunina frá 25. maí 2020. Eftir því sem fram kemur í svörum stofnunarinnar hefur hún svarað þeim erindum yðar sem henni hafa borist á umræddu tímabili.

Af 55. gr. laga nr. 100/2007 leiðir að Tryggingastofnun skal draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til í samræmi við nánari reglur ákvæðisins og reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunar­framlags. Líkt og fram kom í bréfi mínu til yðar, dags. 18. maí sl., í tilefni af kvörtun yðar í máli nr. 11022/2021 taldi ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við ákvarðanir Tryggingastofnunar um að synja beiðnum yðar um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta eða úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem þær ákvarðanir voru staðfestar. Í því sambandi hafði komið fram að fallist hafði verið á að dreifa kröfu á hendur yður yfir 60 mánuði til þess að koma til móts við aðstæður yðar. Þá verður ekki annað ráðið af þeim gögnum sem mér hafa borist frá Tryggingastofnun en að stofnunin hafi almennt gætt að skyldu sinni til að svara skriflegum erindum yðar og öðrum fyrirspurnum og veitt yður leiðbeiningar eftir því sem kostur er, s.s. um nauðsyn þess að þér gerðuð leiðréttingar á tekjuáætlun yðar og möguleika yðar á því að fá þann ellilífeyri sem þér kunnið að eiga rétt á greiddan í einu lagi. Við þær aðstæður er lífeyrir einstaklinga reiknaður eftir að viðkomandi hefur skilað skattframtali sínu og greiðslurnar miðaðar við rauntekjur en ekki áætlun.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar og lýk hér með umfjöllun minni vegna málsins.