Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11135/2021)

Kvartað var yfir að Skatturinn hefði ekki lagt fram skattskrá vegna álagningar á tekjur ársins 2019 þrátt fyrir lagaskyldu þar um.

Með vísan til þess að það styðst nú við sérstaka lagaheimild að umrædd skattskrá hafi ekki enn verið birt og í ljósi þeirra áforma Skattsins að birta hana í haust taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Ég vísa til kvörtunar yðar 26. maí sl. yfir því að Skatturinn hafi ekki lagt fram skattskrá vegna álagningar á tekjur ársins 2019 þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Í tilefni af kvörtuninni var Skattinum ritað bréf 14. júní sl. sem hann hefur nú svarað með bréfi 30. sama mánaðar, en afrit af því fylgir þessu bréfi.

Eins og nánar greinir í bréfi Skattsins var lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, breytt með lögum nr. 69/2021 sem voru samþykkt á Alþingi 13. júní sl. Samkvæmt 5. gr. laganna var nýju ákvæði til bráðabirgða bætt við lög um tekjuskatt, en ákvæðið er orðrétt tekið upp í fyrrgreindu bréfi Skattsins. Jafnframt hafa lög nr. 69/2021 nú verið birt í A-deild Stjórnartíðinda 25. júní sl.

Með vísan til þess að það styðst nú við sérstaka lagaheimild að umrædd skattskrá hafi ekki enn verið birt og í ljósi þeirra áforma Skattsins að birta hana í haust tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar. Athugun minni á henni er því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.