Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11156/2021)

Kvartað var vegna afgreiðslu Samgöngustofu á máli er laut að ákvörðun Hafnasamlags Norðurlands bs. um álagningu farþegagjalda frá árinu 2016.

Við eftirgrennslan kom fram að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefði endurskoðað fyrri afstöðu sína og hygðist taka málið til meðferðar. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

    

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 3. júní sl. vegna afgreiðslu Samgöngustofu á máli sem stofnunin hefur haft til meðferðar og lýtur að ákvörðunum Hafnasamlags Norðurlands bs. um álagningu farþegagjalda frá árinu 2016. Að þessu leyti vísa ég einnig til kvörtunar yðar til umboðsmanns sem laut að sama máli frá júní 2020 sem hlaut málsnúmerið 10603/2020 og lauk í kjölfar þess að samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðuneytið upplýsti umboðsmann með bréfi, dags. 26. mars sl., að ákveðið hefði verið að „endurupptaka málið og senda það til afgreiðslu Samgöngustofu, enda verði ákvörðunum hafnarstjóra [um álagningu farþegagjalda] skotið til þeirrar stofnunar samkvæmt 27. gr. hafnalaga.“

Í tilefni af kvörtuninni var Samgöngustofu ritað bréf, dags. 9. júní sl., þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti um málsmeðferð hennar vegna málsins. Í tölvupósti frá Samgöngustofu frá 3. ágúst sl. kom fram að nú lægi fyrir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefði endurskoðað ofangreinda afstöðu sína sem greint var frá í bréfi þess frá 26. mars og hygðist ráðuneytið taka málið til meðferðar. Hefur ráðuneytið einnig upplýst mig um þetta með bréfi sem barst 5. ágúst sl. en bréfi ráðuneytisins fylgdi afrit af tilkynningu þess til yðar þar um, dags. 30. júlí sl.

Í ljósi ofangreinds og þar sem málið er nú til meðferðar hjá ráðuneytinu tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu og læt því athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til hinnar breyttu afstöðu ráðuneytisins sem greint var frá í bréfi þess til yðar. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.