Tolleftirlit. Tafir.

(Mál nr. 11164/2021)

Kvartað var yfir stöðvun á tollafgreiðslu þriggja rafhlaupahjóla sem flutt voru til landsins frá Kína.

Af svörum Skattsins varð ekki annað ráðið en málið hefði verið lagt í ákveðinn farveg og fyrirhugað að taka ákvörðun í því á tímabili sem nú væri liðið. Í ljósi þess og að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem ekki hafa verið leidd endanlega til lykta hjá stjórnvöldum taldi umboðsmaður ekki rétt að fjalla frekar um kvörtunina að svo stöddu en benti viðkomandi á að hann gæti gært niðurstöðu Skattsins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins teldi hann tilefni til þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til mín f.h A ehf., dags. 8. júní sl., sem lýtur að stöðvun á tollafgreiðslu þriggja rafhlaupahjóla sem flutt voru inn til landsins frá Kína. Mál yðar hefur áður komið til athugunar hjá umboðsmanni sem mál nr. 10882/2020. Því máli var lokið með bréfi, dags. 24. mars sl., þar sem settur umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu þar sem kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hefðu ekki verið fullnýttar.

Í kvörtun yðar til mín nú kemur fram að þér hafið leitað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem hafi vísað kæru yðar frá á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem mál yðar væri enn til meðferðar hjá tollyfirvöldum. Í úrskurðinum kom fram að samkvæmt upplýsingum frá tollgæslustjóra hefði ekki verið tekin endanleg stjórnvaldsákvörðun í málinu þar sem enn væri beðið eftir því að þér afhentuð tilteknar upplýsingar.

   

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar var Skattinum ritað bréf, dags. 16. júní sl., þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti mig um hvort tollgæslustjóri hefði mál yðar til meðferðar og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Þá var þess jafnframt óskað að ég yrði upplýstur um nánar tiltekin atriði í tengslum við málsmeðferð tollyfirvalda.

Mér bárust svör frá Skattinum, dags. 5. júlí sl., þar sem fram kom að mál yðar væri enn til meðferðar en beðið væri eftir því að þér afhentuð samræmisyfirlýsingu í samræmi við A-lið II. viðauka við reglugerð nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað. Í svarbréfinu kom jafnframt fram að leitast væri við að gefa innflytjendum sanngjarnan frest til að skila viðeigandi gögnum en að sá frestur skyldi þó almennt ekki vera lengri en sex mánuðir, sbr. 1. mgr. 22. gr. tollalaga nr. 88/2005.  Þá skyldi gera innflytjendum grein fyrir því að bærust gögn ekki innan setts frests yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Í tilviki yðar hafi verið gengið á eftir því við yður að afhenda viðeigandi upplýsingar í desember 2020 og í mars 2021. Í ljósi þess að meira en sex mánuðir væru liðnir frá komudegi flutningsfars lægi fyrir að ákvörðun í máli yðar hefði dregist óhóflega en stefnt væri að því að ákvörðun yrði tekin á tímabilinu 5.-9. júlí. Áður en sú ákvörðun yrði tekin yrði yður gerð grein fyrir því að bærust umbeðin gögn ekki yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Afrit af bréfinu fylgir hjálagt.

   

2

Líkt og fram kom í bréfi setts umboðsmanns til yðar frá 24. mars sl. er eitt af skilyrðum þess að kvörtun sé tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafi verið fullnýttar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns fyrr en það hefur endanlega verið til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Í þeim tilvikum sem umboðsmanni berst kvörtun yfir töfum á afgreiðslu máls hefur almennt, þrátt fyrir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá viðkomandi stjórnvaldi hvað líði meðferð og afgreiðslu málsins ef fyrir liggur að nokkuð er liðið frá því að það kom til meðferðar og sá sem í hlut á hefur sjálfur gengið á eftir afgreiðslu þess með sannanlegum hætti. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgarinn fái sem fyrst vitneskju um stöðu og niðurstöðu máls og geti eftir atvikum hagað eigin viðbrögðum til samræmis við það. Reyndin hefur í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hafi afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvenær ráðgert er að afgreiða það. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður athugun sinni á málinu. Vegna fyrrnefnds áskilnaðar 3. mgr. 6. gr. hefur umboðsmaður hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til málsmeðferðar stjórnvalds eða þeirra samskipta sem þar liggja fyrir í máli sem er enn til meðferðar, þ.m.t. hvort málshraði viðkomandi stjórnvalds samrýmist málshraðareglum stjórnsýsluréttarins.

Af svörum Skattsins verður ekki annað ráðið en að mál yðar hafi verið lagt í ákveðinn farveg og að fyrirhugað hafi verið að taka ákvörðun í málinu á nánar tilgreindu tímabili sem nú er liðið. Í ljósi framangreinds og þar sem lög nr. 85/1997 gera ekki ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem ekki hafa verið endanlega til lykta leidd hjá stjórnvöldum tel ég því ekki rétt að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ég bendi yður hins vegar á að hafi fyrirætlanir tollyfirvalda um að ákvarða í málinu ekki gengið eftir getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Ef niðurstaða liggur fyrir getið þér, ef þér teljið tilefni til, kært hana til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2005. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín með kvörtun vegna hennar innan árs frá því að úrskurður er kveðinn upp, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

   

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á máli yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.