Byggingar- og skipulagsmál. Ógilding ákvörðunar byggingarnefndar. Andmælaréttur. Álitsumleitan. Málshraði.

(Mál nr. 613/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 19. apríl 1993.

A kvartaði yfir úrskurði umhverfisráðuneytisins, sem felldi úr gildi byggingarleyfi vegna grindverks á lóðamörkum, sem langt var komið í byggingu, þegar úrskurður ráðuneytisins gekk. A taldi, að meðferð málsins hjá umhverfisráðuneytinu væri haldinn verulegum annmarka, þar sem athygli hans hefði ekki verið vakin á því, að málið væri þar til úrlausnar og honum hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið, áður en ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn.

Umboðsmaður taldi, að hin óskráða meginregla um andmælarétt gilti almennt við meðferð kærumála hjá umhverfisráðuneytinu á sviði byggingarmála. Af því leiddi, að ráðuneytinu bæri að vekja athygli aðila byggingarmáls á því, að mál hans væri til meðferðar og veita honum aðgang að gögnum málsins og færi á að tjá sig um það. Þar sem ráðuneytið hefði ekki gætt þessara reglna, yrði að telja, að úrskurður þess væri haldinn verulegum annmarka.

Þá vék umboðsmaður að lögbundinni álitsumleitan í málinu, sbr. 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, en umsögn frá viðkomandi byggingarnefnd barst ekki þrátt fyrir ítrekanir, og var úrskurður ráðuneytisins kveðinn upp án þess að umsögnin lægi fyrir. Umboðsmaður fjallaði um mikilvægi álitsumleitana í undirbúningi stjórnvaldsákvarðana og hvernig að þeim skyldi staðið. Vanræksla á að afla lögboðinnar umsagnar teldist yfirleitt verulegur annmarki, sem leiddi til ógildingar ákvörðunar. Því yrði stjórnvald að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem eðlilegar gætu talist, til að knýja fram lögboðna umsögn. Taldi umboðsmaður, að umhverfisráðuneytið hefði ekki neytt tiltækra úrræða til að fá fram umsögnina. Þar sem umsögnin lá þannig ekki fyrir við ákvörðun málsins án þess að sýnt hefði verið fram á, að ekki hefði verið unnt að afla hennar, taldi umboðsmaður, að af þessum sökum væri verulegur annmarki á úrskurði ráðuneytisins. Loks áréttaði umboðsmaður sjónarmið sín um mikilvægi þess, að stjórnvöld hagi meðferð mála þannig, að lögmæltir afgreiðslufrestir séu haldnir, en skýri ella aðilum frá ástæðum tafa og hvenær úrskurðar sé að vænta. Af málsgögnum yrði ekki séð, að aðilum hefði verið skýrt frá töfum á afgreiðslu málsins í samræmi við þessi sjónarmið. Fjallaði umboðsmaður um tilhögun álitsumleitana með sérstöku tilliti til málshraða.

I. Kvörtun.

Hinn 4. júní 1992 leitaði til mín A, og kvartaði yfir úrskurði umhverfisráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1991, þar sem fellt var úr gildi byggingarleyfi vegna girðingar á milli lóðar A og nágranna hans B. Taldi A að meðferð málsins hjá umhverfisráðuneytinu væri haldin verulegum annmarka, þar sem athygli hans hafi ekki verið vakin á því, að málið væri þar til úrlausnar, og honum ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið, áður en ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn í því.

II. Málavextir.

Samkvæmt kvörtun A eru málavextir í stuttu máli þeir, að í byrjun vors 1987 varð að samkomulagi milli A og nágranna hans, B og C, að reisa girðingu á milli lóðanna Y og X. Áður en framkvæmdir hófust, kveðst A hafa farið á fund byggingarfulltrúans í Z, sem síðar hafi komið á staðinn og litið á aðstæður. Kveður A byggingarfulltrúann hafa heimilað þeim að hefja framkvæmdir, þar sem samkomulag væri um frágang á umræddum lóðarmörkum. Veggurinn var síðan steyptur árið 1987 og settir niður í hann staurar. Hann var síðan pússaður og hraunaður árið 1988. Þegar komið var hins vegar að því að klæða vegginn árið 1989, segir A, að nágrannar hans að Y hafi tjáð sér, að þeir hefðu ekki ráð á því að ljúka við girðinguna. Aftur á móti gæti A lokið við girðinguna á sinn kostnað, óskaði hann þess. Hófst A síðan handa við að klæða girðinguna.

Hinn 14. september 1989 ritaði byggingarfulltrúi A bréf, þar sem honum var gerð grein fyrir því, að borist hefði bréf frá íbúum að Y, þar sem þess væri óskað, að séð yrði til þess, að hæð og lögun girðingarinnar skyggði sem minnst á sólskin á lóð þeirra. Var A jafnframt gert að stöðva framkvæmdir við girðinguna. Samkvæmt gögnum málsins ritaði A byggingarnefndinni bréf 23. nóvember 1989 og óskaði eftir því, að nefndin leysti þetta mál. Hinn 7. desember 1989 samþykkti byggingarnefnd ályktun um málið. Þar segir:

"Byggingarnefnd samþ. að eigandi [X] fjarlægi umrædda girðingu eigi síðar en í ágúst 1990. Að öðrum kosti mun hún verða fjarlægð á kostnað húseiganda."

Hinn 7. ágúst 1990 leitaði A til félagsmálaráðuneytisins og óskaði leiðbeininga um réttarstöðu sína. Erindi hans var svarað með bréfi, dags. 17. október 1990. Þar segir meðal annars:

"Varðandi réttarstöðu yðar í máli þessu telur ráðuneytið að þér þurfið að leggja teikningu af girðingunni milli lóðar yðar og [Y] fyrir byggingarnefnd og sækja formlega um leyfi til að reisa hana sbr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978. Byggingarnefnd ber þá ef hún ekki samþykkir umsókn yðar annaðhvort að gera breytingartillögur við teikninguna og gefa yður kost á að tjá yður um þær eða þá ef hún synjar umsókn yðar að rökstyðja það ef þér óskið."

A fór að ráðum félagsmálaráðuneytisins og sótti formlega um byggingarleyfi fyrir umræddri girðingu hinn 3. desember 1990. Með bréfi, dags. 31. janúar 1991, var A tilkynnt, að á fundi byggingarnefndar Z hinn 23. janúar 1991 hefði verið samþykkt að heimila honum að reisa vegg úr timbri á lóðinni nr.... við X í samræmi við umsókn hans. Samþykkt byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Z 29. janúar 1991.

Með bréfi, dags. 29. apríl 1991, kærðu eigendur Y ákvörðun byggingarnefndar. Úrskurður umhverfisráðuneytisins var kveðinn upp í málinu hinn 28. ágúst 1991 og segir þar meðal annars:

"Úrskurður:

Með bréfi, dags. 29. apríl 1991, kærðu [B] og [C], eigendur [Y], til Umhverfisráðuneytisins byggingarleyfi fyrir girðingu á mörkum þeirrar lóðar og lóðarinnar nr. [...] við [X]. Leyfið var veitt á fundi Byggingarnefndar [Z] 23. janúar 1991 og er kæran send ráðuneytinu, sbr. 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 og 2. gr. 1.3. í byggingarreglugerð nr. 292/1979.

Með bréfi, dags. 3. maí sl. leitaði ráðuneytið umsagnar Skipulagsstjórnar ríkisins og Byggingarnefndar [Z].

Umsögn Skipulagsstjórnar barst með bréfi, dags. 23. maí 1991, en umsögn frá byggingarnefndinni hefur ekki borist, þótt eftir hafi verið gengið.

[2]

Kæruatriðum er lýst á þessa leið í áðurnefndu bréfi, dags. 29. apríl sl.

"Við undirrituð eigendur [Y] höfum ákveðið að nýta okkur rétt samkvæmt lið 2.1.3. byggingarreglugerðar sbr. 8. lið 8. gr. byggingarlaga, þar sem við teljum verulega á okkur brotið við ákvörðun byggingarnefndar [Z] frá 23. janúar 1991, og samþykkt bæjarstjórnar á fundargerð nefndarinnar 29.01.91., varðandi hæð og gerð timburgirðingar á lóðarmörkum okkar og [X], sem reist var án leyfis, en samþykkt á fundinum eftir að hafa verið hafnað tvisvar áður.

...

[3]

Umsögn Skipulagsstjórnar ríkisins dags. 23. maí sl. er á þessa leið:

...

Niðurstaða

Skipulagsstjórn telur með vísan til gr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 292/1979 að umsókn eiganda [X] um byggingarleyfi fyrir girðingu á milli lóðanna nr. [...] við [Y] og [...] við [X] þurfi að fylgja skriflegt samþykki eiganda [X]. Slíkt samþykki lá ekki fyrir þegar byggingarnefnd veitti leyfi fyrir girðingunni á fundi sínum 23. janúar 1991.

Skipulagsstjórn telur að fella beri leyfið úr gildi."

Eins og áður segir hefur umsögn ekki borist frá Byggingarnefnd [Z].

Niðurstaða ráðuneytisins verður því reist á þeim gögnum, sem því hafa borist um kæruefnið.

[4]

Af gögnum málsins virðist ljóst, að rétti kærenda er hallað með því byggingarleyfi, sem hér um ræðir og Byggingarnefnd [Z] veitti 23. janúar 1991.

Með því er brotið gegn 3. gr. 1.1. í byggingarreglugerð nr. 292/1979 eins og Skipulagsstjórn ríkisins bendir á í umsögn sinni. Það brýtur þar með einnig á bága við 14. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.

Samkvæmt þessu ber að fella byggingarleyfið úr gildi.

Ráðuneytið telur aðfinnsluvert að Byggingarnefnd [Z] hefur ekki sent umsögn um mál þetta svo sem óskað var í bréfi ráðuneytisins, dags. 3. maí 1991.

Niðurstaða:

Byggingarleyfi það, sem Byggingarnefnd [Z] veitti 23. janúar 1991 fyrir girðingu milli lóðanna nr. [...] við [X] og nr. [...] við [X] í [Z] er fellt úr gildi."

A gerði svofellda grein fyrir kvörtun sinni:

"Úrskurður umhverfisráðuneytisins er á því byggður, að með veitingu umrædds byggingarleyfis hafi verið brotið gegn fyrirmælum greinar 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 292/1979. Í ákvæðinu er tekið fram, að sá sem óski leyfis til tiltekinna verka, sem hafi áhrif á útlit umhverfis skuli senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar, ásamt uppdráttum og skilríkjum, þar með talið skriflegt samþykki meðeiganda ef um sameign er að ræða. Ég tel að ég hafi uppfyllt öll skilyrði til þess að mega reisa girðinguna þar á meðal fyrirmæli greinar 5.11. í byggingarreglugerð.

Ég tel, að umhverfisráðuneytið hafi átt að gefa mér kost á að tala máli mínu. Ég fékk t.d. ekki tækifæri til að tjá mig um kæru [B] og [C] eigenda [Y], en samkvæmt kærunni virðist hún einkum snúa að hæð og gerð girðingarinnar og ennfremur, að hvaða marki bæri að líta á umrædda girðingu sem sameign okkar. Í því sambandi vil ég upplýsa, að ég hefði getað upplýst, að í upphafi var umrædd girðing rædd við [B] og [C] og hver yrði líkleg lögun hennar. Kynntum við okkur m.a. sameiginlega sambærilegar girðingar annars staðar. Girðingin var því í upphafi byggð í okkar samvinnu og með samkomulagi beggja aðila og skyldi kostnaður skiptast jafnt. Enginn skriflegur samningur var gerður í þessu sambandi, enda var þess ekki krafist af byggingarfulltrúa, sem samband var haft við og komið hafði á staðinn..."

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 12. júní 1992 ritaði ég umhverfisráðuneytinu og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té gögn þau, er málið snertu. Með bréfum umhverfisráðuneytisins, dags. 2. og 8. júlí 1992, bárust mér gögn málsins.

Hinn 27. júlí 1992 ritaði ég umhverfisráðuneytinu bréf og óskaði eftir því, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Ennfremur óskaði ég þess, að ráðuneytið gerði nánari grein fyrir því, með hvaða hætti það hefði gengið eftir því, að byggingarnefnd Z sendi ráðuneytinu umsögn sína um málið. Svar umhverfisráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 18. ágúst 1992, og hljóðar það svo:

"Vísað er til bréfs yðar dags. 27. júlí 1992, þar þér óskið eftir að umhverfisráðuneytið skýri viðhorf sitt til kvörtunar [A], þess efnis að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að upplýsingum sínum og viðhorfum, áður en umhverfisráðuneytið felldi, með úrskurði 28. ágúst 1991, úr gildi byggingarleyfi vegna girðingar á milli lóðanna nr. [...] við [Y] og nr. [...] við [X].

Þann 3. maí 1991 óskaði ráðuneytið umsagnar byggingarnefndar [Z] um byggingarleyfi það sem mál þetta fjallar um. Hins vegar barst ráðuneytinu ekki svar frá byggingarnefndinni. Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram, þar sem segir á bls. 1:

"Umsögn Skipulagsstjórnar barst með bréfi, dags. 23. maí 1991, en umsögn frá byggingarnefndinni hefur ekki borist, þótt eftir hafi verið gengið."

Ekki er að sjá af þeim gögnum sem ráðuneytið hefur um mál þetta að beiðni ráðuneytisins um umsögn byggingarnefndar [Z] hafi verið ítrekuð með formlegum hætti. Hins vegar, samkvæmt ofanrituðu, var það gert, væntanlega á óformlegan hátt, en eins og hér stendur á hefur ráðuneytið ekki tækifæri til að staðfesta það.

Í 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, er boðið að leita skuli umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar (byggingarnefndar) og Skipulagsstjórnar, áður en úrskurður gengur vegna ágreinings sem á undir lögin. Í lögunum er hins vegar ekki að finna neitt ákvæði sem kveður á um að ráðuneyti leiti sérstaklega álits aðila.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 28. ágúst 1991 segir orðrétt:

"Ráðuneytið telur aðfinnsluvert að Byggingarnefnd [Z] hefur ekki sent umsögn um mál þetta svo sem óskað var í bréfi ráðuneytisins, dags. 3. maí 1991."

Í tilvitnaðri 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga kemur enn fremur fram að ráðherra skuli innan þriggja mánaða frá áfrýjun kveða upp úrskurð sinn um ágreining. Eins og mál þetta er vaxið var sá frestur liðinn og ráðuneytið sá sér ekki annað fært en að kveða upp úrskurð þótt umsögn byggingarnefndar [Z] hefði ekki borist."

Hinn 20. ágúst 1992 var framangreint bréf ráðuneytisins kynnt A og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við það.

IV. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 19. apríl 1993, sagði svo:

"1. Andmælaréttur í kærumálum hjá umhverfisráðuneytinu.A kvartar yfir því, að umhverfisráðuneytið hafi ekki vakið athygli hans á því, að málið væri þar til meðferðar, og að það hafi ekki gefið honum kost á að tjá sig um það, áður en það kvað upp úrskurð sinn í málinu.

Hér á landi hafa ekki verið sett almenn stjórnsýslulög, sem hafa að geyma grundvallarreglur um málsmeðferð hjá stjórnvöldum, þ. á m. reglur um andmælarétt, en í ársskýrslum mínum (SUA 1989:7, 1990:5 og 1991:166) hef ég vakið máls á brýnni þörf slíkra laga. Ekki er heldur fyrir að fara sérákvæðum um það efni í byggingarlögum nr. 54/1978 eða byggingarreglugerð. Af úrlausnum dómstóla, eðli máls og meginreglum laga verður hins vegar ráðið, að málsaðili eigi oft svonefndan andmælarétt í ólögfestum tilvikum, varði mál mikilvæga persónulega eða fjárhagslega hagsmuni hans, enda liggi afstaða hans ekki fyrir í gögnum máls. Í grundvallarreglunni um andmælarétt felst meðal annars, að málsaðili á að eiga kost á því að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik, áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans.

Við úrlausn þess, hvort A hafi að lögum átt rétt til að fá að tjá sig í umræddu máli, á grundvelli hinnar óskráðu meginreglu um andmælarétt, verður meðal annars að hafa í huga að úrræði þau, sem almenningi standa til boða við að fá ákvarðanir stjórnvalda endurskoðaðar, eru almennt grundvölluð á sjónarmiðum um aukið réttaröryggi og réttarvernd borgaranna og ýmsu hagræði af slíkri málsmeðferð. Við meðferð byggingarmála, sem kærð hafa verið til umhverfisráðherra sem yfirstjórnanda byggingarmála, sbr. 3. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum, verður því almennt að gera kröfur um vandaða málsmeðferð hjá ráðuneytinu, svo að málskot til ráðuneytisins uppfylli þau markmið, sem liggja til grundvallar þessu réttarúrræði. Þá verður að hafa í huga, að úrlausn umhverfisráðherra í byggingarmálum snertir yfirleitt mikilsverða hagsmuni aðila máls og geta ákvarðanir í þessum málum verið mjög íþyngjandi í garð málsaðila. Skiptir það aðila því miklu að eiga kost á því að tryggja réttindi sín og hagsmuni, áður en umhverfisráðuneytið tekur ákvörðun í málinu.

Af framansögðu athuguðu verður því að telja, að hin óskráða meginregla um andmælarétt gildi almennt við meðferð kærumála hjá umhverfisráðuneytinu á sviði byggingarmála. Af því leiðir að umhverfisráðuneytinu ber að vekja athygli aðila byggingamáls á því, að mál hans sé til meðferðar og veita honum aðgang að gögnum þess og færi á að tjá sig um málið, áður en ráðuneytið tekur ákvörðun í málinu. Þar sem umhverfisráðuneytið gætti ekki þessara reglna í máli því, sem hér er til umfjöllunar, áður en það tók svo íþyngjandi ákvörðun, að fella úr gildi byggingarleyfi A til að reisa grindverk, sem var mjög langt komið í byggingu, verður að telja að úrskurður umhverfisráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1991, sé haldinn verulegum annmarka.

2. Álitsumleitan.

Fram kemur í úrskurði umhverfisráðuneytisins 28. ágúst 1992, að málið hafi verið afgreitt, án þess að fyrir lægi umsögn frá byggingarnefnd Z, þar sem slík umsögn hafi ekki borist.

Samkvæmt 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum, skal umhverfisráðherra leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar (byggingarnefndar), áður en hann kveður upp úrskurð í byggingarmálum. Þegar lögbundið er, að stjórnvald skuli leita umsagnar annars stjórnvalds, áður en það tekur ákvörðun í máli, hefur það ekki aðeins skyldu að leita eftir slíkri umsögn, heldur hvílir einnig sú skylda að lögum á því stjórnvaldi, sem leita skal umsagnar hjá, að veita umsögn. Synji stjórnvald hins vegar að veita lögboðna umsögn þrátt fyrir eftirgangsmuni, er spurning hvernig með skuli fara. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að álitsumleitan er almennt veigamikill þáttur í undirbúningi ákvörðunar og hefur því yfirleitt verið talið, að vanræksla á því að leita lögboðinnar umsagnar sé verulegur annmarki, sem almennt leiði til ógildingar ákvörðunar. Á hinn bóginn er augljóst, að óviðunandi er að umsagnaraðili geti með athafnaleysi sínu komið í veg fyrir að stjórnvald afgreiði mál. Verður því að telja, að stjórnvald geti við slíkar aðstæður tekið ákvörðun í máli, að því skilyrði uppfylltu, að það hafi sannanlega gripið til allra þeirra ráðstafana til þess að fá hina lögboðnu umsögn, sem eðlilegar geta talist á viðkomandi sviði stjórnsýslunnar.

Af gögnum málsins er ljóst, að umhverfisráðuneytið ritaði byggingarnefnd Z bréf hinn 3. maí 1991 og óskaði umsagnar með vísan til 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978. Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins í málinu, svo og bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 18. ágúst 1992, að erindið hafi verið ítrekað á óformlegan hátt, en ekkert er þó til skjalfest um það, hvenær það var gert og hve oft. Ekki verður ráðið af gögnum málsins, að skorað hafi verið á bæjarstjórn Z að sjá til þess að umrædd umsögn yrði veitt, en skv. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 fer sveitarstjórn með stjórn sveitarfélags og skal m.a. sjá til þess að lögbundin verkefni sveitarfélagsins séu rækt, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Þá er heldur ekki að sjá, að félagsmálaráðuneytinu hafi verið gert viðvart um málið, en félagsmálaráðuneytið skal hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum og hefur í því sambandi lögmælt þvingunarúrræði, sbr. 3. mgr. 118. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

Að framansögðu athuguðu verður ekki séð, að umhverfisráðuneytið hafi gripið til þeirra ráðstafana til þess að fá hina lögboðnu umsögn, sem eðlilegar gátu talist, eins og á stóð. Var því ekki útséð um það, að umsagnar byggingaryfirvalda Z yrði ekki aflað. Þar sem hin lögboðna umsögn lá ekki fyrir við ákvörðun málsins og ekki hefur verið sýnt fram á að hennar yrði ekki aflað, eins og hér að framan greinir, verður að telja, að úrskurður umhverfisráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1991, sé einnig af þessum ástæðum haldinn verulegum annmarka.

3. Afgreiðslutími málsins og skýringar á töfum á afgreiðslu þess.

Ganga verður út frá þeirri grundvallarreglu, að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem verða má. Hins vegar eru viðfangsefni, sem ráðuneytum berast, margvísleg og tekur úrlausn þeirra því óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma. Í 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum, kemur fram að umhverfisráðherra skuli kveða upp úrskurði sína í byggingarmálum innan þriggja mánaða frá kæru ákvörðunar. Í slíkum málum reynist oft mjög tímafrekt að leita álits hlutaðeigandi byggingarnefndar og Skipulagsstjórnar, svo sem lögboðið er í fyrrnefndri grein. Þar sem stjórnvöldum ber að haga meðferð mála með þeim hætti að tryggt sé að lögmæltir frestir til afgreiðslu þeirra séu haldnir, hefur verulega þýðingu, hvernig umhverfisráðuneytið hagar álitsumleitan í byggingarmálum. Til þess að stuðla að því að mál taki sem skemmstan tíma í afgreiðslu, er mikilvægt að leitað sé lögboðinnar umsagnar við fyrstu hentugleika. Þurfi að leita eftir fleiri en einni umsögn, ber að gera það samtímis, þar sem því verður við komið. Þá tel ég eðlilegt að ráðuneytið tiltaki, fyrir hvaða tíma óskað er eftir því að umsagnaraðili láti í té umsögn sína, þar sem umsagnaraðila eru sjaldnast ljós þau tímamörk, sem halda verður, svo að máli verði lokið innan hins lögskipaða þriggja mánaða frests. Berist umsögn hins vegar ekki innan þeirra tímamarka, sem tiltekin hafa verið, ber ráðuneytinu að ítreka erindi sitt og grípa í framhaldi af því til eðlilegra ráðstafana til þess að knýja fram hina lögboðnu umsögn.

Eins og áður segir, ber stjórnvaldi að haga meðferð máls með þeim hætti að tryggt sé að lögmæltur frestur til afgreiðslu þess sé haldinn. Ef út af er brugðið, án þess að fyrir liggi afsakanlegar ástæður, getur það m.a. varðað hlutaðeigandi starfsmann viðurlögum. Í þeim tilvikum, þar sem fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni dragast fram yfir lögskipaðan afgreiðslufrest, ber stjórnvaldi hins vegar að skýra aðilum frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær úrskurðar sé að vænta.

Ekki verður séð af gögnum máls, að aðilum hafi verið skýrt frá töfum á afgreiðslu málsins í samræmi við framangreind sjónarmið. Tel ég því rétt að árétta þau sjónarmið um þetta efni, er fram koma í skýrslu minni fyrir árið 1989, bls. 83, og í áliti mínu í máli nr. 497/1991 frá 9. júní 1992." [SUA 1992:40]

4. Niðurstaða.

Niðurstöður mínar dró ég saman á svofelldan hátt:

"Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að úrskurður umhverfisráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1991, sé haldinn verulegum annmarka, þar sem umhverfisráðuneytið vakti ekki athygli A á því, að mál hans væri til meðferðar, og veitti honum eigi aðgang að gögnum þess og færi á að tjá sig um málið, áður en ráðuneytið tók málið til úrskurðar. Þá verður einnig að telja það verulegan annmarka á úrskurðinum að lögboðin umsögn byggingarnefndar Z lá ekki fyrir við ákvörðun málsins, en ekki hefur verið sýnt fram á, að ekki hafi verið unnt að afla hennar. Af þessum sökum eru það tilmæli mín, að umhverfisráðuneytið taki mál A á ný til meðferðar, komi fram ósk um það frá honum. Ég tek hins vegar fram, að í áliti þessu hefur ekki verið tekin nein afstaða til efnisúrlausnar málsins."

V. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1993, óskaði ég eftir upplýsingum hjá umhverfisráðherra um það, hvort A hefði óskað eftir að ráðuneytið tæki mál hans á ný til meðferðar, og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því.

Svar umhverfisráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 19. nóvember 1993, þar sem fram kom að ráðuneytið hefði tekið mál A að nýju til meðferðar í samræmi við álit umboðsmanns og samkvæmt ósk hans í bréfi til ráðuneytisins, dags. 24. maí 1993. Úrskurður hefði verið kveðinn upp 25. október 1993 og fylgdi hann í ljósriti. Niðurstaða hans var sú að ákvörðun byggingarnefndar [Z] frá 23. janúar 1991 um að veita eigendum [X] leyfi til að reisa timburgirðingu á lóðarmörkum skyldi óbreytt standa.