Sveitarfélög. Greiðsla kostnaður vegna starfa í skólanefnd.

(Mál nr. 2900/1999)

A, B og C kvörtuðu yfir afgreiðslu félagsmálaráðuneytisins og hreppsnefndar X-hrepps á beiðni þeirra um að sveitarfélagið greiddi kostnað sem þau töldu sig hafa haft af málsókn D á hendur þeim.

A, B og C sátu í skólanefnd grunnskólans að Y í X-hreppi þegar D sótti um kennarastöðu við skólann árið 1992. D stefndi þeim fyrir dóm vegna afstöðu þeirra til ráðningarinnar og tiltekinna ummæla í tengslum við hana í skýrslugjöf fyrir dómi og í bréfi A fyrir hönd skólanefndar til menntamálaráðuneytisins. Urðu kvartendur fyrir útgjöldum vegna lögmannskostnaðar í tengslum við málareksturinn sem X-hreppur neitaði að greiða. Töldu kvartendur þennan kostnað leiða af skyldum sem á þeim hvíldi sem nefndarmenn í skólanefnd sveitarfélagsins.

Settur umboðsmaður rakti 3. mgr. 57. gr. og 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sem kveða á um kosningu nefnda og skyldur sveitarstjórnarmanna til að inna af hendi störf sem sveitarstjórn felur þeim og varða verkefni sveitarstjórnarinnar. Þá rakti settur umboðsmaður 18. gr. laga nr. 49/1991, um grunnskóla, sem fjallar um hlutverk skólanefnda, 34. gr. sömu laga og 1. mgr. 20. gr. erindisbréfs fyrir skólanefndir grunnskóla nr. 185/1976 um ráðningu kennara. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum var það niðurstaða setts umboðsmanns að skólanefndin hefði verið að sinna lögboðnu umsagnarhlutverki sínu þegar hún fjallaði um hæfi umsækjenda. Benti hann á að upplýsingar um að til rannsóknar væri meint refsiverð háttsemi umsækjanda hefðu verið mikilvægar og skylt að um þær væri fjallað og tekin afstaða til þeirra ekki síst þar sem um var að ræða kennarastarf við grunnskóla. Taldi hann það leiða af eðli máls að skólanefndir hefðu í umsagnarmálum sem þessum talsvert svigrúm til mats á þeim grundvelli sem tiltækur væri en málefnaleg sjónarmið yrðu þó jafnan að ráða ferðinni.

Þá taldi hann að bréf formanns nefndarinnar til menntamálaráðuneytisins, sem ritað var í framhaldinu og fól í sér skýringu og nánari útfærslu á því hvað raunverulega vakti fyrir skólanefndinni er hún tók framangreinda afstöðu, hafi verið skyldubundin upplýsingagjöf til æðra setts stjórnvalds. Taldi hann að skýringarnar hefðu verið innan eðlilegra marka og nauðsynlegar til þess að fullnægja umræddri skyldu. Þá benti settur umboðsmaður á að formaður skólanefndarinnar hafi með skýrslu sinni fyrir dómi einungis verið að sinna lögboðinni vitnaskyldu sinni og að ummæli hans þar hafi verið í eðlilegum tengslum við það sem á undan var gengið. Þá taldi hann engu breyta þótt ummæli í framangreindu bréfi og vitnaskýrslu hafi átt sér stað eftir að kvartendur létu af störfum í skólanefndinni þar sem umrædd upplýsingaskylda hefði engu að síður hvílt á einstökum skólanefndarmönnum enda um að ræða atvik sem gerðust á starfstíma þeirra.

Í málinu lá fyrir að kvartendur leituðu ekki samráðs við hreppsnefnd X-hrepps um val á lögmanni til að verja hagsmuni sína í umræddu dómsmáli. Benti settur umboðsmaður á að almennt bæri að viðhafa samráð vegna slíkra útgjalda. Með hliðsjón af því að hagsmunir X-hrepps, sem stefnt var á grundvelli húsbóndaábyrgðar, og kvartenda fóru ekki saman í mikilvægum atriðum í dómsmálinu taldi hann að þeim hefði verið heimilt að leita annað varðandi lögfræðiaðstoð.

Að lokum benti settur umboðsmaður á þá almennu reglu að starfsmaður stjórnsýslunnar ber ekki persónulega ábyrgð á þeim útgjöldum sem kann að leiða af starfseminni ef hann hefur farið eftir lögum, reglum eða fyrirskipunum sem við eiga. Útgjöldin bæri hins vegar að leggja á viðkomandi stjórnvald enda verkefnin unnin í hennar þágu. Þessa reglu mætti leiða af eðli málsins og óbeint meðal annars af 66. gr. laga nr. 8/1986 þar sem gert er ráð fyrir því að fulltrúar í nefndum á vegu sveitarfélaga eiga rétt á þóknun fyrir störf sín auk ferða- og dvalarkostnaðar.

Niðurstaða setts umboðsmanns varð því sú að X-hreppi bæri að greiða eðlilegan kostnað sem kvartendur báru vegna málsóknar á hendur þeim sem lauk með dómi Hæstaréttar.

I.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1999 leituðu A, B og C til umboðsmanns Alþingis og fóru þess á leit að hann tæki til skoðunar afgreiðslu félagsmálaráðuneytisins og hreppsnefndar X-hrepps á beiðni þeirra um að sveitarfélagið greiddi kostnað sem þau telja sig hafa haft af málsókn D á hendur þeim eins og nánar verður greint frá hér síðar. Í bréfinu er þess jafnframt óskað að umboðmaður Alþingis geri þær ráðstafanir af þessu tilefni sem hann telur við hæfi.

Með bréfi til Alþingis, dags. 16. desember 1999, óskaði Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, eftir því að skipaður yrði sérstakur umboðsmaður til að fara með mál þetta. Af því tilefni var Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, skipaður til að fara með málið með bréfi dags. 4. janúar 2000. Með bréfi dags. 9. júní 2000 til Alþingis óskaði Þorgeir Ingi Njálsson eftir því að skipaður yrði umboðsmaður á ný vegna vanhæfisástæðna sem vörðuðu hann og höfðu þá skömmu áður komið upp. Með bréfi forseta Alþingis, dags. 30. júní 2000, var ég undirritaður [Stefán Már Stefánsson] skipaður til að fara með málið.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 29. janúar 2001.

II.

Málavextir eru þeir að kvartendur áttu sæti í skólanefnd Y í X-hreppi er D sótti um stöðu kennara við skólann á árinu 1992. Hann stefndi þeim fyrir dóm vegna afstöðu þeirra til ráðningar í þá stöðu og tiltekinna ummæla í tengslum við hana. Kvartendur urðu fyrir útgjöldum vegna lögmannskostnaðar í tengslum við málareksturinn sem X-hreppur hefur neitað að greiða. Telja kvartendur að það leiði af eðli starfa þeirra fyrir sveitarfélagið að þau eigi ekki að þurfa að bera kostnað vegna þessara málaferla. Þau telja að þau hafi einungis verið að fullnægja skyldum sem á þeim hvíldu sem nefndarmenn í skólanefnd sveitarfélagsins. Að mati kvartenda mæla sanngirnisrök ennfremur með þeirri niðurstöðu að X-hreppi beri að greiða þennan kostnað.

Sem fyrr segir sótti D, sem er kennari að mennt, um kennarastöðu á árinu 1992 við Y í X-hreppi. Kvartendur A, B og C sátu þá í skólanefnd sveitarfélagsins. Hún mælti einróma með því að staðan yrði veitt öðrum umsækjanda sem var kona og hafði ekki réttindi til kennslu við grunnskóla. Vegna þessarar afstöðu nefndarinnar og þar sem hvorki skólastjóri né fræðslustjóri mæltu með að D fengi stöðuna var leitað til undanþágunefndar grunnskólakennara um heimild til að ráða fyrrgreindan umsækjanda, sbr. 3. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Menntamálaráðherra tók síðan ákvörðun um að heimila ráðningu umsækjandans.

Í kjölfar þess að fyrrnefndur umsækjandi var ráðin í kennarastöðuna lagði D erindi fyrir kærunefnd jafnréttismála, þar sem hann taldi að með ráðningunni hefði verið brotinn á sér réttur samkvæmt ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærunefndin féllst á sjónarmið D í áliti frá 28. júní 1993 og beindi því til skólanefndar X-hrepps og skólastjóra Y að finna lausn á málinu sem D gæti unað við.

D höfðaði síðan mál gegn íslenska ríkinu 3. október 1995 þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði að ráðning áðurnefnds umsækjanda í kennarastöðuna hefði verið ólögmæt svo og að sér yrðu dæmdar bætur auk vaxta og málskostnaðar. Í dómi Hæstaréttar í því máli, sbr. Hrd. 1997 bls. 1544, var talið nægilega fram komið að kynferði D hefði ekki ráðið því að umsókn hans um kennarastöðuna var hafnað. Hins vegar var vísað til þess að fram hefði komið að kvartandinn A hefði tjáð H, starfsmanni menntamálaráðuneytisins, þegar fjallað var þar um undanþágu til að mega ráða umsækjanda án kennsluréttinda í kennarastöðuna, að grunur hefði beinst að D um siðferðilega ámælisverða háttsemi, sem væri til opinberrar rannsóknar. Starfsmaður ráðuneytisins hefði ekki kannað þetta frekar og ráðherra tekið afstöðu til málsins á grundvelli þessarar frásagnar A. Þótti ekki annað verða ráðið en að sögusagnir um þetta atvik hefðu orðið ákvörðunarástæða fyrir að heimilað var að ráða umsækjanda án kennsluréttinda í starfið. Talið var að starfsmenn menntamálaráðuneytisins hefðu vanrækt að rannsaka frekar hvernig málatvikum hafi í raun verið háttað og að gefa D kost á að tjá sig um þær sakir sem á hann voru bornar. Með þessu hefði verið brotinn réttur á honum en aðrar ávirðingar, sem bornar hefðu verið á hann í tengslum við umsókn um kennarastöðuna, þóttu ekki vera á rökum reistar að mati réttarins. Var íslenska ríkinu þannig gert að greiða D bætur en hann þótti hins vegar ekki hafa lengur lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um ólögmæti ráðningar í stöðuna.

D höfðaði nú mál á nýjan leik fyrir héraðsdómi Suðurlands og krafðist ómerkingar tiltekinna ummæla sem hann taldi kvartendur bera ábyrgð á auk þess sem hann gerði bótakröfur. Niðurstaða dómsins varð sú að dæma dauð og ómerk ákveðin ummæli A og að dæma A og X-hrepp in solidum til greiðslu bóta. B og C voru hins vegar sýknaðar. X-hreppur og A áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar og kröfðust sýknu af kröfum gagnáfrýjanda D. Gagnáfrýjandi, D, áfrýjaði héraðsdóminum og krafðist þess aðallega „að dómi héraðsdóms verði hrundið og viðurkenndar verði kröfur hans“ en til vara að héraðsdómur yrði staðfestur. Gagnstefndu C og B kröfðust sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, D, að öðru leyti en því að staðfest yrðu ákvæði héraðsdóms um að vísa frá dómi hluta af kröfum gagnáfrýjanda D.

Þau ummæli sem D krafðist ómerkingar á voru höfð eftir A og féllu þau bæði við skýrslugjöf fyrir dómi í fyrrgreindu máli D á hendur íslenska ríkinu og í bréfi A fyrir hönd skólanefndar dags. 14. mars 1995 til menntamálaráðuneytisins en þar er m.a. að finna svohljóðandi ummæli:

„[D] hefur verið búsettur hér í sveitinni, og okkur skólanefndarmönnum var því kunnugt um hagi hans. Skólanefndinni var þannig kunnugt um, að til rannsóknar hafði verið meint refsiverð háttsemi [D]. Þá hafði [D] átt í harðvítugum deildum um forræði yfir börnum sínum. Skólanefndinni var ljóst, að sveitungar og foreldrar nemenda í skólanum höfðu vitneskju um þessi mál, og það var ljóst af samtölum við foreldra í sveitinni, að [D] naut ekki trausts þeirra við skóla sveitarinnar.“

Í héraðsdómsstefnunni gerði D í fyrsta lagi þá kröfu að ummæli A, sem hafi valdið því að gagnáfrýjandi ,,fékk ekki starf við [Y] [...], verði dæmd dauð og ómerk. Samkvæmt framburði H „[...] var talað um grun um refsivert athæfi og ung stúlka eða unglingur nefnd í því sambandi“ segir í stefnunni. Í öðru lagi að ómerkt yrðu ummæli A við skýrslugjöf í fyrrgreindu máli D gegn íslenska ríkinu, en D kvað þau hafa verið svofelld: ,,Lögmaður stefnanda spyr [A]: Þú sagðist hafa heyrt að hann hafi gerst sekur um kynferðislegt brot eða hvað? Svar [A]: Ég sagðist hafa heyrt það já.“ Í þriðja lagi að ómerkt yrðu svofelld ummæli A við sama tækifæri: ,,Ríkislögmaður spyr [A]: Getur vitnið þá skýrt fyrir dóminum hvað það var sem vitnið telur að hafi ráðið afstöðu skólanefndar? Svar [A]: Nú, það réði afstöðu að hann var bendlaður við mál, kynferðismisnotkun á ungri stelpu.“ Í fjórða lagi að ómerkt yrðu ummæli sem fram komu í minnisblaði dags. 7.12.1992 „til kærunefndar jafnréttisráðs frá starfsmanni hennar um samtal við [H] starfsmanni í menntamálaráðuneytinu. Þau orð í minnisblaðinu sem þessi kröfuliður varðar voru svohljóðandi: [H] upplýsti ennfremur að ásakanir á hendur [D] hefðu gengið fyrir alls kyns afglöp og ætti í útistöðum við flesta sveitunga sína.“

Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti þann 12. maí 1999. Kvartendur voru alfarið sýknuð af kröfum D um ómerkingu fyrrgreindra ummæla. Varðandi fyrsta kröfuliðinn var ekki talið sannað að aðaláfrýjandi A hefði greint vitninu H frá öðru en því sem hafi virst á vitorði margra og var í samræmi við staðreyndir eins og atvikum var þá háttað. Taldi Hæstiréttur að þótt síðar hafi annað komið í ljós og gerðir annarra sem virtist hafa ráðist af þessum ummælum hafi af öðrum orsökum talist brjóta gegn rétti D nægði það ekki til ómerkingar ummælanna. Varðandi annan kröfuliðinn taldi Hæstiréttur að hann beindist ekki að ummælum sem aðaláfrýjandi A hafi látið falla við aðra um sök D um kynferðisbrot heldur að tilvitnuðum orðum aðaláfrýjanda A þar sem hann staðfesti fyrir dómi að hann hafi heyrt aðra ræða um slíka sök D. Varðandi þriðja kröfuliðinn taldi Hæstiréttur að aðaláfrýjandi A hefði ekki greint frá öðru en því sem réði afstöðu hans til umsóknar gagnáfrýjanda um kennarastöðu við Y. Var ekki talið efni til að ómerkja frásögnina sem slíka. Loks taldi Hæstiréttur varðandi fjórða kröfuliðinn að af minnisblaðinu yrði ekki ráðið að ummælin sem þar væru tilfærð, væru höfð eftir aðaláfrýjanda A. Af þeirri ástæðu þótti ekki ástæða til að ómerkja ummælin. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti var hins vegar látinn niður falla. Kvartandanum A hafði verið veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti en hins vegar varð kostnaður vegna reksturs málsins fyrir í héraði og fyrir Hæstarétti meiri en tildæmdur gjafsóknarkostnaður að því er fram kemur í málinu.

III.

Í bréfi kvartenda, dags. 5. nóvember 1999, til umboðsmanns Alþingis segir m.a. svo:

„Með bréfi, dags. 14. maí 1998, fórum við þess á leit við hreppsnefnd X-hrepps að hún samþykkti að greiða lögmannskostnað okkar vegna málsins. Með bréfi, dags. 7. júlí 1998, tilkynnti oddviti að erindi okkar hefði verið hafnað. Við óskuðum síðan eftir því við Félagsmálaráðuneytið að það myndi endurskoða ákvörðun hreppsnefndar. Ráðuneytið hafnaði ósk okkar með bréfi, dags. 2. febrúar 1999, og vísaði til þess að ekki væru til staðar heimildir að lögum til að verða við beiðni okkar.

Við erum hins vegar ekki sammála þessari afstöðu ráðuneytisins og teljum það óeðlilegt og ósanngjarnt að þurfa að bera kostnað vegna þessa máls. Ástæða þess er sú að til okkar var leitað sem fyrrverandi starfsmanna skólanefndar en við vorum ekki að koma fram í eigin máli. Hér má t.d. vekja athygli á að bréf það, sem síðar varð grundvöllur umræddra málaferla [D], var ritað að beiðni Menntamálaráðherra. Eins og fram kemur í greindum hæstaréttardómi þá veittum við einungis upplýsingar í samræmi við okkar bestu vitund og skýrðum frá því sem lá til grundvallar ráðningu [I]. Við gátum ekki gert að því enda þótt [D] hefði verið grunaður um meinta refsiverða háttsemi. Við upplýstum einfaldlega um það sem réð afstöðu skólanefndarinnar á sínum tíma.

Að mati okkar er það mjög ósanngjörn niðurstaða að skylda okkur til að greiða kostnað vegna þessara málaferla. Við tókum að okkur setu í þessari nefnd og vorum skipuð til þess af sveitarstjórn og teljum að við höfum gegnt okkar störfum af alúð og samviskusemi og uppfyllt þær skyldur, sem ráðuneytið vísar til í bréfi sínu. Ef það á að vera niðurstaðan að þeir, sem taka þátt í nefndarstörfum á vegum sveitarfélags, eigi að bera kostnað af málaferlum vegna starfa sinna þá teljum við einsýnt að ekki fáist menn til slíkra starfa. Vissulega kunna tilvik að vera með þeim hætti að sveitarstjórnarmaður hafi brotið af sér í starfi eða atvik séu með þeim hætti að hann kunni að bera einhverja persónulega ábyrgð á starfa sínum en svo er ekki í þessu tilviki. Við skýrðum einungis frá því, sem fyrrverandi starfsmenn skólanefndar, hvað hefði ráðið afstöðu nefndarinnar til ráðningar [I]. Hæstiréttur hefur líka staðfest að við skýrðum frá atvikum í samræmi við okkar bestu vitund og samvisku og að svör okkar hafi grundvallast á þeim gögnum sem þá lágu fyrir.

Í erindi Félagsmálaráðuneytisins er vísað til þess að lög veiti enga vísbendingu um hvernig fara skuli með mál eins og þetta. Við teljum hins vegar að hér þurfi í sjálfu sér ekki skýra lagaheimild til. Það leiðir einfaldlega af eðli starfa okkar fyrir sveitarfélagið að við eigum ekki að þurfa að bera kostnað vegna þessara málaferla. Þá er það staðreynd að við vorum að efna þær skyldur sem á okkur hvíldu, sem nefndarmenn í skólanefnd sveitarfélagsins. Það var ekki unnt fyrir okkur að skorast undan að veita þessar upplýsingar, enda hefði það verið ámælisvert. Þá mæla sanngirnisrök einnig með sjónarmiðum okkar.

Ennfremur viljum við benda á til samanburðar að ef ráðherra stæði frammi fyrir málshöfðun vegna starfa sinna þá myndi hann væntanlega ekki þurfa að greiða kostnað, sem hlytist af því að verjast óréttmætum ásökunum. Ekki er okkur kunnugt um að lög mæli sérstaklega fyrir að íslenska ríkið greiði slíkan kostnað fyrir ráðherra heldur felst það væntanlega í eðli starfans og ábyrgðar ríkisins á honum, sem starfsmanni sínum.“

IV.

Með bréfum, dags. 14. mars 2000, öðru til félagsmálaráðherra og hinu til hreppsnefndar X-hrepps fór umboðsmaður Alþingis fram á að þessir aðilar skýrðu viðhorf sitt til kvörtunarbréfs þeirra A, B og C.

Svarbréf félagsmálaráðuneytisins er dags. 15. júní 2000. Þar segir m.a. á þessa leið:

„[...] Ráðuneytið telur að ekkert nýtt hafi komið fram sem breytt geti fyrri afstöðu sem fram kemur í áliti ráðuneytisins frá 2. febrúar 1999 sem er hluti af gögnum málsins. Umrætt dómsmál snerist aðallega um persónulega háttsemi þessara aðila en ekki nefndarstörf sem slík þó þessir þættir tengist óneitanlega. Ráðuneytið telur að þau tengsl geti hins vegar ein og sér ekki leitt til þess að sveitarfélagið beri fulla ábyrgð á störfum nefndarmanna. Að einhverju marki hljóta nefndarmenn að bera ábyrgð á eigin framkomu og verður að meta hverju sinni eftir eðli viðkomandi máls hvort ábyrgðin liggur hjá viðkomandi einstaklingi eða sveitarfélaginu. Í þessu tilviki var um meintar ærumeiðingar að ræða sem ráðuneytið telur eins og áður segir að tengist ekki nefndarstörfum sem slíkum með þeim hætti að sveitarfélagið beri ábyrgð á málskostnaði. Einnig er vert að leggja áherslu á að málskostnaður var felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti en ekki lagður alfarið á herðar stefnanda.“

Svarbréf lögmanns hreppsnefndar X-hrepps er dags. 27. apríl 2000. Þar segir m.a. svo:

„Vegna dómsmáls [D] rituðu þau [A], [B] og [C] bréf, að ósk menntamálaráðherra eða ríkislögmanns, sem fyrrverandi skólanefndarmenn og greindu þar frá afstöðu fyrrverandi skólanefndar, auk þess sem að minnsta kosti [A] mun hafa komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins 19. apríl 1996 og gefið skýrslu. Því dómsmáli lauk með dómi Hæstaréttar uppkveðnum fimmtudaginn 15. maí 1997, þar sem [D] voru dæmdar bætur [...].

Þau ummæli er [D] vildi láta ómerkja voru ummæli í ofangreindu bréfi auk ummæla í vitnisburði [A] fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

[A], [B] og [C] tóku sameiginlega til varna og réðu sér lögmann, [Z] hæstaréttarlögmann. Þessa ákvörðun tóku þau án nokkurs samráðs við hreppsnefnd [X-hrepps] eða aðra, þótt [A] sæti í hreppsnefnd [X-hrepps] og hefði því verið í lófa lagið að hafa slíkt samráð. Sveitarsjóður [X-hrepps] tók einnig til varna [...].

Með bréfi dags. 14. maí 1998 fór [A], þess á leit við hreppsnefnd [X-hrepps], að hreppurinn greiddi allan lögmannskostnað hans, [B] og [C] af málaferlunum við [D]. Þessu erindi var hafnað á fundi hreppsnefndar 26. júní 1998, enda taldi hreppsnefnd sér hvorki skylt né heimilt að greiða lögmannskostnað einstakra íbúa í sveitarfélaginu, úr hreppssjóði.

Þessari synjun hreppsnefndar [X-hrepps] var með bréfi dags. 1. október 1998 skotið til félagsmálaráðuneytisins. Félagsmálaráðuneytið staðfesti synjun hreppsnefndar með vísan til þess að hvorki væri í sveitarstjórnarlögum né öðrum lögum að finna ákvæði um ábyrgð sveitarsjóðs á lögmannskostnaði þeirra manna, er sætu í nefndum á vegum sveitarfélagsins. Það yrði því ekki séð að nein lög legðu fjárhagslega skyldu á sveitarsjóð [X-hrepps] í þessu máli [...].

Hreppsnefnd [X-hrepps] telur sér algerlega óskylt og óheimilt að greiða þann kostnað sem um er krafið, þar sem engin lagaheimild sé til slíks, hvorki í sveitarstjórnarlögum né öðrum lögum.

Hreppsnefnd [X-hrepps] tók aldrei að sér að annast málsvörn þeirra [...] hvorki fyrir héraðsdómi Suðurlands né Hæstarétti, né heldur var eftir því leitað. Þá höfðu þau aldrei

samráð við hreppsnefnd um val á lögmanni, eða hvort unnt væri að gæta hagsmuna þeirra í málinu sameiginlega með hagsmunum hreppsins.

Þá eru þau [A], [B], [C] ekki í starfi fyrir [X-hrepp] né í skólanefnd [X-hrepps] hvorki á þeim tíma er hið meinta ærumeiðandi bréf er ritað né þegar hin meintu ærumeiðandi ummæli eru látin falla í vitnaskýrslu fyrir dómi.

Loks eru ærumeiðingar ekki eðlileg afleiðing þess að sitja í skólanefnd fyrir [X-hrepp] [...].“

V.

Þann 8. ágúst 2000 ritaði ég kvartendum bréf þar sem ég gaf þeim kost á að gera athugasemdir við fyrrgreind bréf félagsmálaráðuneytisins og hreppsnefndar X-hrepps. Þá var þess óskað sérstaklega að afstaða yrði tekin til þeirrar fullyrðingar sem fram kom í bréfi umboðsmanns hreppsnefndarinnar þess efnis að aldrei hafi verið haft samráð við hreppsnefndina um val á lögmanni eða hvort unnt væri að gæta hagsmuna kvartenda í málinu sameiginlega með hagsmunum hreppsins. Jafnframt var óskað skýringa hefði slíkt samráð ekki verið haft. Svar barst frá kvartendum með bréfi dags. 27. sept. 2000. Þar segir m.a. svo:

„Rétt er að taka fram að hagsmunir okkar og hreppsnefndarinnar fóru ekki saman í málinu. Af hálfu hreppsnefndar var því haldið fram að við bærum ábyrgð á störfum okkar og vísaði hún allri ábyrgð á okkur, enda þótt við hefðum komið fram í málinu og svarað fyrirspurn Menntamálaráðherra sem fyrrverandi starfsmenn skólanefndar. Það er því nokkuð sérstakt að því sé nú haldið fram af hálfu umboðsmanns hreppsnefndar að við hefðum átt að hafa samráð við hreppsnefndina um val á lögmanni eða láta sama lögmann gæti hagsmuna okkar líka. Í ljósi afstöðu hreppsnefndar til málaferla [D] var ekki unnt að láta t.d. sama lögmann gæta hagsmuna beggja, þ.e. okkar og hreppsnefndar, eða hafa samráð um val á lögmanni. Með því að bera saman greinargerð hreppsnefndar, sem lögð var fram í héraðsdómi Suðurlands á sínum tíma, og greinargerð okkar er ljóst að hagsmunir fóru ekki saman vegna afstöðu hreppsnefndar.

Ennfremur viljum við gera athugasemdir við framsetningu bréfs umboðsmanns hreppsnefndar. Svo virðist sem hann telji að við höfum sett fram ærumeiðandi ummæli, sem við eigum að bera ábyrgð á. Hæstiréttur hefur hins vegar staðfest að við skýrðum frá atvikum í samræmi við okkar bestu vitund og samvisku og að svör okkar hafi grundvallast á þeim gögnum sem þá lágu fyrir. Við sinntum því okkar störfum samkvæmt þeim skyldum sem lög lögðu okkur á herðar. Við viljum líka benda á að það getur ekki verið eðlileg afleiðing þess að sitja í skólanefnd fyrir [X-hrepp] að þurfa sjálf að leggja út í kostnað vegna þátttöku okkar í nefndarstarfi á vegum sveitarfélagsins.

Þá viljum við líka gera athugasemdir við umsögn félagsmálaráðuneytisins frá 15. júní sl. Ráðuneytið metur það svo að málið hafi snúist um meintar ærumeiðingar, sem ekki hafi tengst nefndarstörfum okkar þannig að sveitarfélagið ætti að bera ábyrgð á kostnaði, sem fallið hefur á okkur. Vissulega er það svo að upp kunna að koma tilvik þar sem sveitarstjórnarmaður hefur brotið af sér í starfi eða atvik séu með þeim hætti að hann kunni að bera einhverju persónulega ábyrgð á starfa sínum en svo er ekki í þessu tilviki. Við skýrðum einungis frá því, sem fyrrverandi starfsmenn skólanefndar hvað hefði ráðið afstöðu nefndarinnar til ráðningar [I]. Við vitum ekki annað en að ákvörðun skólanefndar og sú vinna, sem við inntum af hendi sem skólanefndarmenn, hafi verið í samræmi við vilja hreppsnefndar, a.m.k. hefur hreppsnefnd ekki gert neinar athugasemdir við vinnubrögð okkar.“

VI.

Í lögum nr. 8/1986, sveitarstjórnarlög, (sbr. nú l. nr. 45/1998), var gert ráð fyrir því í 3. mgr. 57. gr. laganna að sveitarstjórnir kjósi nefndir til að fara með einstaka málaflokka á kjörtímabilinu. Í 4. mgr. 40. gr. laganna, sem einnig gildir um nefndarmenn eftir því sem við á, sbr. 5. mgr. 63. gr., segir að sveitarstjórnarmaður sé skyldur til að inna af hendi störf sem sveitarstjórn felur honum og varða verkefni sveitarstjórnarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla, sem giltu á þeim tíma sem mál þetta varðar, skal skólanefnd vera í hverju skólahverfi sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lögin og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni. Með lögunum er skólanefndum falin margháttuð verkefni og samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laganna er skólanefnd samráðsaðili um ráðningar starfsmanna hlutaðeigandi skóla. Þá er og ljóst að samkvæmt 34. gr. laganna var gert ráð fyrir því að skólastjóri réði kennara og aðra starfsmenn skóla sem teljast ríkisstarfsmenn í samráði við skólanefnd og innan heimilda fjárlaga. Rétt er einnig að taka fram að á þessum tíma gilti erindisbréf fyrir skólanefndir grunnskóla nr. 185/1976. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. erindisbréfsins skal skólanefnd veita viðtöku umsóknum um skólastjóra-, yfirkennara- og kennarastöður. Að loknum umsóknafresti skal skólanefnd halda fund og senda síðan fræðslustjóra allar umsóknir ásamt tillögum og umsögnum sínum um val kennara. Þá er þess ennfremur að geta að í bréfi sem lögmaður X-hrepps hefur ritað til mín, dags. 17. desember 2000, kemur fram að hreppurinn telur að það hafi verið hlutverk skólanefndar hvað varðaði umsagnir um umsækjendur að kennarastöðum að gæta þar fyrst og fremst hagsmuna nemenda með því að reyna að tryggja að sem hæfastir kennarar eða leiðbeinendur fengjust að skólanum.

Samkvæmt framansögðu er það skoðun mín að skólanefndin hafi verið að gegna skyldustörfum sínum innan þess verkefnaramma sem henni var settur er hún gaf umsögn um einstaka umsækjendur um kennarastöðu við Y umrætt sinn.

VII

Samkvæmt gögnum málsins má ganga út frá því að það hafi fyrst og fremst ráðið úrslitum um umsögn skólanefndar um kennarastöðuna við Y í X-hreppi að nefndin taldi sig hafa vitnesku um að til rannsóknar væri meint refsiverð háttsemi eins umsækjandans auk þess sem hann var ekki talinn heppilegur sem kennari við skólann af fleiri ástæðum. Þannig kemur fram í umræddum dómum Hæstaréttar að sögusagnir um siðferðilega ámælisverða háttsemi hans hafi orðið ákvörðunarástæða fyrir að heimilað var að ráða umsækjanda án kennsluréttinda í starfið. Rannsókn leiddi þó síðar í ljós að þær ásakanir reyndust haldlausar.

Upplýsingar þessar voru mikilvægar vegna starfa skólanefndarinnar á þeim tíma sem hér skiptir máli og eðlilegt og skylt að um þær væri fjallað og tekin afstaða til þeirra. Það á ekki hvað síst við þegar um er að ræða kennarastöðu við grunnskóla eins og var í máli þessu. Ég tel það leiða af eðli málsins að skólanefndir hafi í umsagnarmálum sem þessum talsvert svigrúm til mats á þeim grundvelli sem tiltækur er en málefnaleg sjónarmið verða þó jafnan að ráða ferðinni. Sú afstaða sem skólanefndin tók í raun tel ég hafa verið þess eðlis að hún féll undir verksvið hennar.

VIII.

Ég tel að skólanefndin hafi verið að sinna lögboðnu umsagnarhlutverki sínu er hún fjallaði um hæfi umsækjenda eins og fram er komið. Í framhaldinu ritaði formaður hennar bréf til menntamálaráðuneytisins. Tilgangurinn var að skýra afstöðu nefndarinnar vegna þeirrar undanþágu sem nauðsynlegt reyndist að veita vegna þess umsækjanda sem skólanefndin mælti með. Þar var um að ræða skyldubundna upplýsingagjöf til æðra setts stjórnvalds sem aðeins fól í sér skýringu og nánari útfærslu á því hvað raunverulega vakti fyrir skólanefndinni er hún tók afstöðu til hæfni umsækjendanna umrætt sinn. Ég tel ekki að skýringar þessar hafi að neinu leyti farið fram yfir það sem nauðsynlegt var og eðlilegt til þess að fullnægja fyrrgreindri skyldu.

Síðar var formaður skólanefndarinnar kallaður fyrir dóm en með skýrslu sinni þar var hann aðeins að sinna lögboðinni vitnaskyldu sinni. Ég tel einnig að ummæli hans þar hafi verið í eðlilegum tengslum við það sem á undan var gengið.

Loks tel ég engu breyta í þessu sambandi þótt þau ummæli sem fólust í bréfinu og vitnaskýrslunni hafi átt sér stað eftir að kvartendur létu af störfum í skólanefndinni. Ástæðan er sú að umrædd upplýsingaskylda hvíldi engu að síður á einstökum skólanefndarmönnum enda var um að ræða atvik sem gerðust á starfstíma þeirra.

Ég tel því að skólanefndin hafi verið að fullnægja lögboðnum skyldum sínum umrætt sinn er formaður hennar gaf fyrrgreindar upplýsingar og að málsatvik og gögn máls þessa gefi ekki með neinum hætti til kynna að þar hafi verið farið út fyrir lögboðin mörk.

IX.

Það liggur fyrir í málinu að kvartendur leituðu ekki samráðs við hreppsnefnd X-hrepps um val á lögmanni til að verja hagsmuni sína fyrir héraði og Hæstarétti í fyrrgreindu dómsmáli. Ég tel almennt að slíkt samráð beri að viðhafa þegar til slíkra útgjalda getur komið vegna starfa starfsmanns í þágu stjórnsýslunnar.

Eins og fram er komið var mál þetta þó sérstaks eðlis. Rót þess var meiðyrðamál á hendur kvartendum þar sem X-hreppi var einnig stefnt á grundvelli húsbóndaábyrgðar. Ég tel rétt að líta til þess að gögn máls þessa sýna að hagsmunir X-hrepps og kvartenda fóru ekki saman í mikilvægum atriðum í fyrrgreindu héraðsdóms- og Hæstaréttarmáli. Það er m.a. ljóst af þeirri afstöðu til erindis kvartenda sem fram kemur í bréfi X-hrepps til umboðsmanns Alþingis, dags. 27. apríl 2000, en þar segir m.a. að hreppsnefndin hafi „hvorki talið skylt né heimilt að greiða lögmannskostnað einstakra íbúa í sveitarfélaginu úr hreppssjóði.“ Í sama bréfi er einnig talið að „ærumeiðingar [séu] ekki eðlileg afleiðing þess að sitja í skólanefnd fyrir [X-hrepp].“

Af þessum sökum og þar sem ekki er neitt komið fram um að val lögmanns eða flutningur málanna að öðru leyti hafi verið óeðlilegur tel ég að þessi ástæða geti ekki verið rétti kvartenda til fyrirstöðu. Því tel ég að kvartendum hafi eins og á stóð verið rétt að leita á önnur mið varðandi lögfræðiaðstoð.

X.

Það er almenn regla að starfsmaður stjórnsýslunnar ber ekki persónulega ábyrgð á þeim útgjöldum sem af starfseminni kanna að leiða ef hann hefur í henni aðeins farið eftir þeim lögum, reglum eða fyrirskipunum sem við eiga. Þau útgjöld ber hins vegar að leggja á viðkomandi stjórnvald enda eru verkefnin unnin í hennar þágu. Þessa reglu má leiða af eðli málsins og hún kemur óbeint fram í ýmsum lagaákvæðum þar á meðal í 66. gr. þágildandi laga nr. 8/1986 þar sem gert er ráð fyrir því að fulltrúar í nefndum á vegum sveitarfélaga eigi rétt á þóknun fyrir störf sín auk ferða- og dvalarkostnaðar (sbr. nú 50. gr. l. nr. 45/1998).

XI.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið tel ég að X-hreppi beri að greiða eðlilegan kostnað sem kvartendur báru vegna málsóknar á hendur þeim sem lauk með dómi Hæstaréttar 12. maí 1999 (mál nr. 393/1998).

XII.

Samkvæmt upplýsingum frá oddvita X-hrepps var samþykkt að greiða reikning A, B og C með vísan til góðrar fjárhagsstöðu sveitarsjóðs.