Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11187/2021)

Kvartað var yfir málsmeðferð Vinnumálastofnunar og að hún hefði ekki veitt aðgang að gögnum máls.

Af gögnum málsins taldi umboðsmaður mega ráða að viðkomandi hefði ekki komið sjónarmiðum sínum nægilega vel á framfæri. Var honum bent á að gera það svo stofnunin fengi tækifæri til að bregðast við þeim áður en málið kæmi til frekari athugunar hjá umboðsmanni. Þá veitti umboðsmaður leiðbeiningar um hvert kæra mætti ákvörðun um synjun eða takmarkaðan aðgang að gögnum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 22. júní sl., sem beinist að Vinnumálastofnun (VMST)og lýtur annars vegar að því að yður hafi ekki verið veittur aðgangur að gögnum máls yðar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og hins vegar að málsmeðferð stofnunarinnar.

   

II

1

Af kvörtun yðar, samtali yðar við starfsmann skrifstofu umboðsmanns og gögnum málsins má ráða að þér hafið óskað eftir fyrirliggjandi gögnum í máli yðar eftir að yður barst bréf frá VMST, dags. 11. maí sl., þar sem yður var tilkynnt um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að þér hefðuð hafnað atvinnutilboði frá X ehf. í apríl sl. og óskað var eftir skriflegum skýringum yðar á ástæðum þess. Fyrir liggur að þér ítrekuðuð beiðnina 26., 28. og 31. maí sl. sem og 1., 8., 14. og 16. júní sl. Stofnunin svaraði yður 1. júní sl. og benti á að feril málsins mætti sjá á „mínum síðum“, þ. á m. hvenær ferilskrá yðar var send X ehf. og að þér hefðuð hafnað starfi hjá fyrirtækinu 27. apríl sl.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þér hafið komið því sérstaklega á framfæri við VMST að þér telduð yður ekki geta nálgast gögn málsins á „mínum síðum“ og að stofnunin hefði þannig ekki afgreitt beiðni yðar með réttum hætti 1. júní sl. heldur að þér hafið einungis ítrekað upphaflega beiðni yðar. Ég tel því rétt að þér berið athugasemdir yðar að þessu leyti undir VMST þannig að stofnunin fái tækifæri til að bregðast við þeim áður en málið kemur til frekari athugunar hjá umboðsmanni. Ef yður verður synjað um aðgang að gögnunum eða hann takmarkaður er yður fært að kæra slíka ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan 14 daga frá því að yður er tilkynnt um hana, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006.

   

2

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um „ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna“. Þá fer félags- og barnamálaráðherra með yfirstjórn atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögunum, sbr. 4. gr. laganna.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar. Það á einnig við í tilvikum þar sem afstaða til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru. Ég bendi yður því á að þér getið, eftir atvikum að fengnum gögnum málsins frá VMST sem og rökstuðningi fyrir niðurfellingu ákvörðunar stofnunarinnar, freistað þess að bera athugasemdir yðar við starfshætti VMST í máli yðar undir félags- og barnamálaráðherra. Ef ráðuneytið telur, þrátt fyrir 1. gr. laga nr. 85/2015, að málið varði „ágreiningsefni sem kann að rísa á grundvelli laga nr. 54/2006“ ber því að framsenda erindi yðar til úrskurðarnefndar velferðarmála svo fljótt sem unnt er, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum tek ég fram að ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni eftir að hafa nýtt yður framangreindar leiðir innan stjórnsýslunnar, bæði að því er varðar þann hluta máls yðar er lýtur að aðgangi að gögnum málsins sem og starfsháttum VMST, er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá er um ræðir liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

    

III

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með athugun minni á málinu.