Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11198/2021)

Kvartað var yfir að Ísafjarðarbær hefði ekki afhent gögn sem óskað var eftir.

Ekki lá fyrir fyllilega skýr afstaða bæjarins til beiðninnar. Var viðkomandi bent á að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál áður en umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 28. júní sl., yfir því að Ísafjarðabær hafi ekki afhent yður gögn sem þér hafið óskað eftir.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar senduð þér Ísafjarðarbæ beiðni um afhendingu með bréfi, dags. 23. júní 2019, sem ítrekuð var með bréfi, dags. 9. júlí s.á. Hinn 14. ágúst s.á. var ákveðið á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að svara erindinu og átti hann í kjölfar þess í samskiptum við yður, annars vegar með tölvupósti 4. nóvember 2019, þar sem þér voruð upplýstir um að svör við erindi yðar myndi berast fljótlega, og hins vegar með tölvupósti 29. maí 2020, þar sem fram kom að verið væri að taka „saman þau gögn sem teljast opinber og-eða gerð hafa verið opinber frá því þér voru síðast afhent gögn“.

Af framangreindu má ráða að að afstaða Ísafjarðabæjar til beiðni yðar liggi ekki fyrir með fyllilega skýrum hætti, þ.e. að hvaða marki sveitarfélagið telur sér skylt að afhenda yður þau gögn sem þér hafið óskað eftir. Af þeim sökum er rétt að taka fram að á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 starfar úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum, sbr. V. kafli laganna. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laganna er beiðanda um upplýsingar heimilt að vísa máli til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar og úrskurðar nefndin þá um rétt beiðanda til aðgangs. 

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Af þeim sökum getið þér freistað þess að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með erindi yðar.

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég læt því máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér kjósið að leita til úrskurðarnefndarinnar getið þér að sjálfsögðu leitað til mín á ný að fenginni endanlegri niðurstöðu hennar ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.