Börn. Lögheimili. Foreldrar.

(Mál nr. 11204/2021)

Kvartað var yfir samningsgerð hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu um tímabundið lögheimili barns erlendis.

Þar sem kvörtunin barst ekki innan þess tímafrests sem áskilinn er í lögum um umboðsmann Alþingis voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um hana. Aftur á móti benti hann á að vegna þeirra yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sem dómsmálaráðherra færi með gagnvart sýslumönnum kynni að vera hægt að leita til ráðuneytis hans með athugasemdirnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til erindis yðar til mín, dags. 29. júní sl., sem þér beinið að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og lýtur að því hvernig staðið var að samningsgerð milli yðar og barnsföður yðar um tímabundið lögheimili dóttur yðar hjá föður í [...]. Var sá samningur undirritaður 22. maí 2018 og var hann í gildi til 2. janúar sl. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við eftirlit sýslumanns með samnings­gerðinni, skort á leiðbeiningum af hans hálfu fyrir undirritun samningsins um réttaráhrif slíkra samninga þegar annað foreldrið er búsett erlendis og hvernig standa eigi að slíkum flutningum, auk þess  sem þér teljið skort á úrræðum hjá sýslumanni til að fá dóttur yðar afhenta yður. Í því sambandi takið þér fram að með úrskurði Landsréttar frá 29. apríl sl. í máli nr. [...] hafi Landsréttur úrskurðað um heimild barnsföður yðar til að fá dóttur yðar afhenta sér með beinni aðfarargerð á grundvelli 11. gr. laga nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Í forsendum úrskurðarins kom jafnframt fram að samkvæmt lögum nr. 160/1995 væri það hlutverk [...] yfirvalda að taka afstöðu til ágreinings um forsjá og lögheimili dóttur yðar. Teljið þér brýna þörf á að skýra verkferla innan embættis sýslumanns svo að sambærileg staða komi ekki upp.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns, en samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skal bera fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú að kvörtun yðar lýtur að eftirliti sýslumanns með samningsgerð og leiðbeiningar­skyldu hans í tengslum við tímabundinn samning um lögheimili dóttur yðar sem undirritaður var 22. maí 2018. Ég tel því ljóst að kvörtunin barst ekki innan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Ég tek þó fram, í ljósi athugasemda yðar um þörf á umbótum innan embættis sýslumanns í málum sem þessum, að samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, heyra embætti sýslumanna undir dómsmálaráðherra. Vegna þeirra yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sem dómsmálaráðherra fer með gagnvart sýslumönnum kann yður að vera fær sú leið að leita til ráðuneytis hans með athugasemdir sama efnis og kvörtun yðar hljóðar á um. Ég tek fram að með með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá ráðuneytinu.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.