Almannavarnir. Heilbrigðisþjónusta. COVID 19.

(Mál nr. 11208/2021)

Kvartað var yfir ummælum framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er lutu að bóluefnum vegna COVID 19

Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki varð séð að svo væri í þessu tilfelli og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 3. júlí sl. vegna ummæla framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í fjölmiðlum sem birtust m.a. á vefsíðunni www.mbl.is 1. júlí sl. og lutu að bóluefnum sem notuð hafa verið við bólusetningu vegna COVID-19.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í síðarnefnda ákvæðinu felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að kvörtun yðar beinist að nánar tilteknum ummælum starfsmanns Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um málefni sem var til umfjöllunar á þeim tíma í fjölmiðlum. Fæ ég því ekki séð að þér kvartið yfir tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi, þ.e. þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar varða ekki hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti eða umfram aðra.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Er umfjöllun minni um mál yðar því hér með lokið sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.