Fæðingar- og foreldraorlof. Málshraði.

(Mál nr. 11213/2021)

Kvartað var yfir málsmeðferð Vinnumálastofnunar í tengslum við umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Þar sem málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála brast skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið það til umfjöllunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar til mín, dags. 6. júlí sl., sem þér beinið að Vinnumálastofnun og lýtur að málsmeðferð stofnunarinnar í tengslum við umsókn yðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við það að tveir mánuðir hafi liðið frá því að þér lögðuð fram umsókn til Vinnumálastofnunar þar til óskað hafi verið eftir þeim gögnum sem vantað hafi upp á. Í símtali yðar við starfsmann umboðsmanns upplýstuð þér um að þér hefðuð kært ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála og að mál yðar væri þar til meðferðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og 1. mgr. 7. gr. nýrra laga nr. 144/2020, um sama efni, skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Í samræmi við framangreint og í ljósi þess að mál yðar er nú til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála bresta lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég tek þó fram að teljið þér yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi. Slík kvörtun þarf að berast innan árs frá því að niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.