Útlendingar. Brottvísun úr landi.

(Mál nr. 11217/2021)

Kvartað var fyrir hönd tveggja umsækjenda um alþjóðlega vernd yfir hvernig staðið var að brottvísun þeirra og beindist kvörtunin að Útlendingastofnun og lögregluyfirvöldum.

Ekki varð séð að samtökunum hefði verið veitt umboð til þess að fara með málefni umræddra einstaklinga og þar með leggja fram kvörtun fyrir þeirra hönd. Brast því lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til erindis yðar til mín fyrir hönd hjálparsamtakanna A, dags. 9. júlí sl., sem beint er að Útlendingastofnun og lögregluyfirvöldum og lýtur að því hvernig staðið var að brottvísun tveggja umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í erindinu kemur fram að samtökin leggi fram kvörtunina fyrir þeirra hönd þar sem eðli málsins samkvæmt hafi þeir ekki tök á að gera það sjálfir.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að ekki verður ráðið af erindi yðar að samtökunum hafi verið veitt umboð til þess að fara með málefni umræddra einstaklinga og þar með leggja fram kvörtun fyrir þeirra hönd. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar. Ég tek þó fram að fari svo að umræddir einstaklingar veiti samtökunum formlegt umboð getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Mun ég þá taka frekari afstöðu til þess að hvaða leyti kvörtunarefni yðar getur komið til skoðunar af minni hálfu að teknu tilliti til annarra skilyrða laga nr. 85/1997.

Þá tek ég fram að mér er kunnugt um umfjöllun fjölmiðla þess efnis að samtökin hafi leitað til nefndar um eftirlit með lögreglu með tilkynningu er lýtur að starfsaðferðum og framkomu lögreglu í viðkomandi máli. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við framangreint fjallar umboðsmaður almennt ekki um málefni sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Að því virtu og telji samtökin sig beitt rangsleitni að lokinni málsmeðferð nefndarinnar er þeim fært að leita til mín á nýjan leik með kvörtun er lýtur þeim málalyktum.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.