Dómstólar og réttarfar. Opinberir starfsmenn. Skipun í embætti héraðsdómara.

(Mál nr. 11220/2021)

Kvartað var yfir skipun héraðsdómara sem viðkomandi taldi skipaða með ólögmætum hætti.

Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki varð séð að svo væri í þessu tilfelli og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 13. júlí sl., sem lýtur að skipun tveggja ónafngreindra héraðsdómara sem þér teljið hafa vera skipaða með ólögmætum hætti. Jafnframt er vísað til gagna sem þér lögðuð fram í viðtali við starfsmann á skrifstofu umboðsmanns fyrr í sumar.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Af framangreindu leiðir að kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum aðila sem heyra undir eftirlit umboðsmanns er beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Ég fæ ekki séð af erindi yðar frá 13. júlí sl. að það lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist að yður sjálfum umfram aðra í framangreindum skilningi, heldur feli hún fyrst og fremst í sér ósk um að umboðsmaður svari almennri lögspurningu um almenn réttaráhrif þess ef héraðsdómari er skipaður með ólögmætum hætti. Í ljósi þess sem fram kemur í gögnunum sem þér lögðuð fram áður en erindið barst verður þó jafnframt ráðið að þér teljið yður eiga hagsmuni af því hvernig staðið var að skipun tiltekins dómara þar sem hann úrskurðaði yður í gæsluvarðhald og heimilaði húsleit hjá yður.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðs­manns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Þar sem fyrir liggur að umræddur dómari var skipaður í embætti frá 14. september 2015 fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 sé fullnægt. Óháð mati á þeim hagsmunum sem þér teljið yður hafa af skipun þessa tiltekna dómara eru þegar af þeirri ástæðu ekki lagaskilyrði til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að því marki sem hún beinist að þeirri ákvörðun. Jafnframt tel ég rétt að benda yður á að úrskurðir héraðsdómara um heimild til leitar og um gæsluvarðhald sæta kæru til Landsréttar, sbr. 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Það fellur þannig utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að fjalla um lögmæti slíkra úrlausna, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi þess að gögnin sem þér lögðuð fram að skrifstofu umboðsmanns fyrr í sumar varða ýmis tilvik og stjórnvöld árétta ég þær leiðbeiningar sem starfsmaður minn veitti þér af því tilefni, þ.e. að kvörtun þarf að varða hagsmuni þess sem hana leggur fram, beinlínis eða umfram aðra, málefnið þarf að falla undir starfssvið umboðsmanns og fullnægja þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 6. gr. laga nr. 85/1997. Hana er hægt að senda beint af vef umboðsmanns, www.umbodsmadur.is, og þar er jafnframt hægt að nálgast eyðublöð til útprentunar. Nánari upplýsingar er einnig hægt að nálgast á vefnum eða með því að hringja í síma 510-6700 milli klukka 9 og 15 alla virka daga. Berist mér slík formleg kvörtun frá yður verður hún yfirfarin og metið hvort hún verði tekin til frekari athugunar en að öðru leyti verður ekki brugðist sérstaklega við í tilefni af framlagningu þessara gagna.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.