Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11221/2021)

Kvörtun beindist m.a. að sveitarfélögum, Innheimtustofnun sveitarfélaga og barnaverndarnefnd en ekki varð fyllilega ráðið að hvaða atriðum í starfsemi þeirra eða ákvörðunum kvörtunin laut að.

Þar sem kvörtuninni fylgdu hvorki frekari gögn eða upplýsingar, né að samtöl við viðkomandi vörpuðu ljósi á þessi atriði, voru ekki uppfyllt skilyrði laga til að umboðsmaður fjallaði um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar sem mér barst 13. júlí sl. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni beinist hún m.a. að sveitarfélögunum, Innheimtustofnun sveitarfélaga og barnaverndarnefnd en af henni verður ekki fyllilega ráðið að hvaða atriðum í starfsemi þeirra eða ákvörðunum kvörtunin lýtur að.

Eins og fram hefur komið í samtölum starfsmanns míns við yður í kjölfar þess að kvörtun yðar barst er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar kemur m.a. fram í 1. mgr. að í kvörtun skuli lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar og að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik skuli fylgja kvörtun. Þá er samkvæmt 3. mgr. 6. gr. gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Þar sem kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn eða upplýsingar um þær ákvarðanir og athafnir þeirra stjórnvalda sem hún beinist að og þær upplýsingar sem þér hafið sent í tilefni af samtölum yðar við starfsmann minn varpa ekki nánari ljósi á þessi atriði, m.a. hvort athugasemdum yðar hafi verið komið á framfæri við viðkomandi stjórnvöld eða æðri stjórnvöld sem fara með eftirlit með þeim málaflokki sem um ræðir, eru ekki uppfyllt framangreind skilyrði laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.