Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11223/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hafnað var kröfu um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhús.

Kvörtunin byggðist á því að skilmálum í deiliskipulagi, um mænishæð húsa, hefði ekki verið breytt í samræmi við lög og hefðu því ekki tekið gildi. Þótt málatilbúnaður félagsins byggðist á þessum grundvelli varð ekki ráðið af þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni að þess hafi verið freistað að fá málið endurupptekið hjá nefndinni eða áðurnefnt byggingarleyfi fellt úr gildi eftir öðrum leiðum. Þar sem sumarhúsið studdist við byggingarleyfi, sem ekki hafði verið hnekkt, taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að synja kröfunni.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 14. júlí sl., fyrir hönd A ehf., yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 11. febrúar sl. í máli nr. 102/2020. Samkvæmt úrskurðinum hafnaði nefndin kröfu félagsins um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september sl. um að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð [...].

Sú afstaða, að synja kröfu A ehf., studdist m.a. við það að málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfisins frá 4. mars 2020 hefði verið lögmæt, en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 4. júní sama ár í máli nr. 29/2020 var því hafnað að ógilda byggingarleyfið. Sú niðurstaða byggðist m.a. á þeim forsendum að mænishæð samkvæmt byggingarleyfinu færi ekki í bága við mænishæð samkvæmt skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum, eins og þeim hefði verið breytt í mars 2007.

Kvörtunin, líkt og krafa félagsins til byggingarfulltrúa 24. ágúst sl. og stjórnsýslukæran 15. október sl., byggist hins vegar á því að skilmálum í deiliskipulaginu, um mænishæð húsa, hafi ekki verið breytt í samræmi við lög og hafi því ekki tekið gildi. Þótt málatilbúnaður félagsins byggist á þessum grundvelli verður ekki ráðið af þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni að þess hafi verið freistað að fá mál nr. 29/2020 endurupptekið eða áðurnefnt byggingarleyfi fellt úr gildi eftir öðrum leiðum. Þar sem sumarhúsið styðst við byggingarleyfi, sem ekki hefur verið hnekkt, tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu samkvæmt úrskurðinum frá 11. febrúar sl. að synja kröfu A ehf.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.