Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Stjórnvaldsfyrirmæli.

(Mál nr. 11225/2021)

Kvartað var yfir skilyrðum þess að lögreglustjóri veiti einstaklingum heimild til að gegna starfi dyravarðar. Nánar tiltekið því skilyrði að dyravörður hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á síðustu fimm árum.

Ekki varð séð að að fyrir lægi umsókn um leyfi til að starfa við dyravörslu. Þar með voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina. Að því leyti sem kvörtunin beindist að skilyrði í reglugerð benti umboðsmaður á að viðkomandi gæti freistað þess að bera athugasemdir sínar undir þann ráðherra sem fer með yfirstjórn málaflokksins.

     

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 15. júlí sl. sem lýtur að skilyrðum þess að lögreglustjóri veiti einstaklingum heimild til að gegna starfi dyravarðar, nánar tiltekið því skilyrði að dyravörður hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á síðustu fimm árum, sbr. ákvæði b-liðar 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni fenguð þér sekt vegna fíkniefnalagabrots fyrir u.þ.b. fjórum árum og uppfyllið þ.a.l. ekki umrætt skilyrði reglnanna.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 má enginn gegna dyravörslu nema þeir sem lögreglustjóri samþykkir. Samkvæmt a-lið 2. mgr. ákvæðisins skulu dyraverðir vera a.m.k. 20 ára auk þess að fullnægja ofangreindu skilyrði b-liðar ákvæðisins. Eru umrædd skilyrði reglnanna fortakslaus, þ.e. ekki er mælt fyrir um neinar undanþágur að þessu leyti. Reglugerð nr. 1277/2016 er sett á grundvelli laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skal nánar kveðið á um hæfni og þjálfun dyravarða í reglugerð. Að því leyti segir m.a. í ákvæðinu að heimilt sé að mæla fyrir um að dyraverðir hafi ekki gerst sekir um m.a. fíkniefnabrot á síðastliðnum fimm árum.

Af kvörtun yðar, svo og því sem fram kom í samtali starfsmanns míns við yður 22. júlí sl., verður ekki ráðið hvort þér hafið komið á framfæri við lögreglustjóra umsókn um leyfi til að starfa við dyravörslu. Að þessu leyti tek ég fram að samkvæmt þar til gerðu umsóknareyðublaði sem aðgengilegt er á vefsíðu lögreglunnar, www.logreglan.is, er gert ráð fyrir því að skila verði eyðublaðinu útprentuðu og undirrituðu á lögreglustöð. Að þessu leyti tek ég fram að ef þér hafið komið á framfæri umsókn um leyfi til að starfa við dyravörslu og henni verið synjað af lögreglustjóranum, eða ef þér munuð sækjast eftir slíku leyfi þegar fram líða stundir og verði henni synjað, getið þér, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, borið synjun á slíkri umsókn undir dómsmálaráðherra ef þér teljið tilefni til þess þrátt fyrir það sem að framan greinir.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Að þessu leyti, og þar sem kvörtun yðar beinist að umræddu skilyrði sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 1277/2016, vek ég jafnframt athygli yðar á því að reglugerðin er sett af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ef þér teljið tilefni til breytinga á ákvæðum hennar getið þér freistað þess að bera athugasemdir yðar þar að lútandi undir ráðherra sem fer með yfirstjórn málaflokksins. Að þessu gættu og með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.