Almannavarnir. Heilbrigðismál. COVID 19.

(Mál nr. 11227/2021)

Kvörtun beindist að heilbrigðisráðherra, embætti landlæknis og sóttvarnalækni og laut að sóttvarnaráðstöfunum.  

Starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni á grundvelli kvörtunar. Ekki er heldur gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningu. Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki varð séð að svo væri í þessu tilfelli og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla um kvörtunina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 16. júlí sl. sem beinist að heilbrigðisráðherra, embætti landlæknis og sóttvarnalækni og lýtur að sóttvarnaráðstöfunum, s.s. samkomutakmörkunum og öðrum aðgerðum, sem stjórnvöld hafa gripið til vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns og skal hann þá lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalds sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Af framangreindu leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um atriði af því tagi, heldur verður kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki er heldur gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Ég fæ ekki séð af erindi yðar að kvartað sé yfir tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi. Brestur því skilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar. Hins vegar er bent á að umboðsmaður hefur haft ýmsa þætti í aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 til athugunar, m.a. að eigin frumkvæði, og mun gera það áfram.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.