Persónuvernd og meðferð persónuuplýsinga. Tafir.

(Mál nr. 11232/2021)

Kvartað var yfir úrskurði Persónuverndar, m.a. að andmælaréttur hefði ekki verið virtur og stofnunin hefði ekki svarað beiðni um endurupptöku.

Mál eru almennt ekki tekin til meðferðar á grundvelli kvörtunar nema þau hafi verið endanlega verið til lykta leidd í stjórnsýslunni. Þar sem óskað hafði verið eftir endurupptöku m.a. á þeim grundvelli að andmælaréttur hefði ekki verið virtur taldi umboðsmaður ekki tímabært að taka þennan hluta kvörtunarinnar til frekari meðferðar. Hvað tafir á svörum snerti taldi umboðsmaður ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum að ástæða væri til að taka það til athugunar. 

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 25. júlí sl., yfir Persónuvernd. Kvörtun yðar lýtur annars vegar að úrskurði Persónuverndar frá 5. júlí sl. í máli nr. 2020051542, m.a. því að andmælaréttur yðar hafi ekki verið virtur við meðferð málsins, og hins vegar því að stofnunin hafi ekki svarað endurupptökubeiðni yðar, dags. 12. júlí sl.

Hvað varðar fyrri hluta kvörtunar yðar, þ.e. er lýtur að úrskurði Persónuverndar, segir í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við þetta verður mál almennt ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Samkvæmt gögnum málsins hafið þér þegar óskað endurupptöku málsins hjá Persónuvernd, m.a. á þeim grundvelli að andmælaréttur yðar hafi ekki verið virtur við meðferð málsins sem kvörtun yðar til mín lýtur einnig að. Af þeim sökum tel ég ekki tímabært að taka þennan hluta kvörtunar yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Að því er síðari hluta kvörtunar yðar varðar tek ég fram að umboðsmaður hefur almennt litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun til hans vegna þess að dráttur hafi orðið á því að stjórnvald svaraði erindi frá honum leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til hans með kvörtun þar að lútandi. Af gögnum sem fylgdu kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið ítrekað erindi yðar, dags. 12. júlí sl. Auk þess tel ég að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á svörum við erindi yðar að tilefni sé til að ég taki erindi yðar til frekari athugunar að svo stöddu.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á svörum Persónuverndar á erindi yðar frá 12. júlí sl. að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu. Til viðbótar getið þér, ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fengnu svari Persónuverndar við endurupptökubeiðni yðar, leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi. Slík kvörtun þarf að berast innan árs frá því niðurstaða Persónuverndar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.