Gjafsókn.

(Mál nr. 11233/2021)

Kvartað var yfir gjafsóknarnefnd og dómsmálaráðuneytinu fyrir að hafa ítrekað veitt barnsföður gjafsókn vegna dómsmála gagnvart viðkomandi í tengslum við mál er vörðuðu dóttur þeirra.

Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Þótt ljóst sé að ákvörðun um gjafsókn geti stuðlað að málshöfðun sem ella hefði ekki orðið taldi umboðsmaður þó ekki að þessi aðstaða hefði svo afgerandi áhrif á stöðu gagnaðila dómsmáls að hún skapaði honum stöðu aðila máls við ákvörðunina um gjafsókn.  Ekki voru því skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 26. júlí sl., yfir gjafsóknarnefnd og dómsmálaráðuneytinu. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að því að barnsföður yðar hafi ítrekað verið veitt gjafsókn vegna dómsmála sem beinast að yður í tengslum við mál er tengjast dóttur yðar. Þér vísið m.a. til þess að gjafsóknarnefnd hafi ekki lagt mat á umsóknir barnsföður yðar í samræmi við lög og reglur. Jafnframt til þess að gjafsóknarnefnd hafi aldrei leitað álits yðar eða lögmanns yðar um réttmæti þeirra umsókna sem hann hefur lagt fram og þannig veitt yður andmælarétt.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er nánar kveðið á um starfssvið umboðsmanns að þessu leyti. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Þær athafnir, ákvarðanir eða athafnaleysi stjórnvalda sem kvörtun lýtur að verða því að snerta beint hagsmuni eða réttindi þess sem kvartar umfram aðra, s.s. með því að beinast sérstaklega að honum.

Kvörtun yðar beinist ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda gagnvart yður í ofangreindum skilningi heldur er þar um að ræða ákvörðun sem beindist að öðrum einstaklingi. Ég tek í því sambandi fram að í samræmi við almennt viðurkennd viðhorf verður að leggja til grundvallar að það sé einungis umsækjandi um gjafsókn sem telst aðili að máli fyrir gjafsóknarnefnd en ekki sá sem ætlunin er að stefna í fyrirhuguðu dómsmáli.

Ljóst er að ákvörðun um gjafsókn getur vissulega stuðlað því að einstaklingur höfði mál sem hann hefði ekki gert ef gjafsóknar hefði ekki notið við. Að mínum dómi verður þó ekki talið að þessi aðstaða hafi svo afgerandi áhrif á stöðu gagnaðila dómsmáls að hún skapi honum stöðu aðila máls við sjálfa ákvörðunina um gjafsókn. Ég vek athygli yðar á því að umboðsmaður danska þjóðþingsins hefur komist að sambærilegri niðurstöðu vegna kvartana sem borist hafa af sams konar toga og kvörtun yðar, sjá hér árskýrslu umboðsmanns danska þjóðþingsins (Folketingets Ombudsmands Beretning) 1997, bls. 168.

Með vísan til þess sem að framan er rakið um hlutverk umboðsmanns Alþingis og meginreglu 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 tel ég að ekki séu að lögum skilyrði til þess að ég taki erindi yðar til nánari athugunar sem kvörtun. Lýk ég því umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.