Málefni fatlaðs fólks. Alþingi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11235/2021)

Kvartað var yfir að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefði ekki verið lögfestur og markmiði þingsályktunartillögu frá 2019 hefði þar með ekki verið náð.

Starfssvið umboðsmanns tekur almennt ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og því ekki á hans færi að fjalla um kvörtunina hvað það snerti. Að því marki sem kvörtunin kunni að beinast að stjórnsýslu ráðuneyta við undirbúning lögfestingar samningsins minnti umboðsmaður á að starf hans er hluti af því eftirliti sem Alþingi hefur með stjórnsýslunni. Almennt sé ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um málefni sem lög geri ráð fyrir að Alþingi og nefndir þess taki fyrir. Samkvæmt lögum sé gert ráð fyrir eftirliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis með framkvæmd þingsályktana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 27. júlí sl., yfir því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi ekki verið lögfestur. Ég skil kvörtun yðar á þann veg að þér gerið athugasemdir við að því markmiði þingsályktunar nr. 33/149, frá 3. júní 2019, að lögfesta samninginn eigi síðar en 13. desember 2020 hafi ekki verið náð.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að forsætisráðherra leggur í október á hverju ári fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar auk yfirlits um framkvæmd þingsályktana síðastliðin þrjú ár, nema lög kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal enn fremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Nefndin getur lagt fyrir þingið álit sitt á skýrslu ráðherra og, ef hún telur ástæðu til, gert tillögur til þingsins um einstök atriði í skýrslunni, sbr. 8. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Sú skylda sem ákvæðið leggur á forsætisráðherra miðar að því að styrkja stöðu þingsins og tryggja betur framkvæmd ályktana þess, sjá þskj. 1805 á 139. löggjafarþingi 2010-2011, bls. 23.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur almennt ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Að því marki sem kvörtun yðar beinist að framgöngu Alþingis eða nefnda þess er því ljóst að það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um hana. Að því marki sem kvörtunin kann að beinast að stjórnsýslu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands við undirbúning lögfestingar samningsins minni ég á að starf umboðsmanns er hluti af því eftirliti sem Alþingi hefur með starfsemi stjórnsýslunnar. Er því almennt ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um málefni sem lög gera ráð fyrir að Alþingi og nefndir þess taki fyrir. Það getur hins vegar farið eftir lyktum slíkra mála og afmörkun á vettvangi Alþingis hvort og að hvaða marki umboðsmaður tekur þau til athugunar og þá með hliðsjón af starfssviði hans. Eins og að framan greinir gera lög nr. 55/1991 ráð fyrir eftirliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með framkvæmd þingsályktana sem þingið hefur samþykkt síðustu ár.

Í samræmi við það sem að framan er rakið eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar og lýk því umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Til upplýsingar bendi ég yður á að ráða má af skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2019, sem lögð var fyrir Alþingi 3. nóvember 2020, að framkvæmd framangreindrar þingsályktunar sé hafin. Árið 2018 hafi verið skipaður vinnuhópur til þess að skrifa fyrstu skýrslu Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Skýrsluskrifum hafi lokið haustið 2020 og stefnt að því að hún yrði send til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks síðar á árinu 2020. Í skýrslunni sé leitast við að gefa sem gleggsta mynd af því hvernig samningnum hefur verið framfylgt og varpa ljósi á ýmsar ráðstafanir sem grípa þarf til áður en samningurinn er lögfestur. Þá segir í skýrslu forsætisráðherra að til umræðu sé að útbúa landsáætlun um málefni fatlaðs fólks á Íslandi sem byggi á ákvæðum samningsins og miðar að fullri innleiðingu hans, sjá þskj. 241 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, bls. 4. Skýrsla forsætisráðherra fyrir árið 2020 hefur enn sem komið er ekki verið lögð fyrir Alþingi. Gera má ráð fyrir umfjöllun um framkvæmd þingsályktunar nr. 33/149 í þeirri skýrslu sem þér getið kynnt yður á www.althingi.is þegar þar að kemur.