Lögreglu og sakamál. Gjafsókn.

(Mál nr. 10384/2020)

A og B kvörtuðu yfir lögreglu, Neyðarlínunni, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara, þar á meðal þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að staðfesta ákvörðun héraðssaksóknara um að fella niður mál vegna andláts dóttur þeirra.

Þar sem viðkomandi ákváðu að fela lögmanni að höfða skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu vegna andlátsins lauk umboðsmaður umfjöllun sinni um málið. Um leið lagði hann til við dómsmálaráðherra að veitt yrði gjafsókn í dómsmálinu.

      

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. júlí 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til fyrri samskipta vegna kvörtunar yðar sem umboðsmanni Alþingis barst í upphafi síðasta árs og beindist að lögreglu, Neyðar­línunni, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara og laut m.a. að þeirri ákvörðun ríkissak­sóknara að staðfesta ákvörðun héraðs­sak­sóknara um að fella niður mál vegna andláts dóttur yðar, C.

Með hliðsjón af því að þér hafið nú ákveðið að fela lögmanni að höfða skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu vegna andláts C lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hjálagt fylgir bréf mitt til dóms­mála­ráðherra þar sem ég legg til að yður verði veitt gjafsókn til höfðunar málsins, sbr. d-lið 2. mgr. 10. gr. laganna.

Fari svo að þér ákveðið síðar að höfða ekki dómsmál getið þér leitað til mín á nýjan leik. Mun ég þá ekki líta svo á að ársfrestur, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sé liðinn vegna þeirra atriða sem kvörtun yður lýtur að, en þó að því gættu að leitað sé til mín strax og þér hafið tekið ákvörðun um framangreint.

Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umb.althingi.is.

  


     

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra, dags. 2. júlí 2021, hljóðar svo:

   

I

Í janúar 2020 leituðu A og B til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að lögreglu, Neyðar­línunni, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara og laut m.a. að starfs­háttum lögreglu í tengslum við andlát dóttur þeirra, C, í kjölfar afskipta af henni og ákvörðun ríkissaksóknara um að staðfesta ákvörðun um niðurfellingu sakamáls vegna andlátsins.

Þar sem fram kom við upphaf athugunar umboðsmanns að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefði umrætt mál til athugunar var ákveðið að bíða þess að nefndin lyki meðferð málsins áður en umboðsmaður tæki frekari ákvarðanir um framhald athugunar sinnar.

Með bréfi, dags. 17. febrúar sl., barst ákvörðun nefndarinnar frá 15. sama mánaðar og í framhaldi af því athugasemdir A og B við hana og ósk þeirra um málið yrði tekið til frekari athugunar. Hinn 10. mars sl. var óskað eftir yfirliti yfir þau gögn málsins sem lágu fyrir hjá ríkissaksóknara þegar ákvörðun um niðurfellingu málsins var staðfest og tiltekinna upplýsinga og skýringa frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og nefnd um eftirlit með störfum lögreglu.

Eftir að svör bárust fundaði ég með A og B. Í framhaldi af því upplýstu þau mig um að þau hefðu ákveðið að fela lögmanni að höfða skaðabótamál fyrir sína hönd og óskuðu eftir því að ég nýtti heimild mína til að leggja til að þeim yrði veitt gjafsókn í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   

II

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður lagt til við ráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. Upphaflega var mælt um slíka heimild til handa umboðs­manni í 10. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, sbr. þingsályktun nr. 11/110. Í greinargerð með tillögu til þeirrar þingsályktunar kom fram að með því ákvæði væri umboðsmanni heimilað að leggja til að þeim er kvörtun hefur sett fram verði veitt gjafsókn „til að fá leyst úr mikilsverðum vafaatriðum fyrir dómstólum“. (Sjá þskj. 658 á 110. löggjafarþingi 1987-1988, bls. 6.) Í nefndaráliti allsherjarnefndar um tillöguna kom jafnframt fram að nefndin legði „mikla áherslu á að umboðsmaður [fengi] heimild til að veita gjafsókn þar sem hér [væri] um að ræða nýtt embætti sem ætlað [væri] að stuðla að réttarbótum í þjóðfélaginu“. (Sjá þskj. 947 á 110. löggjafarþingi 1987-1988.)

Hjá umboðsmanni er fyrir hendi áralöng framkvæmd um að best fari á því að dómstólar útkljái ágreining sem lýtur að sönnunaratriðum enda er við úrlausn slíkra mála iðulega nauðsyn á frekari sönnunarfærslu, svo sem  matsgerðum dómkvaddra manna og munnlegum skýrslum. Í samræmi við það lýkur umboðsmaður á ári hverju nokkrum fjölda mála með ábendingu um að kvörtun varði réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Af því einu leiðir þó ekki að umboðsmaður nýti heimild sína samkvæmt d-lið sama ákvæðis, enda er sá almenni möguleiki fyrir hendi að sækja um gjafsókn í samræmi við ákvæði XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eða eftir atvikum sérlagaákvæði, heldur verður slík ákvörðun að byggjast á lagasjónarmiðum sem eru í málefnalegu samhengi við það markmið sem stefnt var að með lögfestingu heimildarinnar.

Af hálfu umboðsmanns hefur verið litið svo á að helst komi til greina að beita fyrrgreindri heimild í tilvikum þar sem hann hefur látið í ljós álit sitt á því að athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög og beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, en stjórnvald hefur ekki farið að tilmælunum enda sé það þá jafnframt mat umboðsmanns að það hafi almenna þýðingu að fá bindandi úrlausn um viðkomandi lagaatriði. Þetta útilokar þó ekki að fleiri atriði geti réttlætt beitingu heimildarinnar.

   

III

Rétturinn til lífs og mannhelgi nýtur verndar samkvæmt íslenskum stjórnlögum og alþjóðasamningum um mannréttindi, sbr. m.a. 2. gr. mann­réttinda­sáttmála Evrópu. Af þessu leiðir að gera verður ríkar kröfur til þeirrar valdbeitingar sem talin er nauðsynleg við framkvæmd handtöku og þá því frekar þegar handtaka leiðir til líkamstjóns eða dauða. Af réttinum til lífs leiðir einnig að tryggja ber að andlát sé upplýst með viðhlítandi hætti, s.s. opinberri rannsókn, og fyrir hendi séu úrræði til að þeir sem bera ábyrgð á andláti séu látnir sæta henni með einum eða öðrum hætti, þ.á m. með einkaréttarlegum úrræðum. Til hliðsjónar má hér vísa til dóma yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Lopes de Sousa Fernandes gegn Portúgal, Calvelli og Ciglio g. Ítalíu og Salman g. Tyrklandi og dóm dómstólsins í máli Hugh Jordan g. Stóra-Bretlandi.

Ég tel ljóst að rannsókn á andláti C lúti að mikilvægum hagsmunum foreldra hennar, A og B. Af samskiptum þeirra við umboðsmann verður ekki annað ráðið en að þau telji lögregluna bera ábyrgð á andláti hennar sem og að sú rannsókn sem fór fram hjá nefnd um eftirlit með störfum lögreglu sé haldin annmörkum. Við þær aðstæður sem uppi eru samkvæmt þessu er það álit mitt að eðlilegt sé að dómstólar leysi úr mögulegum ágreiningi um þessi atriði, en líkt og áður greinir hafa A og B nú kosið að leggja málið í þann farveg.

   

IV

Samkvæmt 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 á maður sem ekki hefur verið borinn sökum í sakamáli engu að síður rétt til bóta ef hann hefur beðið tjón af aðgerðum samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna, þ.m.t. handtöku. Bóta­ábyrgð samkvæmt ákvæðinu er í eðli sínu hlutlæg, sbr. dóma Landsréttar frá 22. febrúar 2019 í máli nr. 589/2018 og 31. janúar 2020 í máli nr. 113/2019. Samkvæmt 1. mgr. 248. gr. laganna skal sækja bótakröfu sam­kvæmt 246. gr. í einkamáli á hendur ríkinu en veita skal stefnanda, enda sé um einstakling að ræða, gjafsókn í héraði. Til grundvallar þessu liggur skýr löggjafarvilji um að auðvelda þeim sem hafa orðið fyrir tjóni vegna aðgerða lögreglunnar að leita réttar síns. Þótt staða A og B sé að nokkru samkynja þeirri sem fjallað er um í fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 88/2008 verður að ganga út frá því að þau eigi hvorki óskilyrtan rétt til gjafsóknar samkvæmt þeim lögum né öðrum.  Í ljósi alls framangreinds legg ég til við yður, frú dómsmála­ráð­herra, að A og B verði veitt gjaf­sókn, sbr. d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, til höfðunar máls til skaðabóta á hendur íslenska ríkinu vegna andláts dóttur þeirra, C. Í því felst eðli málsins samkvæmt ekki afstaða mín til atvika málsins eða lagaatriða að öðru leyti en því að þau vafaatriði sem uppi eru séu þess eðlis að rétt sé að A og B fái óhindrað leyst úr þeim fyrir dómstólum og sér að skaðlausu.