Bótaábyrgð ríkisins. Tafir. Skaðabætur. Vextir og dráttarvextir.

(Mál nr. 11175/2021)

Kvartað var yfir að dregist hefði að greiða sanngirnisbætur.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra og síðar þeim sem kvartaði voru bæturnar greiddar eftir að umboðsmaður grennslaðist fyrir um málið. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar hvað þetta snertir. Í kjölfar greiðslunnar spurði viðkomandi umboðsmann hvort hann ætti rétt á vöxtum vegna tafanna. Ekki varð séð að leitað hefði verið eftir afstöðu sýslumannsins til þess og þar með ekki skilyrði til að skoða það. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 14. júní sl. yfir því að tafist hafi að greiða yður sanngirnisbætur sem þér ættuð rétt á.

Í tilefni af kvörtuninni var sýslumanninum á Norðurlandi eystra ritað bréf þar sem þess var óskað að stjórnvaldið veitti nánari upplýsingar vegna málsins. Samkvæmt svörum stjórnvaldsins, sem bárust 19. júlí sl., og tölvupósti yðar 16. ágúst sl. hafið þér nú fengið þær bætur greiddar sem þér áttuð rétt á. Af þeim sökum tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar.

Í tölvupósti yðar 16. ágúst sl. er óskað eftir afstöðu til þess hvort þér eigið rétt á vöxtum vegna tafa sem þér teljið að hafi orðið á að yður yrðu greiddar sanngirnisbæturnar sem þér áttuð rétt á. Í tilefni af því bendi ég á að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns almennt að hafa eftirlit með stjórn­völdum og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórn­völdum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Af þessari stöðu leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra. Ég fæ hins vegar ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þér hafið óskað eftir afstöðu sýslumannsins á Norðurlandi eystra til þess hvort þér eigið rétt á vöxtum. Af þeim sökum tel ég ekki uppfyllt skilyrði til að taka þennan þátt málsins til athugunar, heldur tel rétt að þér óskið eftir afstöðu stjórnvaldsins ef þér teljið tilefni til. Þér getið leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið yður beitta rangsleitni að fenginni afstöðu stjórnvaldsins.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.