Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11193/2021)

Ábending barst vegna dráttar á afhendingu sáttavottorðs af hálfu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. 

Fyrir lá að vottorðið hafði verið gefið út og þetta því fremur almenn athugasemd um stjórnsýslu sýslumanns en eiginleg kvörtun. Ekki var því tilefni til að fjalla sérstaklega um þann drátt sem varð á afhendingunni. Hins vegar vakti umboðsmaður athygli á að hann hefði haft afgreiðslutíma mála hjá sýslumanninum til skoðunar og brugðist hefði verið við í kjölfar þess eins sjá mætti á vef embættisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 24. júní sl., yfir þeim drætti sem varð á afhendingu sáttavottorðs af hálfu sýslumannsins á höfuðborgar­svæðinu í máli yðar.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni var vottorðið gefið út 2. febrúar sl. en þér fenguð það afhent 24. júní sl. eftir að lögmaður yðar hafði samband við embættið. Í ljósi framangreinds dráttar viljið þér koma á framfæri athugasemdum við stjórnsýslu og málsmeðferð sýslu­manns í málinu enda geti slíkar tafir haft veigamikil áhrif á mál einstaklinga.

Ég legg þann skilning í erindi yðar að um sé að ræða almenna athugasemd um stjórnsýslu embættis sýslumanns frekar en eiginlega kvörtun enda liggur fyrir að yður hefur nú verið afhent umrætt vottorð og verið veittar tilteknar skýringar. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur einhvern þann sem lögin taka til hafa beitt sig rangsleitni kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af framangreindu ákvæði laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grund­velli kvörtunar en farið er yfir almennar ábendingar sem umboðsmanni berast með tilliti til þess hvort tilefni sé til að umboðsmaður taki atriði sem koma fram í þeim til athugunar að eigin frumkvæði. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Í ljósi alls framangreinds tel ég ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þann drátt sem varð á afhendingu sáttarvottorðs í máli yðar en þó rétt er að vekja athygli á því að umboðsmaður hefur haft til skoðunar afgreiðslutíma mála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, þ. á m. í sifjamálum. Í tilefni af þeirri athugun hefur dómsmálaráðuneytið greint frá ýmsum aðgerðum sem bæði það og sýslumaður hafa ráðist í til úrbóta, þar má m.a. nefna skipulagsbreytingar, endurskoðun verklags og endurmenntun starfsfólks. Nánari umfjöllun má nálgast á vefsíðu umboðsmanns Alþingis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.