Fjölmiðlun.

(Mál nr. 11200/2021 & 11254/2021)

Kvartað var yfir því að fjölmiðlanefnd, sem hefur eftirlit með fjölmiðlum, hefði stofnað eigin fjölmiðil. Það félli ekki að hlutverki nefndarinnar auk þess sem fjölmiðillinn hefði ekki verið skráður hjá henni. Jafnframt var kvartað yfir að ekki hefði verið gerður samstarfssamningur við Neytendastofu og nefndin því vanrækt skyldur sínar.

Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki varð séð að svo væri í þessu tilfelli og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla um kvörtunina. Aftur á móti leit umboðsmaður svo á að með kvörtununum væri bent á mál sem viðkomandi teldi tilefni fyrir umboðsmann til að taka til með­ferðar að eigin frumkvæði. Þessari ábendingu, eins og öðrum ábendingum sem umboðsmanni Alþingis bærust, yrði haldið til haga.

   

Umboðsmaður lauk máliunum með bréfi, dags. 20. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Ég vísa til kvartana yðar 29. júní og 18. ágúst sl. yfir því að fjöl­miðlanefnd, sem hefur eftirlit með fjölmiðlum, hafi stofnað eigin fjöl­miðil. Er þar átt við nýtt hlaðvarp nefndarinnar, „Fjórða valdið“. Það falli ekki að hlutverki hennar auk þess fjölmiðillinn hafi ekki verið skráður hjá nefndinni. Jafnframt er kvartað yfir því að ekki hafi verið gerður samstarfssamningur við Neytendastofu þótt kveðið sé á um að slíkan samning skuli gera samkvæmt 13. gr. starfsreglna nefndar­innar, nr. 1363/2011. Byggist þessi kvörtun á því að nefndin hafi vanrækt skyldur sínar í starfi.

Í fyrri kvörtuninni er rakið að nefndin hafi 28. júní sl. hafið rekstur fjölmiðils. Samkvæmt henni er þess þó ekki getið að hvaða marki efni hennar snertir hagsmuni yðar beint, en fyrir liggur að þér eruð meðal starfsmanna fjölmiðilsins X sem og einn eigenda einkahlutafélags sem á hann. Af síðari kvörtun yðar verður helst ráðið að þér teljið efni hennar snerta hagsmuni yðar þar sem skortur á því að samstarfssamningurinn hafi verið gerður hafi haft í för með sér að enginn hafi eftirlit með því að óskráðir fjölmiðlar og auglýsingamiðlar fylgi reglum um áfengisauglýsingar, ólíkt því sem eigi við um skráða fjölmiðla.

Í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um hlutverk umboðmanns. Þar segir að hlutverk hans sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur m.a. fram að allir einstaklingar geti kvartað til umboðsmanns og sama gildi um félög. Því næst segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert bein­línis hagsmuni hans eða réttindi geti þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frumvarpsins. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Af framangreindu leiðir að kvörtun í máli einstaklings eða lög­aðila verður að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum aðila sem heyra undir eftirlit umboðsmanns er beinast sér­stak­lega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.           

Í kvörtun yðar frá 29. júní sl. er þess getið að með því að hefja rekstur fjölmiðils sé fjölmiðlanefnd í samkeppni um efni við aðra fjölmiðla. Þrátt fyrir það er ekki að sjá að á því sé byggt að sú ætlaða samkeppni beinist að fjölmiðlinum sem þér tengist umfram aðra fjölmiðla. Af kvörtuninni verður því hvorki ráðið að efni hennar snerti bein­línis hagsmuni eða réttindi yðar eða þess fjölmiðils sem þér tengist. Hið sama á við um kvörtun yðar frá 18. ágúst sl., enda eru þeir hagsmunir, sem helst verður ráðið að kvörtunin byggist á, ekki þess eðlis að þeir geti leitt til aðildar að máli hjá umboðsmanni. Með vísan til framangreinds tel ég ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvartanir yðar verði teknar til frekari meðferðar.

Þess skal getið að samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þar segir einnig að hann geti jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórn­valds til almennrar athugunar. Í samræmi við það sem kemur fram í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögunum og rakið er hér að framan lít ég svo á að með kvörtunum yðar hafið þér bent á mál sem þér teljið tilefni fyrir umboðsmann að taka til með­ferðar að eigin frumkvæði. Þessari ábendingu, eins og öðrum ábendingum sem umboðsmanni Alþingis berast, verður haldið til haga.

Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis er verklag hans þannig að farið er yfir erindið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mann­afla umboðsmanns. Verði málefnið tekið til athugunar í tilefni af ábendingu er þeim sem vekur máls á því almennt ekki tilkynnt um það heldur er upplýst um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvartanir yðar verði teknar til meðferðar og lýk ég því athugun minni á þeim, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.