Opinberir starfsmenn. Breytingar á störfum. Ráðningar í opinber störf. Auglýsing á lausu starfi.

(Mál nr. 11226/2021)

Kvartað var yfir breytingum sem gerðar voru á störfum og verksviði viðkomandi hjá X og að tiltekið starf hjá stofnuninni hefði ekki verið auglýst áður en annar starfsmaður fékk það. 

Að virtum fyrirliggjandi gögnum og í ljósi þeirra heimilda sem stjórnendur ríkisstofnana hafa varð ekki ráðið að umboðsmaður hefði forsendur til að gera athugasemdir við téða breytingu á störfum og verksviði viðkomandi. Í ljósi aðstæðna og með tilliti til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins  voru ekki heldur forsendur til að gera athugasemdir við að áðurnefnt starf hefði ekki verið auglýst laust til umsóknar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 11. júlí sl., yfir breytingum sem voru gerðar á störfum og verksviði yðar hjá X samkvæmt tilkynningu [...] og því að tiltekið starf hjá stofnuninni hafi ekki verið auglýst áður en það var fengið öðrum starfsmanni hennar.

Eins og yður er kunnugt um er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt ákvæðinu getur starfsmaður kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga, enda skýri hann ráðherra eða forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum. Þá er kveðið á um að ef breytingarnar hafa í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi skuli hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í embætti eða jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. 46. gr.

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtuninni var tilkynnt um að störfum yðar og verksviði yrði breytt þannig að þér sinntuð verkefnum [...]. Var það gert að undangenginni málsmeðferð þar sem yður var gefinn kostur á að tjá yður um fyrirhugaðar breytingar, auk þess sem um þær hafði áður verið rætt á fundi og síðar voru þær sérstaklega rökstuddar með bréfi 13. apríl sl. Að virtum fyrirliggjandi gögnum sem og í ljósi þeirra heimilda sem stjórnendur ríkisstofnana hafa á grundvelli 19. gr. laga nr. 70/1996 verður ekki ráðið af gögnum málsins að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við téða breytingu á störfum og verksviði yðar.

Sem fyrr greinir lýtur kvörtunin jafnframt að því að tiltekið embætti hjá X hafi ekki verið auglýst, en af gögnum málsins verður ráðið að samstarfsmanni yðar hafi verið fengið það á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996. Í ljósi þessara aðstæðna var stofnuninni ekki skylt samkvæmt lögum að auglýsa embættið laust til umsóknar, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að flytja mann til í embætti samkvæmt 36. gr. laganna án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar. Ég hef því ekki forsendur til að gera athugasemdir við að embættið hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.