Opinberar framkvæmdir, útboð og innkaup. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 11243/2021)

Kvartað var yfir því að slökkt hefði verið á hleðslustöðvum Orku náttúrunnar ohf. fyrir rafbíla í kjölfar úrskurðar kærunefndar útboðsmála. 

Til að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Svo var ekki í þessu tilfelli og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 11. ágúst sl. yfir því að slökkt var á hleðslustöðvum Orku náttúrunnar ohf. fyrir rafbíla í kjölfarið á úrskurði kærunefndar útboðsmála 11. júní sl. í máli nr. 44/2020.

Samkvæmt úrskurðinum var samningur Reykjavíkurborgar og Orku náttúrunnar ohf. frá 2. október sl., um uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í Reykjavík, lýstur óvirkur frá uppkvaðningu úrskurðarins. Með ákvörðunum 28. júlí sl. í málum nr. 27 og 28/2021 hafnaði kærunefndin annars vegar beiðni Reykjavíkurborgar um að fresta réttaráhrifum úrskurðarins í máli nr. 44/2020 og hins vegar beiðni Orku náttúrunnar ohf. um að málið yrði endurupptekið.

Kærunefnd útboðsmála hefur því lýst umræddan samning milli Reykjavíkurborgar og Orku náttúrunnar ohf. óvirkan. Eins og nánar greinir í úrskurðinum í máli nr. 44/2020 felst í því að réttindi og skyldur samkvæmt aðalefni samningsins falla niður. Kvörtun yðar lýtur því að ákvörðun sem Reykjavíkurborg hefur tekið gagnvart Orku náttúrunnar ohf. á grundvelli úrskurðarins.

Í ljósi þess bendi ég á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að aðrir geta ekki borið fram kvörtun til umboðsmanns en þeir sem halda því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtunin verður því að sýna fram á að brot stjórnvalds geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. (Sjá nánar Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Þótt ákvörðunin, sem kvörtun yðar lýtur að, kunni að hafa óbein áhrif á eigendur rafbíla í Reykjavík varðar hún fyrst og fremst réttarsamband Reykjavíkurborgar og Orku náttúrunnar ohf. á grundvelli áðurnefnds samnings sem kærunefnd útboðsmála lýsti óvirkan samkvæmt úrskurðinum í máli nr. 44/2020. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 til að kvörtun yðar yfir ákvörðuninni verði tekin til meðferðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.