Almannatryggingar. Sjúkratryggingar. Greiðsluþátttaka.

(Mál nr. 11244/2021)

Kvartað var yfir samskiptum við heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands í tengslum við fyrirspurn þar sem óskað var eftir aðstoð við að útvega tiltekna hjálma.

Ekki varð séð að beiðnin félli undir ákvæði laga um sjúkratryggingar og kvörtunin því ekki tekin til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 11. ágúst sl. sem lýtur að samskiptum yðar við heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands í tengslum við fyrirspurn yðar þar sem þér óskuðuð eftir aðstoð við að útvega hjálma, þ.e. öryggishjálm og klifurhjálm, sem þér munuð þurfa vegna atvinnu yðar, sem og reiðhjólahjálm, af tiltekinni gerð.

Ég tel ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Horfi ég þá til þess að ekki verður séð að ofangreind beiðni yðar falli undir ákvæði laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Þá liggur einnig fyrir, s.s. ráðið verður af gögnum sem borist hafa vegna kvörtunarinnar, að ráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands hafi gætt að skyldu sinni til að svara skriflegum erindum yðar og leiðbeint yður eftir því sem kostur var.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.