Jarðamál. Eignir ríkisins. Ríkisjarðir. Ráðstöfun ríkiseigna.

(Mál nr. 11246/2021)

Kvartað var yfir því hvernig staðið var að sölu ábúðarjarða í Garðahverfi á Álftanesi til Garðabæjar fyrir tæplega 30 árum, að viðkomandi taldi. Salan hefði verið í andstöðu við þágildandi ábúðarlög. 

Þar sem kvörtunin barst ekki innan þess tímafrests sem mælt er fyrir í lögum um umboðsmann Alþingis og voru ekki skilyrði til að hann gæti tekið hana til meðferðar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 13. ágúst sl., sem lýtur að því hvernig staðið var að sölu ábúðarjarða í Garðahverfi á Álftanesi til Garða­bæjar, sem þér teljið hafa farið fram árið 1992. Er það mat yðar að sala jarðanna hafi farið fram í andstöðu við þágildandi ábúðarlög nr. 64/1976 og óskið þér eftir áliti umboðsmanns Alþingis á því hvort sala jarðanna hafi verið í samræmi við lög.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslu­gerningur  sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú að kvörtun yðar lýtur að því hvernig staðið hafi verið að sölu tiltekinna ábúðar­jarða árið 1992. Er því ljóst að kvörtunin barst ekki innan þess tíma­frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.